Föstudagur 22.06.2012 - 00:49 - FB ummæli ()

Þaulsetnir leiðtogar

Ég mætti á frambjóðendafund forsetaframbjóðenda í Borgarbókasafni við upphaf kosningabaráttunnar. Ein þeirra spurninga sem ég spurði frambjóðendurna að var hversu lengi þeir teldu að forseti ætti að sitja. Allir frambjóðendur sem þátt tóku í fundinum (Þóra, Hannes og Ari Trausti) svöruðu því til að forseti ætti að sitja 2-3 kjörtímabil. Ólafur Ragnar sem einhverra hluta vegna átti ekki heimangengt á fundinn hefði sennilega svarað á annan hátt en það hefði verið áhugavert að heyra svör hans! Hann var á því 1996 að það ætti að takmarka tímann en eitthvað hefur sú afstaða breyst í tímans rás.

Það er einmitt ástæða þess að við sem samfélag þurfum að binda þennan hámarkstíma í stjórnarskrá/lög. Í grundvallarstefnuskrá SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar er að finna eftirfarandi: „Þingmenn skulu ekki sitja samfellt lengur en í 10 ár og tekur þá varamaður sæti hans. Ráðherrar skulu ekki sitja samfellt lengur en í 8 ár.“

Fólk býður sig fram til starfa uppfullt af hugsjón og telur sig aðeins ætla að vera í takmarkaðan tíma en því lengur sem það situr því meira ómissandi virðist það telja sig. Kjósendur vita fyrir hvað þeir þaulsetnu standa og eiga því stundum erfitt með að fara út fyrir eigin þægindahring. Það krefst mikils hugrekkis að breyta, að fara út fyrir þægindahringinn á vit hins óþekkta.

Það er einnig mikilvægt að takmarka tímann til þess að tryggja skilvirkari störf vegna þess að hafi fólk ótakmarkaðan tíma ræðst það síður í það að hrinda sínum hugsjónum í framkvæmd strax og verk þess sem kjörinn er fara að snúast um eigið endurkjör í stað þess að snúast um hugsjónir og heildarhagsmuni eins og kjördæmapot er gott dæmi um.

Flokkakerfið okkar er líka þannig uppbyggt í dag að fólk sem hefur sterka stöðu innan stjórnmálaflokks er nánast gulltryggt með grænan passa inn á Alþingi svo lengi sem það kýs. Það þyrfti til dæmis eitthvað mjög mikið að gerast til þess að Jóhanna og Steingrímur leiddu ekki framboðslista í sínum kjördæmum í næstu kosningum hafi þau áhuga á því og fylgistapið þyrfti að verða algjört til þess að þau næðu ekki endurkjöri. Þrátt fyrir að hafa verið á þingi síðan ég fæddist.

Ég hef alltaf skilið fulltrúalýðræðið þannig að valdið sé ávallt almennings en reglulega velji þjóðin sér fulltrúa úr sínum röðum til þess að fara með valdið fyrir sína hönd. Þannig að hver kjörinn fulltrúi endurspegli kjósendur sína og komi með ákveðna þekkingu og reynslu. Hvaða þýði endurspeglar maður þegar maður hefur setið á þingi í rúmlega þrjátíu ár? Getur verið að fólk sé þá farið að endurspegla þingið sjálft í stað þess að vera fulltrúi einhvers hóps samfélagsins?

Það er kominn tími á raunverulegar breytingar. Það er enginn ómissandi, sama hversu vel hann hefur staðið sig. Kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi fólki. Lýðræðið hlýtur að eiga að virka þannig að reglulega sé skipt um leiðtoga því nóg eigum við af hæfu fólki.

Er það framtíðarsýn meirihluta íslensku þjóðarinnar að hafa Ólaf Ragnar áfram sem forseta og fá svo Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn í næstu ríkisstjórn? Þá vantar bara útrásarvíkingana og allt getur orðið aftur eins og 2007 með tilheyrandi kostnaði og þjáningum.

Nei, vonandi ekki! Íslenska þjóðin hefur sögulegt tækifæri til þess að sýna hugrekki, ná fram breytingum og stíga inn í nýja framtíð með því að kjósa sér nýjan forseta og nýja þingmenn á innan við ári. Ég vona að við nýtum það tækifæri vel!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur