Miðvikudagur 25.07.2012 - 02:32 - FB ummæli ()

Að sjá fólk

Ég var í fallegu brúðkaupi um helgina. Í brúðkaupsveislunni stóð faðir brúðarinnar upp og hélt ræðu sem vakti mig til umhugsunar.

Hann hvatti brúðhjónin til þess að muna alltaf eftir því að sjá hvort annað. Að setjast niður og horfa á hvort annað, finna fyrir hvoru öðru og skynja hvort annað. Hann sagði að með tímanum hætti maður stundum að sjá fólk.

Mér þykir þetta mjög góður boðskapur og gott veganesti fyrir ungu brúðhjónin en ekki síður okkur hin.

Við hittum ótal manneskjur á lífsleiðinni. Sumir staldra stutt við, aðrir lengur og einhverjir alla okkar ævi. Hversu mikið sjáum við fólkið sem er í kringum okkur á hverjum tíma? Er það kannski bara þarna eins og sófinn í stofunni eða hvert annað andlit á fésbókinni? Við vitum í raun aldrei hversu lengi við fáum að njóta hverrar manneskju. Samvera með annarri manneskju er aldrei sjálfsögð. Manneskjan sem hélt að það væri alltaf morgundagur getur verið fallin frá áður en hann rennur upp. Ég átti vin á fésbókinni sem ég þekkti ekki persónulega en átti ágætis fésbókarvináttu við. Um helgina sá ég svo dánartilkynningu um þennan félaga. Af síðunni hans sá ég að hann hafði verið á fésbókinni sinni eins og vanalega en var svo látinn nokkrum klukkustundum síðar. Svona getur lífið verið hverfult og dauði okkar er eitthvað sem við höfum yfirleitt enga stjórn á og reiknum ekki með. Hann er sjaldnast á To do listanum.

Það er um seinan að sjá fólk þegar það er látið því það eina sem við höfum þá er minningin en ekki manneskjan. Aðeins endurvarp þess sem við sáum og nutum. Við þurfum að muna að sjá fólk þegar við getum enn notið samvista við það sé það nokkur möguleiki. Á meðan við getum enn búið til minningar.

Það er líka ágætt að leiða hugann að því hvernig við sjáum okkur sjálf. Hvernig myndir þú minnast þín ef þú skrifaðir minningargrein um sjálfa/n þig? Er það sama sýnin og þú hefur af þér dags daglega? Getur verið að þú sért of upptekin/nn við að sjá neikvæðu hlutina en sjáir ekki þá jákvæðu sem þú myndir draga fram í minningargrein? Hvernig er það varðandi aðra í kringum þig? Sérðu fólkið á sama hátt og þú myndir gera ef þú værir að minnast þess?

Hvernig væri að prófa að draga þá hlið fram strax í dag. Jákvæðu hliðina sem maður myndi draga upp af sjálfum sér eða öðrum?

Ég held að það sé þess virði að prófa að sjá sjálfan sig og annað fólk og athuga hvað kemur í ljós.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur