Fimmtudagur 07.06.2012 - 23:12 - FB ummæli ()

Baráttan um Bessastaði eða val á hæfasta forsetanum?

Umfjöllun Ríkisútvarpsins um forsetakosningarnar ber heitið Baráttan um Bessastaði. Er þetta kannski táknrænt fyrir ákveðinn vanda og er áherslan á röngum stað. Á hún að vera sú að um baráttu sé að ræða eða um það að þjóðin sé að velja sér þann leiðtoga sem hún treystir best sem sínum æðsta fulltrúa? Hefði þátturinn kannski átt að heita Valið á næsta forseta Íslands? Þarf þetta nokkuð að snúast um baráttu eða æsing? Á maður til dæmis að berjast fyrir sæti á Alþingi eða á maður að gefa kost á sér til þjónustu og leyfa þjóðinni að velja hvort hún telji mann vera þann fulltrúa sem geti sem best endurspeglað hagsmuni sína? Er maður kjörinn af því maður sigraði slaginn (með jafnvel öllum tiltækum ráðum) eða af því kjósendur töldu mann vera hæfasta frambjóðandann? Eiga útvegsmenn og almenningur að berjast um kvótann eða á að finna leið þar sem allir aðilar geta sáttir gengið frá borði? Þurfum við kannski að fara að líta meira á málin út frá málefnalegum rökræðum, vali og samstöðuhugsun í stað þess að líta allt baráttuaugum?

Ég ætla að velja mér þann frambjóðanda sem ég tel hæfastan til þess að skipa embætti forseta Íslands næstu 8-12 árin en ekki þann sem vinnur baráttuna um Bessastaði.

Það verður margt sem mun hafa áhrif á hverjum ég greiði atkvæði mitt. Nokkur atriði eru eftirfarandi:

 • Hvaða persónuleika hefur frambjóðandinn að geyma?
 • Er frambjóðandinn traustsins verður? Mun hann segja það sem hann gerir og gera það sem hann segir?
 • Er frambjóðandinn einlægur og trúverðugur?
 • Tel ég frambjóðandann geta hjálpað þjóðinni að finna það sem sameinar hana, leiða hana í sömu átt sem sannur þjóðarleiðtogi og finna stolt sitt og trú á sjálfa sig?
 • Er frambjóðandinn frambærilegur til að vera andlit þjóðarinnar í samskiptum við innlenda og erlenda aðila og hefur viðkomandi hæfileika til þess að halda merkjum lands og þjóðar á lofti gagnvart alþjóðasamfélaginu?
 • Hefur frambjóðandinn kjark til þess að taka og framfylgja erfiðum ákvörðunum og fylgja sannfæringu sinni þrátt fyrir mikinn þrýsting?
 • Er frambjóðandinn líklegur til þess að geta verið klettur þjóðarinnar og staðið með henni þegar á þarf að halda eins og við alvarlegar aðstæður í íslensku samfélagi sem gætu t.d. verið náttúruhamfarir, alvarleg stjórnarkreppa eða annað þar sem reynir verulega á styrk hans sem manneskju?
 • Er frambjóðandinn tilbúinn að vera sjálfur breytingin sem hann/hún vill sjá? Það birtist t.d. í því að geta fórnað einhverju sjálfur vegna málstaðarins og vera ekki bara tilbúinn að gera breytingar fyrir aðra og um aðra heldur byrja hjá sjálfum/sjálfri sér?
 • Er frambjóðandinn sammála því að tími forseta, ráðherra, þingmanna, bæjarfulltrúa, ráðuneytisstjóra og annarra sem gegna lykilstöðum við stjórnun íslensks samfélags eigi að takmarkast við 8-12 ár?
 • Mun frambjóðandinn vera tilbúinn að upplýsa um hagsmunatengsl sín, vera fyrirmynd að því að ástunda heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð og fylgja siðareglum?
 • Mun frambjóðandinn leggja áherslu á lýðræðismál og umbætur á íslensku samfélagi og stjórnskipun?
 • Mun frambjóðandinn hafa hag heildarinnar að leiðarljósi?
 • Og margt fleira…

Út frá mínum forsendum þá mun ég strax útiloka einn frambjóðanda og það er sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson. Ég ber virðingu fyrir honum og þakka honum, Dorrit og fjölskyldu hans ómæld störf fyrir íslensku þjóðina. Ég tel hann hafa markað mikil heillaspor  í átt að bættu lýðræði og minnt íslenska þjóð á að valdið er ávallt hennar. Það er best að minnast hans fyrir það, en hann er ekki ómissandi. Ég er ekki hlynnt því að einstaklingur sitji á valdastóli lengur en 8-12 ár. Ólafur Ragnar hefur verið forseti frá því ég fékk kosningarétt og það er of langur tími að mínu mati. Nóg er af frambærilegu fólki og það er líka hluti af lýðræðinu að dreifa valdi á milli einstaklinga á öllum tímum. Enginn á að vera of frekur til fjörsins/valdsins og enginn er ómissandi.

Mér hefur þótt umræðan oft á tíðum vera á afar hæpnum forsendum eins og það að forsetinn eigi að vernda þjóðina fyrir ríkisstjórninni. Þau rök halda ekki vatni í ljósi þess að innan við ár er til kosninga þar sem ég er sannfærð um að ný framboð eins og sá flokkur sem ég tilheyri SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar verða í lykilhlutverki og ný ríkisstjórn nýrra tíma og nýrrar stjórnmálamenningar verður mynduð.

Einnig hefur verið rætt um það að sitjandi forseti þurfi að tryggja það að þjóðinni verði ekki þröngvað inn í Evrópusambandið. Í mínum huga er vald forseta í þeim efnum einungis eitt atkvæði eins og mitt eigið. Það sem forseti þarf að geta gert í slíku máli er að tryggja að þjóðin taki þessa ákvörðun og öllum frambjóðendunum treysti ég vel til þess að senda öll slík stórmál í dóm þjóðarinnar og tel reyndar að forseta yrði ekki stætt á öðru.

Ég mun endanlega gera upp hug minn á kjördag en miðað við núverandi stöðu tel ég Þóru Arnórsdóttur falla best að mínum viðmiðum. Ég tel hana að mjög mörgu leyti geta táknað þá nýju tíma sem ég vil sjá birtast íslenskri þjóð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur