Þriðjudagur 09.10.2012 - 22:39 - FB ummæli ()

Þegar við hættum að tala saman er friðurinn úti

Ég var að hlusta á Lady Gaga áðan í sjónvarpinu. Það sem hún sagði vakti mig til umhugsunar. Henni var tíðrætt um samkenndina (compassion) sem væri lykilatriði í því að skapa frið. Frið hjá okkur sjálfum, frið í samskiptum við aðra og frið í heiminum.

Þessi orð eru í góðu samræmi við það sem Lennon, Yoko Ono, Dalai Lama, Mahatma Gandhi og margir aðrir mikilsverðir ljósberar friðar hafa boðað. Gandhi hefur til dæmis sagt „Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum“. Friðurinn byrjar hjá þér, ef þú ert friðsamur stuðlarðu að friði í kringum þig og í heiminum.

Lady Gaga minntist á það að þegar við hættum að tala saman þá opnist leið fyrir ófriðinn. Að mínu mati hitti hún naglann á höfuðið þarna. Það er því miður algengur undanfari bresta í samskiptum og ófriðar að fólk hættir hreinlega að tala saman. Þegar fólk hættir að tala saman, getur ekki átt málefnalegar umræður eða hreinlega leyfir þeim ekki að fara fram þá hættir það að skilja hvert annað. Hvaðan hvert og eitt er að koma þann daginn eða yfir höfuð og hvernig fólk sér hlutina á ólíkan hátt með sínum ólíku glerjum. Þegar maður skilur ekki aðra manneskju getur maður enn síður sett sig í spor hennar og sýnt þá samkennd sem opnar leiðina að friði. Þá sér maður ekki það sem sameinar heldur frekar það sem sundrar.

Náið samstarf við fólk virðist oft vera eins og ástarsamband. Í upphafi eru allir mjög mikið með sparihliðina uppi og lítið reynir á samskiptin. Fólk flögrar um á bleiku skýi þar sem það er sérlega opið, sveigjanlegt og móttækilegt fyrir hverju öðru. Gæti fólk ekki að atriðum eins og því að skapa svigrúm, treysta, og tryggja að fólk tali saman getur friðurinn farið út um dyrnar áður en við áttum okkur á. Þá getum við sveiflast alveg yfir á hina hliðina þar sem við sýnum okkar verstu hliðar, lokum, verðum ósveigjanleg, tortryggin og ekki tilbúin til þess að taka við neinu. Við getum ómögulega skilið aðra, enn síður sett okkur í þeirra spor, förum að stjórnast af tilfinningum og misskilningi og sjáum drauga í hverju horni. Við getum verið komin langt frá því sem við hefðum getað  ímyndað okkur í upphafi eða því sem raunhæft er að halda fram beittum við yfirvegun og rökhugsun.

Þegar fólk þarf að vinna saman að farsæld heildarinnar reynir verulega á að málefnalegar umræður geti átt sér stað og fólk geti hafið sig yfir það sem minna máli skiptir fyrir það sem meira máli skiptir. Þá reynir á ólík gildi fólks. Þetta er ekki alltaf auðvelt og fólk sem getur heilsast vinalega í stigaganginum getur endað saman í blóðugri styrjöld á húsfundi sé tekist á um atriði án þess að gætt sé að sér.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum það við sjálf, hvert og eitt sem erum stærsta hindrunin fyrir því sem getur fært okkur sjálfum og heiminum mestu gæfuna og farsældina. Við erum sjálf beittasta vopn breytinganna í þágu okkar sjálfra, annarra eða heimsins.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur