Þriðjudagur 08.05.2012 - 01:32 - FB ummæli ()

Þú ert prumphænsni

Mynd af eineltishringnumEinelti drepur og stórskaðar til langrar framtíðar. Mörg alvarleg vandamál unglinga og fullorðinna tengjast einelti. Félagsfælni getur til dæmis verið afleiðing eineltis. Sú hegðun að láta lítið fyrir sér fara og forðast annað fólk var kannski mjög gagnleg á meðan ráðist var á þig í skóla en mjög óhjálpleg á fullorðinsárunum þar sem þú getur ekki notið eðlilegs samneytis við aðra vegna óeðlilegs ótta við dómhörku annars fólks og óeðlilegs mats á getu þinni til þess að takast á við aðstæðurnar. Þú lærðir kannski ákveðna hegðun til þess að komast af en situr svo uppi með kvíðaröskun á fullorðinsárum og þarft að aflæra hegðunina.

Sjálf lenti ég í einelti á minni grunnskólagöngu. Ástæðan? Ég og systir mín vorum of vinsælar. Þess vegna ákváðu nokkrar stelpur að hætta að tala við okkur, hunsa okkur. Þessi ákvörðun vatt svo rækilega upp á sig að á stuttum tíma leiddi þetta til þess að stór hópur krakka hafði safnast saman fyrir utan heimili okkar að kvöldi til og grýttu eggjum í húsið. Í hópnum var meðal annars strákur sem átti að heita kærastinn minn á þessum tíma. Þetta var kannski hápunkturinn en ég man önnur tilvik þar sem við vorum eltar á leið í íþróttir, hvolft úr töskunum okkar, kaffærðar í snjó og viðarkubbum fleygt í mig í smíðatíma. Atburðirnir voru mjög rækilega skrásettir í barnshugann og minningarnar eru enn mjög skýrar enda var upplifunin sú að mikil hætta væri á ferðum og þannig atburði skráir hugurinn mjög vel niður.

Tilfinningin sem maður upplifir sem barn sem lendir í einelti er eitthvað sem er ekki hægt að lýsa og ég held að fæstir geti skilið, nema þeir sem deila slíkri reynslu. Tilfinningin að vera útskúfaður, hlegið að manni, ráðist að manni og hafnað af hópnum. Þessi tilfinning ótta, depurðar og vanmáttar fylgir manni lengi. Tíminn líður, lífið heldur áfram en sárin sem myndast við slíkar aðstæður gróa aldrei og minningarnar sitja sem fastast. Maður man vel hverjir gerendurnir voru, hvað þeir gerðu og hvernig manni leið. Slík reynsla mótar alla þolendur en að misjöfnu leyti.

Í okkar tilviki var brugðist þannig við að þeir sem höfðu sig mest í frammi voru sendir heim til okkar ásamt foreldrum sínum til þess að biðjast afsökunar. Þannig var tekið á málinu og því lokið sem er jákvætt út af fyrir sig. Mín reynsla er sú að svona máli lýkur samt í rauninni aldrei. Þrátt fyrir þessi málalok þá lá þetta alltaf yfir manni. Ljótar athugasemdir voru látnar falla þegar tækifæri gafst. Ein þeirra var fyrirsögn pistilsins. Eins ómerkileg og hún er þá situr hún fast í minningunni og hún nísti inn að beini. Ekki athugasemdin sem slík kannski, heldur hin ömurlega tilfinning sem fylgdi, ótti, depurð, vanmáttur og vonleysi. Þessi ljóti hjúpur sem hékk yfir manni frá því eineltið hófst var ein ástæða þess að hvorug okkar ákvað að fara í framhaldsskóla í okkar heimabæ. Ég gat ekki hugsað mér að eyða næstu fjórum árum með þessum hópi.

Seinna hef ég áttað mig á að þeir sem gengu hvað harðast fram áttu sennilega afskaplega erfiða tíma sjálfir. Þetta var þeirra leið til þess að kaupa sér stöðu innan hópsins. Þarna fundu þeir sem mest áttu bágt leið sem þeir gátu notað til að tryggja eigin vinsældir og öryggi. Ég hef valið það að fyrirgefa þeim sem beittu mig einelti og líta á þessa ömurlegu lífsreynslu sem ákveðna gjöf því hún þroskaði mig og gaf mér þá reynslu að vita betur hvernig börnum sem lenda í slíku líður. Einnig hefur málefnið verið mér ákaflega hugleikið og ég hef markvisst reynt að grípa inn í verði ég vitni að einelti og taka ekki undir slíkt ofbeldi sjálf.

Þú hefur sennilega lesandi góður einhvern tímann tekið þátt í einelti. Það er svo dulið og slungið fyrirbæri. Einhver er tekinn fyrir og gerður að skotspóni til þess að bæta stöðu annarra. Jafnvel bara við kaffivélina á vinnustaðnum. Þeir óöruggustu og veikustu ganga frekast fram og aðrir fylgja með til þess að verða ekki næstir í röðinni. Þetta er flókin barátta um völd, stöðu innan hópsins og vörn við að verða sjálfur undir. Með því að taka undir kaupirðu sjálfum þér frið og með því að segja ekki neitt þarftu að minnsta kosti ekki að fara á móti straumnum. Það er alltaf hægt að finna einhvern sem liggur vel við höggi.

Þetta viðgengst alls staðar í samfélaginu og dæmin eru ófá. Á sama tíma og við reynum að uppræta einelti í skólum þá setur fullorðin manneskja saman myndband og gerir lítið úr kjörnum þingmanni og einn vinsælasti þáttastjórnandi landsins birtir myndbandið á vefsíðu sinni. Hún hafði unnið sér það inn segja sumir og fullorðna fólkið sem vill láta taka sig alvarlega keppist við að réttlæta gjörðir sínar. Á sama tíma reynum við að kenna börnum okkar að það sé ekki í lagi að klippa saman myndband af öðru barni og hæðast að því með ljótum athugasemdum og háðsglósum. Hvernig eiga börn að skilja muninn? Læra ekki börnin það sem fyrir þeim er haft? Er það furða að ein birtingarmynd eineltis sé t.d. að útbúa haturssíður á Facebook?

Það er risavaxið samfélagslegt verkefni að uppræta einelti. Það þarf að leita nýrra leiða. Ein er sú að fjarlægja gerandann úr aðstæðunum en ekki þolandann eins og nú er gert með þá sem beita heimilisofbeldi. Það er ekki nóg að setja áætlanir í skólum. Hver einasti samfélagsþegn þarf að líta í eigin barm og verða breytingin sem við viljum sjá. Við þurfum stanslaust að vera á verði og hjálpast að þegar við förum út af sporinu. Þannig breytast vonandi viðhorf, hegðun og menningin öll. Það gefur von um að hægt verði að ráðast til atlögu við eineltisskrímslið sem hefur því miður lagt allt of marga að velli og sært ótalmarga djúpum sárum sem aldrei gróa.

Ég skora á þig! Verðir þú vitni að því að hæðst sé að annarri manneskju, hún gerð að skotspóni til þess að tryggja stöðu annarra þá skalt þú vera sterki aðilinn sem gerir athugasemd og bregst við í stað þess að vera þátttakandi eða sá sem samþykkir með þegjandi þögninni.

Vertu breytingin sem þú vilt sjá og fyrirmynd barnanna þinna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur