Þriðjudagur 25.09.2012 - 23:35 - FB ummæli ()

Slysavarnir barna í hættu?

Hvað er það dýrmætasta sem þú átt?

Ef þú ert foreldri þá spái ég því að svar þitt verði: Börnin mín.

Ég fékk spurnir af því að mikið frumkvöðlastarf í slysavörnum barna sé í hættu og leggist jafnvel af um þessi mánaðarmót og tel að bregðast þurfi við því. Í grófum dráttum er staðan þannig:

Árið 1990 var mikill fjöldi slysa hjá börnum á Íslandi og gaf tölfræði þess tíma vísbendingu um að 22.000 börn slösuðust á ári. Á þessum tíma fór af stað frumkvöðlaverkefni í slysavörnum barna í tengslum við Slysavarnarfélagið og setti Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi félagsmálaráðherra fjármagn í verkefnið. Mikið gerðist þessi mótunarár í verkefninu og heilmikil vakning varð í samfélaginu um slysahættur og slysavarnir til þess að gæta okkar dýrmætasta auðs. Þeirra sem geta það ekki sjálf, barnanna okkar. Umboðsmaður barna tók þátt í verkefninu og þegar Ingibjörg Pálmadóttir var heilbrigðisráðherra í kringum ´98 fór verkefnið á föst fjárlög og fékk 7.4 milljónir króna á ári. Til þess að gera langa sögu stutta þá fór verkefnið svo undir Lýðheilsustöð og þaðan yfir til Sjóva (fjármagnið varð eftir hjá Landlækni) undir nafninu Forvarnarhús.

Verkefnið hefur sinnt ýmiss konar þjónustu við samfélag okkar eins og fræðslu til hjúkrunarfræðinga sem fræða svo foreldra í tengslum við heilsugæslu, ráðgjöf við foreldra, svör við fyrirspurnum sem berast (17 á dag) og ýmiss konar sérverkefni í tengslum við ráðuneytið eins og um öryggi sundstaða, slysavarnir á leikvöllum, hjá dagforeldrum, í leik- og grunnskólum og öryggi bílstóla svo fátt eitt sé nefnt. Verkefnið hefur þannig bæði falið í sér fræðslu og mótun umhverfisins til þess að gera það sífellt öruggara.

Sú sem hefur byggt upp þetta verkefni og veitt því forstöðu allt til dagsins í dag er upphaflega bráðahjúkrunarfræðingur en hefur sérmenntað sig undanfarin 20 ár í slysavörnum barna og er einn okkar mesti sérfræðingur með yfirgripsmikla reynslu á sviðinu. Verkefnið hefur notið hylli utan landsteinanna og var valið eitt af þremur mest spennandi verkefnum í Evrópu 1998 og metið sem „Good practice guide“. Í kjölfarið var sérfræðingur ráðinn í það hlutverk að koma áþekku verkefni á laggirnar í fleiri löndum með þetta að fyrirmynd. Verkefnið hlaut svo aftur viðurkenningu 2008 og næst hæstu einkunn 2012 og það sem helst dró það niður var að skuldbindingu á framtíð þess skorti frá Ríkisstjórn Íslands. Verkefnið hefur einnig hlotið norrænu heilsuverndarverðlaunin, viðurkenningu Barnaheilla og fleiri viðurkenningar.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árinu 1990. Slysum á börnum hefur fækkað um 50% og dauðaslysum um 65%. Ráðist hefur verið í ýmis átaksverkefni og m.a. forvarnarverkefni vegna drukknana sem hefur skilað miklum árangri.

Nú er svo komið að þetta mikilvæga verkefni virðist ekki lengur eiga í nein hús að venda og ekki er gert ráð fyrir því á fjárlögum. Það kostar okkur 9 milljónir á ári að halda úti þessu verkefni!

Í því ljósi velti ég því fyrir mér að fari sem horfir, hver tekur þá við? Eru aðrir sem sinna þeirri þjónustu sem verkefnið Árvekni um slysavarnir barna (forvarnarhús) hefur gert undanfarin 20 ár. Hver mun taka á móti 17 fyrirspurnum á dag, veita foreldrum ráðgjöf, stuðning og fræðslu og vinna markvisst að því með hinum ýmsu ráðuneytum að koma á breytingum og lagfæringum til þess að tryggja sem best öryggi barna? Hvernig getur það staðist að slíkt grundvallarstarf sem búið er að byggja upp síðastliðin 20 ár, hlotið hefur viðurkenningar út fyrir landsteinana og haft að fyrirmynd skuli vera komið í slíka stöðu? Hvernig er forgangsröðunin hjá okkur?

Fólk mér nákomið sem hefur sérmenntun á heilbrigðissviði hefur lýst yfir mikilli ánægju með þau námskeið sem forstöðumaður verkefnisins hefur haldið og mér sagt að það hafi kennt þeim ýmislegt sem námið kenndi ekki. Ég veit einnig að þegar börn hafa lent í stórhættulegum aðstæðum þá hefur strax verið brugðist við með því að senda fréttatilkynningu til þess að draga úr líkum þess að aðrir foreldrar lendi í því sama. Hætturnar leynast víðar en við teljum og saklaus rúllugardína getur tekið frá okkur það dýrmætasta sem við eigum eða munum nokkru sinni eignast á svipstundu.

Ég segi það fyrir mitt leyti að ég er meira en tilbúin að leggja fram mitt framlag í skattgreiðslum til þess að standa straum af jafnmikilvægu verkefni sem kostar  Ríkissjóð 9 milljónir á ári og ég er líka ansi sannfærð um það að slíkt verkefni borgi sig margfalt upp á fyrstu dögum ársins því kostnaður samfélagsins af slysi barns getur verið margfaldur rekstri verkefnisins á ári. Við þurfum ekki einu sinni að ræða það hvað það kostar hvern þann sem missir barn eða á barn sem lendir í alvarlegu slysi sem hefði mátt fyrirbyggja. Slíkt verður aldrei metið til fjár.

Þessi staða minnir á tækin á Landspítalanum sem líma þarf saman með límbandi. Að spara slíkt getur orðið okkur margfalt dýrara og of mörg límbönd í velferðarkerfinu geta valdið því að stoðir þess bresta. Hættum að kasta krónunni fyrir aurinn!

Ég hvet þingmenn og aðra sem áhrif geta haft að taka þetta mál til skoðunar og afla sér ítarlegri upplýsinga um það en hér er að finna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur