Fimmtudagur 17.05.2012 - 14:14 - FB ummæli ()

Uppstigningardagur

Pistill birtur á vefsíðu SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar í dag í tilefni af uppstigningardegi.

Mynd af upprisunniÍ dag er uppstigningardagur sem er fimmtudagur 40 dögum eftir páska. Hann er helgidagur til minningar um himnaför Jesú. Á ári aldraðra 1982 var dagurinn einnig valinn kirkjudagur aldraðra af Ellimálanefnd þjóðkirkjunnar.

Í pistli Þórhalls Heimissonar frá 2011 kemur meðal annars fram um uppstigningardag:

Uppstigningardagur dregur heiti sitt af þeim atburði sem frá er greint í fyrsta kafla Postulasögunnar, þar sem segir frá því að Jesús hafi fjörtíu dögum eftir upprisuna verið uppnuminn til himins fyrir augliti lærisveina sinna. Og er þeir störðu til himins á eftir honum, þá stóðu allt í einu hjá hjá þeim tveir menn í hvítum klæðum, og sögðu:

„Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“

Þar segir einnig:

Smátt og smátt barst trúin einnig til Íslands köldu stranda. Hér hefur trúin á Jesú fylgt íbúum landsins allt frá fyrstu stundu, en aldrei hefur landið verið án kristinna íbúa. Kynslóð eftir kynslóð hefur miðlað börnum sínum af trúarinnar mikla fjársjóði. Blessun anda Guðs hefur því verið með þessari þjóð í gleði og sorg. Og þannig barst trúin líka til okkar.

Þórhallur segir svo frá eftirminnilegum uppstigningardegi:

Einhver eftirminnilegasti uppstigningardagur sem ég hef lifað var vorið 1995. Þá starfaði ég sem prestur í sænsku kirkjunni í úthverfasöfnuði í Stokkhólmi, þar sem bjuggu meðal annars fjölmargir kristnir sýrlenskir flóttamenn er höfðu flúið ofsóknir heimafyrir og fundið skjól í Svíþjóð. Þennan morgun var messað við sólarupprás, kl.sex. Veður var með eindæmum gott, sól skein í heiði, og því var messað utan dyra á kirkjutorginu, við fuglasöng. Mikið fjölmenni sótti messuna, á þriðja hundrað manns. En megnið af kirkjugestum voru úr röðum hinna kristnu sýrlensku innflyjenda, því Svíar sváfu á sínu græna eyra og nutu þannig frídagsins. Og það sem meira var, Sýrlendingarnir kunnu fæstir orð í sænsku, hvað þá að þeir skildu mína sænsku með mínum íslenska framburði. En það kom ekki að sök. Öll messan var flutt á sænsku og Sýrlendingarnir tóku þátt í öllum liðum hennar, hlustuðu andagtugir á ræðuna og gengu allir til altaris – án þess að skilja orð. En sjaldan hef ég verið kvaddur af meiri hlýhug heldur en eftir þessa messu. Hver messugesturinn á fætur öðrum kvaddi mig með faðmlagi og kossi og fallegum sýrlenskum bænum, brosi og hlýju, sem sýndi mér að orðin sögðu skiptu engu, heldur var það andinn sem sameinaði okkur öll í fögnuði Jesú á þessum morgni.  Enn í dag á ég góða vini í hópi sýrlensku innflytjendanna og hef heimsótt þá þegar ég hef átt leið um gamla söfnuðinn minn.

Og í þessu er kraftur hins kristna boðskapar fólginn. Hann sameinar okkur um alla heimsbyggðina í einu samfélagi, óháð uppruna okkar og siðum.

Þarna hittir Þórhallur Heimisson naglann á höfuðið varðandi mikilvægi trúarinnar og þess að geta sameinast um ákveðinn boðskap eða málefni.

Mynd af Dalai LamaÍ dag lifum við í samfélagi margbreytileikans þar sem við höfum ólíka trú og ólíka siði þrátt fyrir að meirihlutinn aðhyllist kristna trú en sumir eru trúlausir. Það er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að geta aðlagast breyttum tímum og fundið það sem sameinar okkur sem íslenska þjóð. Hinn andlegi leiðtogi Dalai Lama hefur sagt að allar mannverur séu 99% eins og því eigum við að beina sjónum að því sem sameinar okkur í stað þess að beina sjónum að því sem sundrar okkur.

Þessi boðskapur á vel við í íslensku samfélagi í dag. Við höfum stundum horft of mikið á það sem skilur okkur að en of lítið á það sem sameinar okkur. Með því að finna það sem sameinar okkur og fá sem flesta til þess að róa í sömu átt getum við náð upp mun meiri slagkrafti en ella til farsældar fyrir land og þjóð.

Með samstöðunni getum við litið björtum augum til nánustu framtíðar.

Eigið ánægjulegan dag kæru Íslendingar.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur