Þriðjudagur 01.05.2012 - 01:11 - FB ummæli ()

Besta fermingargjöfin

Fermingin er einn merkasti áfangi í lífi sérhverrar manneskju. Í samfélagi okkar hefur fermingin í sumum tilfellum verið blásin upp í efnislegan sirkús eða hálfgert stöðutákn. Því stærri veisla og því dýrari gjafir, því betra! Foreldrar eru jafnvel farnir að gera miklar breytingar á híbýlum sínum fyrir ferminguna og viðmiðið fyrir fermingargjöf er komið langt út fyrir eðlileg mörk. Því miður finnst mér fermingin í einhverjum tilfellum vera farin að endurspegla hina gríðarlegu stéttaskiptingu sem verður æ meira hrópandi í þjóðfélaginu. Börn mæta í skólann að lokinni fermingu og fara að telja upp hvað hver fékk og bera saman bækur sínar. Jafnvel er rætt um beinharðar upphæðir í þessu samhengi. Ipad, snjósleðar, mörg hundruð þúsund krónur og jafnvel íbúð hafa verið gefnar sem fermingargjafir. Fyrir barn foreldra sem ekki hafa úr milljónum að spila við þessi tímamót getur það verið skrýtinn veruleiki að bera sig saman við. Foreldrar sem geta ekki keppt við sirkúsinn upplifa sig stundum vanmáttug og kvíðin fyrir kröfum sem þau geta ekki staðið undir.

Fermingin er þannig farin að snúast um allt annað en hið kristna inntak hennar. Áherslan er orðin á hinum efnislegu þáttum hennar, gjöfunum, fatnaðinum, matnum og híbýlunum. Fermingin ætti í raun og veru að vera látlaus athöfn með alla vigtina á þau merku tímamót að barnið er að staðfesta kristna trú sína og hefja upphaf fullorðinsgöngu sinnar. Svo er annar vinkill á þessu sem ég ætla ekki út í hér en það er sú hlið að hér er samfélagið sífellt að verða fjölbreytilegra og ekki öll börn sem fæðast inn í kristna trú.

Hver ætli sé nú besta fermingargjöfin?

Lífsgangan er okkur miserfið. Hjá flestum koma einhvern tímann tímabil þar sem vegurinn er grýttur, torfær, bugðóttur, brattur og algjör óvissa bíður handan við næsta horn. Trú á eitthvað okkur æðra er dýrmætasta fermingargjöfin sem hægt er að gefa ungri manneskju og það besta sem hún getur sett í bakpokann sinn.

Þegar við sjáum ekki fram úr erfiðleikum og flóknum gátum lífsins þá er trúin okkar besti ferðafélagi. Í sumum aðstæðum höfum við enga stjórn og engan mátt til annars en að biðja okkar æðri mátt um hjálp. Eins og segir í dæmisögunni um fótsporin í sandinum:

Mynd af sporum í sandiMann nokkurn dreymdi draum. Hann dreymdi að hann var á gangi meðfram strönd nokkurri með Jesú. Atburðir úr lífi hans birtust fyrir hugskotssjónum hans og hann sá lífshlaup sitt sem spor í sandi. Við hlið fótspora hans voru fótspor Jesú sem fylgdi honum hvert fótmál frá því hann bað hann um að koma inn í líf sitt.

Þegar síðasta endurlitið hvarf honum sjónum leit hann yfir fótsporin. Maðurinn tók eftir því að í hvert sinn sem erfiðleikar höfðu orðið á vegi hans voru aðeins ein fótspor í sandinum. Dapur í bragði spyr hann Jesú: “Þú sagðir mér eitt sinn þegar ég ákvað að fylgja þér að þú myndir ganga með mér alla leið. Ég skil ekki hvers vegna þú yfirgafst mig þegar ég þurfti mest á þér að halda.”

Jesús leiðréttir manninn og svarar: “Barnið mitt, ég elska þig og ég yfirgef þig aldrei. Á tímum erfiðleikanna þar sem þú sérð aðeins ein fótspor, þá bar ég þig í örmum mínum.” Jesús var því ekki aðeins með honum alla leið heldur þegar virkilega reyndi á í lífi hans þá tók hann manninn í arma sína og bar hann yfir erfiðleikana.

Ég á ennþá JVC fermingargræjurnar mínar sem hafa enst í 20 ár, ég á ennþá fallegu hvítu satíndragtina og fyrstu hælaskóna sem voru hvítir. Ég á fallegar myndir, gjafir og minningar úr fermingunni.

Tuttugu árum og nokkrum ferðum í ólgusjó lífsins síðar er ég þó fyrst að átta mig á hver var besta fermingargjöfin.

Flokkar: Bloggar

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur