Þriðjudagur 24.04.2012 - 00:39 - FB ummæli ()

Landsdómsmálinu er lokið – nú er röðin komin að almannahagsmunum

Ég sat á pöllum Alþingis þegar þingheimur tók ákvörðun um hverja skyldi sækja til saka að loknum góðum störfum þingmannanefndarinnar. Ég var og er enn ósátt við hvernig málið fór í höndum Alþingis. Það hefði átt að ákæra fjóra ráðherra en ekki einn. Það varð þó niðurstaðan og úr henni varð að vinna.

Landsdómur hefur kveðið upp sinn dóm. Sitt sýnist hverjum. Fæstir virðast ánægðir. Málinu er lokið.

Geir H. Haarde var stóryrtur í fjölmiðlum að loknum áföllnum dómi og það virtist eins og tilfinningar réðu þar för en ekki sú yfirvegun og skynsemi sem hann hefur oft sýnt.

Nú tíðkast þau hin breiðu spjótin. Það er mitt helsta áhyggjuefni. Nú er ekki tími átaka sem snúast um persónur eða stjórnmálaflokka. Nú er tími uppbyggingar á samfélagi sem hefur liðið nóg fyrir allt sem á undan er gengið. Nú verða menn að slíðra sverðin, bretta upp ermar og taka til við uppbyggingu þess samfélags sem við viljum búa í og bjóða börnum okkar og komandi kynslóðum upp á. Skuldamál heimilanna, gjaldmiðlamálin, auðlindamálin og stjórnarfarsmálin eru stóru málin svo fátt eitt sé nefnt.

Flest finnum við það rækilega á eigin skinni hver staða hins almenna borgara er í samfélagi sem reynir að þoka sér áfram í gegnum hversdaginn ofan á rjúkandi rústum hins hrunda kerfis sem plástrað hefur verið í en er þó enn fullt af holum og getur engan veginn staðið undir sér.

Okkar stærsta verkefni núna er að skapa samstöðu og sátt í þjóðfélaginu. Taka erfiðar ákvarðanir með hag heildarinnar að leiðarljósi. Að horfa fram á veginn og vökva græðlingana sem við eigum um allt, hlúa að þeim og leyfa hugvitinu, kraftinum, eljunni, dugnaðinum, baráttuandanum, stoltinu og gleðinni að njóta sín við að byggja upp nýtt Ísland, í alvöru.

Nú er tími Landsdóms liðinn, einstakar persónur eða flokkar þurfa að víkja af sviðinu og rýma fyrir fjöldanum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur