Þriðjudagur 06.11.2012 - 00:08 - FB ummæli ()

Katastrófa í myrkrinu

Í gærkvöldi þegar ég var búin að koma mér vel fyrir við tölvuna, búin að setja uppþvottavélina og þvottavélina í gang og ætlaði að grípa niður í smá vinnu þá varð allt skyndilega myrkvað… Rafmagnið var farið!

Ég hugsaði með mér að þetta myndi nú ekki vara lengi. Þar sem ég er mjög hrifin af kertaljósum var ég ekki lengi að lýsa upp hjá mér. Eftir þó nokkurn tíma gafst ég upp, opnaði þvottavélina, tók blautan þvottinn út og ákvað að fara bara í háttinn. Skömmu síðar kom rafmagnið á en þá var orðið of seint að byrja þar sem frá var horfið. Þegar ég var við það að sofna varð ég vör við að rafmagnið fór aftur. Ég ákvað að halda áfram að reyna að sofna og þóttist vita að ég myndi vakna við nýjan hefðbundinn dag með rafmagni eins og ekkert hefði í skorist. Ég bý nefnilega á Íslandi og er svo góðu vön. Rafmagnsleysi í hálftíma þykir frétt… hvað þá meira.

Það skrítna var hinsvegar að ég vaknaði í niðamyrkri. Eftir að hafa legið dágóða stund í rúminu, saknað þess að geta ekki vaknað við vini mína í „Ísland í Bítið“  og eftir bið eftir rafmagninu ákvað ég að ég yrði nú bara að fara á fætur og græja mig við kertaljós sem ég gerði. Ég leit oft út um gluggann og allt var myrkvað. Hvergi voru vinalegu ljóstýrurnar af húsunum í kring að sjá en greinilega einhverjir að kúldrast í myrkrinu við kertaljós eins og ég. Ég sá ljósbjarma yfir Reykjavík en var ekki viss hvort það væri bara morguninn að ryðjast fram eða ljósmengun frá borgarljósunum. Allt gengur fyrir rafmagni og því var ekkert nothæft nema gamla klossaða vasaljósið og kertin. Ég á ekki einu sinni útvarp sem gengur fyrir batteríum.

Hugurinn byrjaði aðeins að reika… Ætli Katla sé komin á kreik? Ætli það hafi orðið stór jarðskjálfti, það var nú víst skjálfti fyrir norðan upp á 3.8 nýlega? Ætli það sé farið að gjósa á Reykjanesi? Ætli það sé í lagi með fólkið mitt? Oh, mig langar að vera hjá fólkinu mínu… Ætli það sé líka rafmagnslaust hjá þeim? Ætli það sé eitthvað meira í gangi en bara rafmagnið? Hvað ef ég sé þau aldrei aftur? Af hverju lítur hverfið út eins og draugabær? Af hverju heyri ég svona lítið í nágrönnunum? Af hverju eru engir bílar á ferð? Hvað ætli mæti mín ef ég fer af stað út í myrkrið?

Svo fór vel þjálfaði sálfræðihugurinn í gang með að endurmeta hugsanirnar… Þú hefur áður upplifað svona stund og þá var allt í lagi! Það eru allar líkur á því að það sé bara rafmagnslaust og þú munir mæta í vinnuna og geta brosað að þessu og allt verði eins og ekkert hafi í skorist. Þú munt sennilega heyra það um leið og þú sest inn í bílinn að Bítið er í gangi eins og venjulega og einhver misvitur að tjá sig og keyra inn í hinn venjulega dag…

Og hvað haldið þið að hafi gerst?

Ég settist upp í bílinn (tók með mér hlýrri föt en vanalega þar sem ég vissi ekki alveg hvað ég væri að fara út í). Kveikti á útvarpinu… og þar var einhver að tjá sig í Ísland í Bítið eins og venjulega… ekkert tal um neinar katastrófur! Um leið og ég var kominn framhjá skólanum og keyrði framhjá hverfinu við hliðina á mínu sá ég ljós á blokkunum :). Myrkraveröldin var víst bara í hluta bæjarins og katastrófurnar voru bara í kollinum á mér! Ég mætti svo í vinnuna og allt var eins og venjulega…

En ég? Ég var reynslunni ríkari enn á ný. Sérstaklega að tvennu leyti: Í fyrsta lagi er ágætt að fá svona „false alarm“ til að minna sig á að það væri gott að eiga batterísútvarp til að geta heyrt í umheiminum, hafa vasaljósið á vísum stað og eiga nóg af batteríum og kertum 🙂 svona til vonar og vara. Í öðru lagi þá er ágætt að muna það að flestar þær áhyggjur sem fara á fleygiferð í huga okkar og eru búnar að hringsnúast og þeyta upp stórkostlegum hamförum úr litlu sætu rafmagnsleysi eru bara í huganum á okkur. Það er til góð bók sem heitir „Get out of your mind and into your life“. Það á vel við hér.

Ég gat og get enn brosað að þessari óvenjulegu byrjun dagsins!

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur