Laugardagur 14.04.2012 - 00:48 - FB ummæli ()

Fyrsti og síðasti dagur lífsins

Mynd af fossiMér þykir vænt um þig.

Ég elska þig.

Þú skiptir mig miklu máli.

Þú ert mér dýrmæt/ur.

Mikið er ég þakklát/ur fyrir þig.

 

Hversu oft segjum við þessi orð í raun og veru? Ætli við hugsum þau ekki mun oftar en við segjum þau. Stundum gleymum við þeim í amstri dagsins. Stundum gerum við ráð fyrir að allt geti verið nokkuð fyrirsjáanlegt ef við pössum bara nógu vel upp á að halda okkur innan þægindahringsins með allt í rútínu, röð og reglu. Við gerum sjaldnast ráð fyrir því að lífið færi okkur inn á nýjar óþekktar brautir á morgun.

Hvað gerist þegar ferðinni var heitið til Ítalíu en við erum svo allt í einu lent í Amsterdam? Við erum engan veginn undirbúin undir þann áfangastað. Þannig er lífið líka. Stundum erum við komin á áfangastað sem var engan veginn á áætlun, ekki  inni á landakortinu, engin ferðaáætlun er til og við erum komin langt út fyrir þægindahringinn.

Ég hef bæði lesið um mörg dæmi og þekki það sjálf hvernig tilveran verður ekki söm á ný þegar óvæntir atburðir verða. Fólk óskar þess að hafa eytt minni tíma á skrifstofunni og meiri tíma með börnunum sínum, að hafa dansað meira berfætt í rigningunni, látið vaða í það sem það langaði alltaf til, gert fleiri mistök, tekið minna til á heimilinu en verið meira umkringt vinum og ættingjum. Það óskar þess að hafa notið náttúrunnar meira. Farið hvenær sem er í fína kjólinn, notað sparikremin, drukkið úr sparistellinu og borðað strax bestu molana úr konfektkassanum.

Til hvers að spara það að vera til í dag þegar maður veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér? Til hvers að spara orðin sem bærast innra með okkur en við þorum ekki að segja?

Í dag er fyrsti dagur þess sem þú átt ólifað. Lifðu honum eins og hann væri þinn síðasti.

 

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur