Miðvikudagur 12.09.2012 - 23:19 - FB ummæli ()

„Á morgun kemur nýr dagur“

sagði litla tveggja ára snúllan sem var í mat hjá mér í kvöld.

Á sama tíma hlustaði ég á stefnuræðu forsætisráðherra og umræður um hana. Einhvern veginn finnst mér ég hafa heyrt sumar þessar ræður mörgum sinnum áður. Ég fékk hálfgerða „deja-vu“ tilfinningu og missti stundum einbeitinguna annað hvort vegna efnisinnihalds ræðanna eða vegna flutnings þeirra þar sem þær voru lesnar upp af blaði í stað þess að þær væru fluttar beint frá hjartanu. Ég veit að það er auðvelt að sitja heima í stofu og gagnrýna rétt eins og þegar maður horfir á fótboltaleik og skilur ekki í því hvernig leikmennirnir geta klúðrað svona dauðafærum.

Upplifun mín af kvöldinu var sú að það endurspegli langþreytu þings og þjóðar. Eftir fjögurra ára hark stöndum við öll frammi fyrir sögulegum tímamótavetri. Kosningavetri sem einkennist af því að við getum ekki snúið aftur inn í þægindahringinn sem varð okkur að falli en þurfum að taka á honum stóra okkar til þess að blása í okkur kraft og halda á nýjar ókunnar slóðir en höfum við getuna og orkuna til þess?

Sameinuð sem þjóð sem kemur undan storminum, veit að hún getur ekki farið til baka en sér ekki landslagið framundan nema stiku fyrir stiku. Kannski erum við svolítið eins og kindurnar og lömbin sem grófust skyndilega undir fönn á Norður- og Norðausturlandi en náðu svo að stinga höfðinu út og halda áfram skelfingu lostnar og þreyttar. Sumir bíða eftir björgun, aðrir eftir forystusauð til þess að hjörðin geti elt og enn aðrir reyna að krafla sig sjálfir út úr skaflinum.

Ég veit þó að sem betur fer vorar á ný og á Íslandi eigum við gnægð tækifæra bæði efnislegra m.a. í auðlindum okkar en ekki síður í mannauðnum og þeirri dýrkeyptu reynslu sem við öðluðumst í storminum.

Það sem mig lengir eftir og ég er ekki enn farin að sjá í hinu Nýja Íslandi eru nægilega áþreifanlegar breytingar. Mér finnast breytingarnar vera of mikið í anda skottulækninga, plástra, reddinga en lítið um nægilega varanlegar lausnir.

 • Skuldamál heimilanna og fyrirtækja eru enn óleyst
 • Lausnir á vanda vegna snjóhengjunnar og afnám gjaldeyrishafta er óleyst
 • Afnema þarf verðtrygginguna
 • Endurskipuleggja þarf lífeyrissjóða- og tryggingakerfið
 • Bæta þarf skattkerfið
 • Ganga þarf frá breytingum á stjórnarskránni
 • Breytingar þurfa að verða á lykilþáttum stjórnsýslunnar eins og aðgreiningu löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds, hámarkstíma þarf að setja á tíma kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna til þess að tryggja eðlilega lýðræðislega endurnýjun, auka beint lýðræði og tryggja vald almennings milli kosninga, taka þarf upp markvissari árangursstjórnun, gagnsæi á afköstum ríkisstofnana og fleira
 • Tryggja þarf yfirráð og arð almennings á auðlindum landsins m.a. fiskveiðiauðlindinni
 • Ljúka þarf aðildarviðræðum við Evrópusambandið svo þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun (eða ákvörðun um að leggja umsókn til hliðar)
 • Breyta þarf skipulagi og vinnubrögðum á Alþingi og auka virðingu þess (þar þurfa allir að hjálpast að þingmenn, fjölmiðlar og almenningur)
 • Koma þarf atvinnulífinu af stað á skynsaman hátt með langtímahagsmuni þjóðarinnar og komandi kynslóða í huga (það gengur ekki að ganga á auðlindirnar eða stórskaða náttúruna til að redda okkur fyrir horn núna)
 • Byggja þarf upp og bæta þann skaða sem orðið hefur á innviðum samfélagsins vegna áhrifa kreppunnar m.a. áhrif á löggæslu, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og félagsþjónustuna. Ýmsar vísbendingar eru um að þessi kerfi séu orðin tæp og við gætum fengið stóra bakreikninga vegna sparnaðar þar sem krónunni hefur verið kastað fyrir aurinn
 • Breyta þarf og endurskoða kerfið í kringum stjórnmálaflokkana. Koma þarf á beinu lýðræði félaganna þannig að allir geti greitt atkvæði um stefnu þeirra, valið frambjóðendur og forystu í stað hins lokaða-handvalda  fulltrúalýðræðiskerfis sem víða tíðkast. Auka þarf gagnsæi þeirra m.a. upplýsa félaga, kjósendur og almenning um hverjir taka að sér trúnaðarstörf á vegum þeirra. Gera þarf grein fyrir hagsmunatengslum kjörinna fulltrúa. Breyta þarf fyrirkomulaginu varðandi fjármál flokkanna þannig að kerfið sé ekki byggt til þess að viðhalda ríkjandi valdakerfi og koma í veg fyrir endurnýjun (5% þröskuldur og 340 milljónir sem ríkisstyrktu flokkarnir fá í styrk á ári frá ríkissjóði).

Á morgun kemur nýr dagur…

Kannski breytist eitthvað af þessu á morgun.

Annars verður það bara enn einn „Groundhog dagurinn“ í íslenskum stjórnmálum og á Íslandi.

Nýr en óbreyttur dagur fyrir tveggja ára snúlluna sem treystir okkur fyrir því að leggja grunn að og tryggja framtíð sína.

Ég vona svo innilega okkar allra og ekki síst barnanna okkar vegna að fólk almennt vakni upp, vilji breytingar, fari út úr þægindahringnum, verði breytingin sem það vill sjá og sé tilbúið að taka stefnuna á nýja framtíð og betra Ísland með samstöðu að leiðarljósi.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur