Sunnudagur 28.10.2012 - 23:15 - FB ummæli ()

Skókassapólitík

Mér finnst skipulag margra stjórnmálaflokkanna vera úrelt og skil ekki hvers vegna ekki er háværara ákall um breytingar, bæði innan flokkanna sem utan þeirra. Stundum velti ég því fyrir mér að kannski gera fæstir sér grein fyrir því hvernig flokkarnir eru byggðir upp í raun og veru. Hversu mikil skókassapólitík viðgengst og hversu mikill jarðvegur skókassapólitíkin er fyrir spillingu. Skókassarnir þrífast undir hinu fagra orði fulltrúalýðræði.

Kerfið er þannig að innan flokkanna starfa mismörg félög. Félögin falla svo undir kjördæmin. Til þess að geta átt atkvæðisrétt á kjördæmisþingi eins og því sem haldið var hjá framsóknarmönnum á Mývatni núna um helgina þarf viðkomandi félagi að vera tilnefndur sem fulltrúi á kjördæmisþing af sínu félagi (hvert félag fær t.d. 1 fulltrúa fyrir hverja 10 félagsmenn). Skipulagið er misjafnt milli flokka þó þeir séu í meginatriðum byggðir upp á svipaðan máta. Til þess að komast á flokksþing/landsfund (með atkvæðisrétt) sem er æðsta stofnun innan flokkanna þar sem forystan er kosin og stefnan ákvörðuð þarftu að vera valin/nn í þínu félagi til þess að fara og hvert flokksfélag á rétt á að senda 1 fulltrúa fyrir hverja byrjaða 15 félagsmenn. Það er æði misjafnt milli félaga hver það er sem ákveður hver fær að fara og hver ekki. Þetta eru „skókassarnir“ sem ákveðnir aðilar geta notfært sér með því að hafa áhrif á það hverjir raðast inn á kjördæmisþing, flokksþing/landsfund eða aðra mikilvæga fundi. Menn raða og smala inn í skókassana til þess að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu mikilvægra ákvarðana eins og vali um aðferð á lista, val á fólki og ákvörðun um stefnumál. Oft er mikið í húfi eins og umfjöllun um síðara einvígi Höskuldar og Sigmundar Davíðs ber vott um. Þá skiptir það höfuðmáli hverjir raðast inn á fundina og kannski má álykta að skókassaaðferðin hafi borið sigur úr býtum í dag!

Til þess að uppræta þá spillingu og óheilbrigði sem er að finna í ákveðnum stjórnmálaflokkum er nauðsynlegt að rífa niður skókassana. Það þýðir að afnema fulltrúalýðræðið að einhverju eða öllu leyti og taka upp beint lýðræði. Einn maður eitt atkvæði. Hver og einn félagsmaður sem verið hefur félagi í flokknum í tilskilinn tíma hefur rétt til þess að velja sér forystu, taka ákvörðun um val á lista í sínu kjördæmi, velja sér frambjóðendur og taka þátt í að marka stefnu flokksins. Tryggja þyrfti að fólk gæti einungis haft slík áhrif í einum flokki. Það er búið að finna upp internetið og rafrænar kosningar ættu því að vera vel fær leið til þess að auka möguleika fólks á þátttöku. Sé viljinn fyrir hendi er útfærslan ákveðin þróun rétt eins og varðandi beint lýðræði hjá þjóðinni sjálfri. Nú er komið að flokkunum! Ég vil gjarnan heyra rök manna gegn því að fara í þessar breytingar. Ég tel t.d. að formaður Sjálfstæðisflokksins væri Hanna Birna Kristjánsdóttir en ekki Bjarni Benediktsson hefðu allir Sjálfstæðismenn fengið að taka þátt í að velja sér formann á síðasta landsfundi þeirra. Það er einnig stórundarlegt hvernig forysta stjórnmálaflokkanna getur ítrekað farið gegn því sem grasrót flokkanna vill eins og afnám verðtryggingar og leiðrétting á skuldum heimilanna er gott dæmi um!

Beint lýðræði í stjórnmálaflokkunum er að mínu mati ein mikilvægasta breytingin sem verða þarf innan flokkanna til þess að þeir fari að virka eðlilega og fólk fari að treysta þessum stofnunum á ný.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur