Miðvikudagur 20.06.2012 - 00:21 - FB ummæli ()

Til hamingju konur!

Dagurinn í dag, 19. júní, er hátíðisdagur íslenskra kvenna þar sem því er fagnað að 97 ár eru síðan konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis en það var 19. júní 1915. Á þessum 97 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar í réttindabaráttu kvenna og ótalmargt hefur áunnist. Staða kvenna í dag er allt önnur en hún var á tímum Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og öðrum forystukonum sem ruddu brautina.

Þrátt fyrir mikla sigra í átt að jafnrétti er því miður enn langt í land. Enn lifum við í samfélagi þar sem konur fá ekki sömu laun og karlar fyrir sambærilega vinnu og launamunurinn hefur farið vaxandi frá árinu 2010 (úr 9.9% í 13.2% samkvæmt launakönnun SFR frá 2011), konur ganga með skarðan hlut frá borði í áhrifa- og stjórnunarstöðum á vinnumarkaði, kynbundið ofbeldi er svartur blettur á samfélagi okkar og rótgrónar hefðir um verkaskiptingu kynjanna virðast enn vera ansi ríkjandi og bera raddir um að forsetaframbjóðandinn Þóra Arnórsdóttir ætti frekar að sinna nýfæddu barni sínu en fara í framboð vott um það. Þrátt fyrir að barnið eigi föður sem hefur nú þegar tekið sér langtíma leyfi til þess að sinna fjölskyldunni. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvernig umræðan væri ef sama staða væri uppi hjá karlkyns frambjóðanda á svipuðum aldri eins og t.d. Hannesi Bjarnasyni. Teldist það honum ekki verulega til tekna að vera nýlega búinn að bæta í glæsilega fjölskylduna sem flytjast myndi á Bessastaði næði hann kjöri?

(Mynd Mbl.is 27.4.2009)

Konur standa enn ekki jafnfætis körlum í stjórnmálum á Íslandi. Alls áttu 2846 einstaklingar sæti á framboðslistum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2010, 1330 konur (47%) og 1516 karlar (53%). Þetta segir ekki alla söguna, af 185 framboðslistum voru 139 listar leiddir af körlum og 46 af konum. Það voru því karlar sem leiddu 75% framboðslistanna en einungis 25% listanna leiddir af konum. Þessar upplýsingar eru fengnar úr samantekt Jafnréttisstofu sem lesa má nánar um hér.

Það er einnig áhugavert að rýna í stöðu kynjanna á Alþingi. Eftir kosningarnar 2009 óx hlutur kvenna á þingi upp í 43%. Hjá Samfylkingu, Vinstrihreyfngunni grænu framboði og Borgarahreyfingunni var kynjahlutfallið jafnt en hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki var hlutur kvenna einungis um þriðjungur. Þessi niðurstaða hefur eitthvað breyst núna þremur árum síðar vegna tilfærslna þingmanna/þingkvenna á milli flokka og úr flokkum. Það er einnig sláandi munur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þar sem gengi kvenna á landsbyggðinni í síðustu þingkosningum var afar slakt. Einungis fjórar af 19 þingmönnum Norðvestur- og Norðausturkjördæmis voru konur eða 21%.

Það er ákaflega mikilvægt fyrir velsæld þjóðarinnar að valda- og áhrifastöður samfélagsins séu skipaðar sem fjölbreytilegustum hópi því þannig næst bestur árangur öllum til heilla. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að þar sem kynjahlutföll stjórnarmeðlima í fyrirtækjum eru jöfn skila fyrirtækin hærri arði. Fulltrúalýðræðið er byggt upp þannig að lýðurinn sem hefur valdið kýs sér reglulega fulltrúa til þess að fara með vald sitt á milli kosninga. Það hlýtur því að liggja í hlutarins eðli að þessir kjörnu fulltrúar hljóti að eiga að endurspegla samsetningu þjóðarinnar í grófum dráttum. Svo er ekki raunin. Við hljótum öll að vilja sjá sem bestan árangur af starfi þeirra sem við kjósum okkur sem fulltrúa almennings í sveitarstjórnum, á Alþingi og víðar.

Það er kominn tími til þess að við náum fullu jafnrétti kynjanna og konur jafnt sem karlar láti til sín taka við ábyrgð, áhrif og uppbyggingu samfélagsins. Það er einnig gott að hafa það í huga ef svo skyldi fara að hlutur kvenna yrði orðinn meiri en karla að jafnrétti virkar í báðar áttir og þá getur þurft að bregðast með sama hætti við skörðum hlut karla.

(pistill birtur á vef SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar www.xc.is 19.6.2012).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur