Fimmtudagur 12.07.2012 - 01:11 - FB ummæli ()

Valdið er fólksins en ábyrgðin líka

Traust á Alþingi er í sögulegu lágmarki og einungis 10% sögðust treysta Alþingi samkvæmt könnun Capacent í mars 2012. Fyrir hrun stóð þessi tala í um 40% en núna stefnir traustið hraðbyr undir 10% markið ef það hefur ekki nú þegar gerst.

Í þingkosningunum 2009 tók um þriðjungur nýrra þingmanna sæti á Alþingi þannig að ekki virðist það leysa málið að setja ný andlit í stólana.

Margir hafa ekki áhuga á því að velta sér upp úr stjórnmálum dags daglega. Hins vegar virðist hrunið og rannsóknarskýrslan hafa opinberað þann ljóta veruleika að ekki væri allt með felldu og margir vaknað illa upp. Hagsmunatengslin og kunningjasamfélagið þar sem þræðir stjórnmála, viðskipta og annarra vensla lágu alltof þétt og gera það sennilega enn.

Mikið hefur verið ritað og rætt um gagnsæi, lýðræði og önnur góð hugtök. Það mun hins vegar ekki skila neinum ávinningi eða bættu ástandi fyrr en þau fallegu orð eru útfærð í aðgerðir sem eru framkvæmdar og vinnubrögðum er breytt í raun og veru. Það breytist heldur ekki neitt á meðan þeir sem vilja ekki breytingar eða ganga fyrst og fremst eftir sérhagsmunum fá umboð fólksins til valda.

Svona vinna flokkarnir og svona er kerfið í dag

  • Enginn hámarkstími er á setu þingmanna, ráðherra, forseta eða annarra sem gegna mikilvægum embættum í lýðræðiskerfi okkar. Leiðtogar sem hafa komið sér vel fyrir geta því setið eins lengi og þá lystir. Stjórnmálaforingjar munu nánast undantekningalaust leiða lista í sínum flokkum og til þess að þeir komist ekki aftur inn þarf fylgi flokksins yfirleitt að hrynja.
  • Þingmenn eru ekki skyldugir til þess að skrá hagsmunatengsl sín þó margir geri það og stundum koma upp aðstæður þar sem þeir sitja hreinlega báðum megin við borðið. Hagsmunatengsl er þó flókið fyrirbæri að skilgreina en hér er átt við að notast sé við það fyrirkomulag sem er notað núna að skrá fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf utan þings.
  • Flokkarnir eru keyrðir áfram af fulltrúalýðræði sem er gamaldags fyrirkomulag þegar menn riðu til funda og þinga. Það þýðir að þeir sem hafa völd í flokkunum geta í einhverjum tilfellum raðað sínu fólki inn í nefndir, stjórnir og ráð til þess að hafa áhrif á niðurstöðu ýmissa kosninga innan flokkanna um forystu, frambjóðendur og málefni. Á sama tíma og þjóðin virðist hampa beinu lýðræði og vilja fá valdið til sín í ákveðnum stórum málum virðast flokkarnir ekki vilja virkja vald hins almenna félaga með því að koma á fót einn maður eitt atkvæði. Hins vegar gæti þurft að setja skilyrði á það að fólk hafi verið skráð í ákveðinn tíma og sé einungis skráð í einn flokk til að þetta gangi upp. Héti til dæmis formaður Sjálfstæðisflokksins Hanna Birna Kristjánsdóttir en ekki Bjarni Benediktsson ef hinn almenni flokksbundni Sjálfstæðismaður hefði fengið að kjósa sér nýjan formann (rafrænt eða með öðrum leiðum) en ekki aðeins þeir útvöldu sem áttu seturétt á Landsfundi?
  • Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gefa ekki upp eða birta nöfn þeirra sem sitja í miðstjórn/landsstjórnum flokkanna sem fara með valdið á milli flokksþinga/Landsfunda. Þannig er orðið gagnsæi merkingarlaust. Þrátt fyrir að þessir einstaklingar séu lykilaðilar flokkanna og fari með mikið vald. Rökin sem m.a. hafa verið notuð eru sú að margir vilji ekki gefa upp að þeir starfi í flokkum vegna persónulegra hagsmuna t.d. vegna fyrirtækjareksturs. Er það ekki best fyrir þá einstaklinga bara að sleppa því að sitja í miðstjórn þar sem valdið er? Nóg er hægt að starfa í flokkunum undir félagaleynd. Getur verið að einhverjir séu að raða í kringum sig fólki til að tryggja eigin hagsmuni og vilji þess vegna ekki að slikt sé opinberað? Eiga flokksfélagar og kjósendur ekki rétt á því að vita hverjir skipa miðstjórn?
  • Flokkarnir sem eiga þingmenn fá hundruðir milljóna úr ríkissjóði samkvæmt lögum til þess að tryggja sér áframhaldandi völd á meðan þingmenn utan flokka fá 600 þúsund krónur og ný framboð fá ekki neitt. Augljóslega skekkir þetta gríðarlega samkeppnisstöðu nýrra framboða við þá flokka sem fyrir eru og dregur verulega úr möguleikum á endurnýjun. Sjálf er ég hrifin af því að skoða ýmsar tillögur m.a. þá að allir kjósendur fái ávísun sem þeir ávísa þeim flokki sem þeir vilja og afganginum (þeim ávísum sem ekki eru nýttar) mætti jafnvel dreifa jafnt á alla.

Ný framboð

Ný framboð eru í mótun. Meðal annarra SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar þar sem tekið er á mörgum þessum atriðum strax frá byrjun. Auðvitað geta ný framboð líka lært góða hluti af því kerfi sem fyrir er. Stefna okkar er m.a.:

  • Verði þingmaður ráðherra skal hann víkja af þingi meðan hann gegnir embætti ráðherra. Þingmenn skulu ekki sitja samfellt lengur en í 10 ár og tekur þá varamaður sæti hans. Ráðherrar skulu ekki sitja samfellt lengur en í 8 ár.
  • Samstaða vill tryggja að almenningur hafi möguleika á að leggja fram frumvörp og að 10% kjósenda ásamt þriðjungi þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Atkvæði allra landsmanna skulu vega jafnt og framboð geti boðið fram á landsvísu eða í einstökum kjördæmum. Auðvelda á kjósendum að hafa áhrif á röðun frambjóðenda í kosningum.
  • Nöfn þeirra sem gegna trúnaðarstörfum og hagsmunatengsl þeirra sem eru kjörnir fulltrúar verði opinber.
  • Allir félagsmenn Samstöðu hafa heimild til setu og atkvæðagreiðslu á landsfundi (sjá samþykktir).

 

Best predictor og future behavior is past behavior – Sagan er besta forspáin um framtíðarhegðun.

Nú er ábyrgðin þín. Ætlar þú að styðja flokka sem hafa fjórum árum eftir hrun nánast engu breytt og/eða báru ábyrgð á hruninu. Ætlar þú að berjast fyrir breytingum innan þíns flokks eða ætlar þú að styðja eða taka þátt í uppbyggingu nýrra flokka?

Valdið er fólksins en ábyrgðin líka.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur