Mánudagur 02.07.2012 - 22:29 - FB ummæli ()

Æ æ æ

Íslenska þjóðin missti af gullnu tækifæri á laugardaginn. Tækifæri til sátta, samstöðu, framsýni, og til þess að slá fastan takt til nýrra tíma.

Tækifærið að eignast unga glæsilega fjölskyldukonu sem nýjan forseta rann þjóðinni úr greipum á laugardagskvöldið eins og sandur sem rennur um lófana.

Uppskeran er áframhaldandi seta eins þaulsetnasta leiðtoga Evrópu og sennilega þó víðar væri leitað. Sextán ár plús tvö til fjögur í viðbót eða jafnvel meira, hver veit? Áframhaldandi sundrung og vítahringur vantrausts og áhugaleysis almennings á stjórnmálunum heldur áfram. Aldrei hefði ég trúað því að sigurhátíð yrði haldin í Valhöll Ólafi Ragnari til heiðurs eða að fyrrverandi landbúnaðarráðherra myndi beita sér sérstaklega fyrir áframhaldandi setu Ólafs.

Í stað þeirrar ólgu og sundrungar sem strax er farin af stað hefðum við getað eignast nýjan forseta sem ég trúi að hefði náð meirihluta þjóðarinnar á bakvið sig í anda frú Vigdísar Finnbogadóttur og verið okkar leiðarljós inn í bjartari framtíð. Glæsilegan leiðtoga sem strax hefði vakið athygli heimspressunnar og komið Íslandi á kort jákvæðninnar á ný. Forseta sem hefði ofið þræði samstöðu þjóðarinnar inn í öll sín embættisverk en staðið með henni af ákveðni þegar á hefði þurft að halda.

Ég óska Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit til hamingju með kjörið. Það er þeirra sigur. Vissulega hefur Ólafur Ragnar markað óafmarkanleg spor í sögu íslensks lýðræðis og minnt íslensku þjóðina rækilega á það að valdið er ávallt hennar og Dorrit náð inn í hug og hjörtu margra fyrir einlæga og eftirminnilega framkomu. Því ber að fagna. En það er mín einlæga skoðun að Ólafur hefði átt að stíga til hliðar um áramótin að lokinni langri þjónustu við þjóðina sem hefur verið umdeild á tímum en hefði getað endað með góðu verki sem þjóðin myndi muna og þannig deyfa minningar um önnur verk sem hafa verið umdeildari.

Ég virði val meirihluta kjósenda sem kusu Ólaf sem áframhaldandi forseta en ég skil fæst rökin fyrir þeirri ákvörðun því í mínum huga eru þau sem ég hef heyrt hrekjanleg.

Ég treysti engum öðrum en Ólafi fyrir því að okkur verði ekki þröngað inn í ESB – Forseti hefur aðeins eitt atkvæði til þess að hafa áhrif á það hvort Ísland verði hluti af ESB (hvenær sem það nú verður) eins og aðrir kosningabærir menn. Það er í mínum huga óhugsandi að nokkur forseti færi þannig með þjóðina að tryggja henni ekki aðkomu að ákvörðunarferlinu myndi þingið ætla framhjá því. Vorum við að kjósa forseta eða kjósa um ESB?

Ég treysti Ólafi af því hann hafnaði Icesave lögunum – Er líklegt að aðrir forsetar í sömu sporum hefðu skrifað undir þau eða hefðu þeir kannski gert það sama í kjölfar allra undirskriftanna? Icesave málinu er þó enn ekki lokið og skiptar skoðanir eru um hvort rétt hafi verið að hafna síðasta samningnum (ég var þó ein þeirra sem gerði það og var mjög sátt við Ólaf fyrir að veita mér tækifæri til þess því ég hef líka bjargfasta skoðun á því að þá hefðum við veitt óafturkræft fordæmi þess að velta einkaskuldum yfir á skattgreiðendur).

Það er of dýrt að fá nýjan forseta, við erum hvort sem er með Ólaf á launum – Þessi kosningabarátta kostaði marga mikla fjármuni og nú sjáum við fram á ferlið endurtekið innan 2-4 ára. Nýjar forsetakosningar kosta sennilega amk 200 milljónir. Hefði ekki verið betra að skipta um forseta núna þegar nægt úrval var af hæfum frambjóðendum og spara okkur kosningar eftir 2-4 ár ætli fólk að horfa í aurinn varðandi lýðræðið? Var krónunni kannski kastað fyrir aurinn að íslenskum sið?

Ólafur verður að standa vaktina fyrir þjóðina gegn þessari ömurlegu ríkisstjórn – Alþingiskosningar verða næsta vor og á því núverandi ríkisstjórn eingöngu nokkra mánuði eftir á valdastóli, verði hún ekki endurkjörin líka (sem ég tel afar ólíklegt).

Einnig var margt mjög merkilegt í umræðunni sem dró sennilega úr fylgi Þóru

Þóra er frambjóðandi Samfylkingarinnar – Þeir sem þekkja til í stjórnmálum sáu strax að í öflugu baklandi Þóru var að finna fólk úr öllum flokkum m.a.: Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum, Framsókn, Samstöðu, Samfylkingu, Bjartri framtíð og eflaust úr fleiri áttum. Þóra náði nefnilega að vera þessi frambjóðandi sem höfðaði til einstaklinga óháð flokkslínum sem forseti þarf einmitt að geta gert. Sorglegt að fólk hafi látið rugl áróður eins og þann að Þóra færi í fæðingarorlof og þá myndi Jóhanna fá öll völd hafa áhrif á sig. Í fyrsta lagi lýsti Þóra því skýrt yfir að hún myndi hefja störf á sama tíma og aðrir, 1. ágúst, í öðru lagi hefur Jóhanna oft verið handhafi forsetavalds í tíð Ólafs vegna mikilla ferða hans eðlilega og í þriðja lagi á Jóhanna nokkra mánuði eftir í stól forsætisráðherra.

Mér líst vel á Þóru en mér finnst að hún ætti að sinna nýfæddu barninu sínu – Hefði fólk sagt það sama ef Hannes hefði átt nýfætt barn? Held ekki, það hefði sennilega talist honum rækilega til tekna. Erum við virkilega bara komin hingað þrátt fyrir áratuga jafnréttisbaráttu? Var það ekki Þóru sjálfrar að ákveða hvernig hún hagar verkaskiptingu á sínu heimili og barnið er það heppið að eiga líka góðan föður. Þóra stóð sig frábærlega í kosningabaráttunni undir því mikla álagi að vera nýbúin að eignast barn og vera með barn á brjósti, ég spái því að hún hefði staðið sig ennþá betur undir minna álagi fyrst hún stóð sig svona vel undir slíkri gríðarlegri pressu.

Mér er líka óskiljanlegt að fólk sem er öflugir talsmenn þess að hámarkstími eigi að vera á setu í helstu embættum skuli hafa horft í gegnum fingur sér og stutt Ólaf þrátt fyrir það að hann væri að gefa kost á sér í fimmta sinn! Er það kannski hluti af vandamáli okkar Íslendinga að við höfum ákveðin gildi, verklag og reglur en svo þegar okkur hentar þá lítum við framhjá þeim? Prinsippin virðast því miður oft víkja fyrir öðru og þannig verða aldrei þær raunverulegu breytingar sem við tölum fyrir og þráum. Hentistefna?

En svona er þetta, teningunum hefur verið kastað. Óvissan fyrir næstu mánuðum og árum liggur í loftinu og Þóra hefur lýst því yfir að hún muni ekki gefa kost á sér aftur. Sennilega fengið alveg nóg eftir þessa hörðu, kostnaðarsömu og óvægnu kosningabaráttu. Þó maður sé harður af sér og með þéttan skráp þolir manneskja ekki hvað sem er. Ég skora samt sem áður á Þóru að hugleiða það af fullri alvöru að gefa kost á sér að nýju því ég tel hana með þeim allra frambærilegustu frambjóðendum sem ég get hugsað mér í embættið.

1. júlí rann því ekki upp eins og ég vonaðist til. Þannig verður staðan næstu árin. Nú nema kosningarnar verði dæmdar ógildar af því ekki var farið að kosningalögum vegna aðstoðar í kjörklefa fyrir kjósendur sem þess þurfa. Það hefði reyndar verið upplagt að setja bráðabirgðalög sem hefðu heimilað fötluðu fólki að velja sér sjálft aðstoðarfólk í kjörklefann. Hvort ætti blindur einstaklingur að treysta ókunnugri manneskju eða þeim sem viðkomandi hefur jafnvel sjálfur ráðið til starfa til þess að vera „hendur sínar“ (sín sjón?). Ég myndi treysta þeim sem ég réði sjálf!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur