Þriðjudagur 07.08.2012 - 16:27 - FB ummæli ()

Bleiki fíllinn

Ég fór á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina. Skemmti mér alveg konunglega á þessari einstöku hátíð Eyjamanna. Upplifði tónlistina, blysin, flugeldana, brekkusönginn, fólkið, umhverfið og margt áhugavert sem þessi hátíð hefur upp á að bjóða. Mín upplifun er sennilega lík því sem mjög margir upplifa. Góðar minningar um að njóta þess í botn að vera til.

Upplifun sumra af hátíðinni er sennilega ekki sú sama. Þeir sem verða fórnarlömb nauðgana, konur í langflestum tilfellum, fara heim af hátíðinni með djúpt sár sem grær aldrei. Alvarlegir sálrænir erfiðleikar sem fólk jafnvel tekst á við alla ævi eiga oft rætur sínar að rekja til kynferðisbrota og árása. Munurinn á nauðgunum og morðum, umferðarbrotum eða árásum er sá að afleiðingar glæpsins eru nánast ósýnilegar þrátt fyrir að vera engu síður alvarlegar.

Nauðgun er einn af alvarlegustu og földustu glæpum samfélagsins og því miður þekkjum við flest einhvern sem orðið hefur fyrir slíkri árás með þeim persónubundnu afleiðingum sem því fylgja.

Það er tvennt sem mig langar að fjalla um í þessum pistli:

Fjölmiðlaumfjöllun um nauðganir og samfélagslegt átak

Í fyrsta lagi að mér þótti mjög góður punktur í bakþönkum Kolbeins Óttarssonar í Fréttablaðinu í dag þar sem hann bendir á að fréttir af nauðgunum eigi ekki að flétta saman við frásagnir af almennri skemmtun. Slíkt getur að mínu mati dregið úr alvarleika fréttarinnar um glæpinn. Hvenær hefur t.d. verið fjallað um morð og svo í næstu andrá fjallað um að öðru leyti hafi allt gengið vel og fólk skemmt sér vel?

Samfélagslegt átak gegn ákveðinni vá getur borið árangur. Ég man eftir því að maður beið bara eftir að heyra hversu margir hefðu látist í umferðinni um Verslunarmannahelgina og hvar slysin hefðu orðið. Sú flétta fylgdi yfirleitt frásögnum af helginni. Eftir mjög samstillt og gríðarlega mikið átak var engin  frétt um banaslys í umferðinni í ár og er það mikið gleðiefni.

Ég tel að með jafn miklu átaki megi líka takast á við þann bleika fíl að fréttir af nauðgunum séu fastur fylgifiskur frásagna af útihátíðum. Nú þegar hefur ýmislegt verið gert og Eyjamenn eiga hrós skilið fyrir sinn þátt í því. Það þarf hins vegar að gera miklu meira og það þurfa allir að taka þátt. Mér þótti mjög flott að sjá unga stráka í bleikum bol um helgina með mynd af bleika fílnum sem á stóð „Ég fíla samþykki“. Eins gekk ein þingkona okkar á undan með góðu fordæmi, Eygló Harðardóttir, og gerði slíkt hið sama. Á skjánum voru gestir reglulega minntir á að verið væri að fylgjast með þeim (eftirlitsmyndavélar) og tónlistarmennirnir minntust á þetta á milli atriða. Gott framtak! En hvernig er hægt að gera enn meira?

Ég tel að keyra þurfi sérstakt átak sem snýr að þessu málefni eins og gert hefur verið með banaslysin í umferðinni. Við vitum að það skilar árangri. Umræðan þarf að fara fram alls staðar og búa þarf til auglýsingar um átakið sem sýndar eru m.a. í sjónvarpi og varpað í öðrum fjölmiðlum. Eins þarf að breyta fréttaumfjöllun af nauðgunum.

Við þurfum að höfða til samfélagslegu ábyrgðarinnar og fá hvern einasta einstakling með okkur í þessa vegferð. Alla þá 15.000 sem voru t.d. í Eyjum. Því miður eru alltaf glæpamenn meðal okkar en ef fjöldinn leggst á eitt er auðveldara að fyrirbyggja og koma í veg fyrir glæpi.

Þá kemur að því sem mig langar að fjalla um í öðru lagi.

Við getum best passað upp á hvert annað! The bystander effect (hjálpfýsi)

Það er þekkt sálfræðileg kenning sem kallast „The bystander effect“ og hefur m.a. verið þýdd sem hjálpfýsi. Eitt þekktasta dæmið um bystander effect er harmleikurinn um Kitty Genovese sem átti sér stað í New York borg 1964. Fjölmargir urðu vitni að því þegar hjúkrunarkonan Kitty Genovese var myrt á götuhorni í Queens en enginn kom henni til hjálpar. Árásin stóð yfir í hálftíma, Kitty öskraði og barðist um á meðan árásarmaðurinn stakk hana ítrekað þar til hún lést að lokum. Síðar kom það í ljós að 38 nágrannar hennar höfðu fylgst með úr gluggum sínum án þess að koma henni til hjálpar. Enginn hringdi einu sinni á lögregluna.

Samkvæmt Bibb Latené og John Darley er ástæða þess að fólk kemur ekki til hjálpar ekki sú að þeim sé sama heldur meðal annars að það veit ekki hvernig eigi að bregðast við. Viðbrögðin fara m.a. eftir því hvernig fólk skilur aðstæðurnar. Nokkur atriði skipta hér máli:

Margræðar aðstæður (ambiguity). Maður sem sést bera stúlku gæti verið að koma henni til aðstoðar eða verið að bera hana á afvikinn stað t.d. inn í tjald til að geta nauðgað henni.

Upplýsingaskortur (pluralistic ignorance). Fólk verður óöruggt þegar það sér eitthvað gerast og lítur að aðra til að afla upplýsinga um hvernig það túlkar aðstæðurnar. Ef enginn annar bregst við telur það að slíkt hljóti að gefa upplýsingar um að ekkert alvarlegt sé á seyði.

Ábyrgðarþynning (diffuse of responsibility). Þegar fólk veit að aðrir eru einnig vitni að atburðinum telur það að aðrir hljóti að bregðast við og þannig flest ábyrgðin út. Enginn bregst svo við því allir hugsa það sama. Sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum að því fleiri sem verða vitni að harmleik, því minni líkur eru á að fólk komi til hjálpar. Þú ert líklegri að fá hjálp ef einn verður vitni að harmleiknum en fjölmargir.

Ýmis önnur atriði skipta hér máli eins og það að fólk metur það hversu mikið það kosti sig að blanda sér í málin. Með slíku getur fólk verið að leggja sjálft sig í hættu eða mögulega skipta sér af einhverju sem því kemur ekki við.

Þessi atriði getur verið ágætt að hafa í huga ef þú verður vitni að harmleik eða öðrum aðstæðum sem vekja þá tilfinningu hjá þér að ekki sé allt í lagi. Við getum ekki skellt ábyrgðinni einungis á skipuleggjendur útihátíða, gæsluna eða lögregluna. Við getum best passað upp á hvert annað með því að bregðast alltaf við. Við getum einnig ráðist í átak til þess að kenna það að glæpir eins og nauðgun verði aldrei liðnir í okkar samfélagi frekar en morð.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur