Sunnudagur 03.06.2012 - 23:25 - FB ummæli ()

Vonbrigði kvöldsins

Ég eins og eflaust margir fleiri beið spennt eftir að sjá kappræður forsetaframbjóðendanna í kvöld. Ég get ekki orða bundist yfir vonbrigðum mínum með þáttinn sem var á vegum Stöðvar 2. Fyrir því eru margar ástæður og mig langar að nefna nokkrar hér á þessum vettvangi.

Stöð 2 fór illa að ráði sínu með því að ætla sér fyrst að bjóða einungis tveimur frambjóðendum. Þrátt fyrir að hafa fallist á að bjóða öllum virðast þau ekki hafa ætlað að falla frá upphaflegu skipulagi um að stilla fyrirfram Þóru og Ólafi upp á móti hvoru öðru. Þeim hefði verið í lófa lagið að stilla þeim öllum upp í panel eða draga um nöfn þeirra sem myndu mæta hvoru öðru, jafnvel í beinni útsendingu. Ég minnist þess ekki að í öðrum kosningum hér á landi hafi framboð sem hafa meira fylgi samkvæmt skoðanakönnunum fengið meira vægi í fjölmiðlum eða verið stillt upp sérstaklega.

Mér þótti það einnig vera mjög ósmekklegt og óviðeigandi að vera með innskot frá Spaugstofunni sem snerust eingöngu um tvo frambjóðendur. Í kosningabaráttu verður að gæta jafnræðis að öllu leyti.

Þættinum var einnig ótrúlega illa stjórnað af spyrjendum sem gættu engan veginn jafnræðis milli þeirra frambjóðenda sem þó voru eftir. Ólafur Ragnar Grímsson fékk tækifæri á svo miklum einræðum að ég velti fyrir mér hvers kyns eins manns kappræður þetta væru. Ólafur hefur verið forseti síðan ég fékk kosningarétt og ég eins og flestir þekki hans störf ágætlega. Ég hefði gjarnan viljað kynnast betur hvað hinir frambjóðendurnir hafa fram að færa og hvernig þeirra sýn á framtíðina (en ekki fortíðina) er.

Mér þótti umræðan snúast að allt of miklu leyti um einstaka mál fortíðar í stað þess að horft væri fram á veginn. Það var á ábyrgð spyrlanna að beina umræðunni í farveg framtíðar.

Vonandi á hið fornkveðna við að „fall sé fararheill“ og héðan í frá verði þess gætt að þessi kosningabarátta snúist um það að almenningur fái raunverulegt tækifæri á því að sjá hvað hver og einn frambjóðandi stendur fyrir svo við getum hvert og eitt tekið upplýsta og vel rökstudda ákvörðun um það 30. júní hvaða aðila við viljum sjá leiða þjóð okkar áfram næstu 8-12 ár, sameina okkur og vera andlit Íslands út á við.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur