Þriðjudagur 09.10.2012 - 17:31 - FB ummæli ()

Beint lýðræði í stjórnmálaflokkum?

Eftir hrakfarir undanfarinna ára virðist íslenska þjóðin verða sér æ meðvitaðri um mikilvægi þess valds, réttinda og skyldu sem hver og einn þegn hefur í lýðræðisríki. Valdið til þess að taka afstöðu og greiða atkvæði. Að mínu mati er þetta ein ástæða þess að Ólafur Ragnar náði endurkjöri s.l. vor. Hann átti þátt í því að virkja og minna á þann lýðræðisrétt sem við eigum og fyrir það uppskar hann endurkjör þrátt fyrir ýmislegt annað misviturt á ferli sínum. Stór ákvörðun sem meirihluti þjóðar tekur verður að mínu mati alltaf farsælli en sú sem örfáir fulltrúar hennar taka. Valdið er alltaf fólksins þegar upp er staðið eins og meðfylgjandi mynd ber glöggt vitni.

Valdið er alltaf fólksins!

Þann 20. október mun þjóðin enn á ný fá tækifæri til þess að taka sínar ákvarðanir sjálf. Núna er það þjóðaratkvæðagreiðsla um okkar mikilvægasta sáttmála, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Núna er komið að þér að taka ákvörðun um grundvallaratriði. Ég hvet þig til þess að nýta þann rétt og láta ekki aðra um að taka ákvörðun fyrir þig. Ný stjórnarskrá verður ekki til af sjálfu sér. Þú þarft að taka þátt í að hún verði til.

Persónulega myndi ég vilja sjá þjóðaratkvæðagreiðslu á hverju ári. Þær færu alltaf fram samhliða reglubundnum kosningum um tiltekin stór mál sem lægju undir hverju sinni (t.d. mál sem hefði verið vísað af minnihluta Alþingismanna, tilteknu hlutfalli kosningabærra manna, forseta eða með öðrum hætti). Vissulega geta verið mál sem geta ekki beðið en þetta gæti verið meginreglan. Þau ár sem ekki eru kosningar mætti halda atkvæðagreiðslu um þau mál sem liggja fyrir. Smám saman myndu þá ungir Íslendingar venjast því að kjósa einu sinni á ári um það sem liggur fyrir. Ég sé einnig mikil tækifæri í sveitarfélögum og landshlutasamtökum til slíks beins lýðræðis. Ýmsar leiðir má hugsa til þess að fyrirbyggja gríðarlegan kostnað. T.d. mætti skoða það hvort einhverjar atkvæðagreiðslur geti verið rafrænar t.d. í gegnum vef eins og skattur.is. Þeir sem ekki eru tölvuvæddir geta þá óskað eftir pappírsformi eins og með skattaframtalið.

Þá er komið að aðalefni pistilsins. Beinu lýðræði í stjórnmálaflokkunum. Er ekki tímabært að stjórnmálaflokkar taki upp beint lýðræði? Til hvers þarf fulltrúalýðræði þegar búið er að finna upp internetið og menn koma ekki lengur ríðandi til flokksþinga eða landsfunda? Núna ættu allir sem það vilja að geta tekið þátt. Það þarf ekki að velja fulltrúa til þess. Fulltrúalýðræði flokkanna er að mínu mati ein alversta gróðrarstía spillingar og sérhagsmunapots. Litlir skókassar sem fólk getur farið að reyna að raða sínu fólki inn í eftir því „hvernig atkvæði“ viðkomandi er í kosningum um menn eða málefni! Fólk er ekki labbandi atkvæði, fólk er einstaklingar sem eiga rétt á að taka afstöðu út frá sinni sannfæringu! Þannig mætti líka draga verulega úr vægi þess að fólki sé smalað á fundi með tilheyrandi plotti og yfirtökuhugleiðingum sem er eyðileggjandi fyrir allt gott flokksstarf. það er reyndar með ólíkindum hvað það virðist stundum stutt í slíkar samsærishugmyndir hjá sumum þrátt fyrir að ekkert tilefni sé til slíks.

Ég sé fyrir mér að einstaklingur geti einungis haft atkvæðarétt í einum flokki og geti (t.d. í gegnum skattur.is) tekið virkan þátt í sínum flokki óháð því hvar viðkomandi býr, hvaða tengsl viðkomandi hefur í flokknum eða hvaða skoðun hann/hún hefur. Þetta bætir líka möguleika þeirra sem eiga t.d. ekki heimangengt á fundi vegna lítilla barna osfrv. Einn maður – eitt atkvæði! Þannig tel ég að forysta flokkanna og afstaða í lykilmálefnum myndi betur endurspegla vilja grasrótarinnar en ekki útvalinna fulltrúa. Ég er þess til dæmis fullviss að hefði Sjálfstæðisflokkurinn notast við beint lýðræði á sínum síðasta landsfundi þá hefði niðurstaða formannskosninga orðið önnur.

Ísland getur verið fyrirmyndarlýðræðisríki þar sem hver og einn af hinni fámennu þjóð getur haft bein áhrif á sitt nánasta umhverfi:

  • Í landsmálunum
  • Í sveitarfélögum
  • Í stjórnmálaflokkunum
  • og víðar…

Vilji er allt sem þarf til að feta áfram þann veg sem þegar hefur verið lagður!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur