Fimmtudagur 08.11.2012 - 20:01 - FB ummæli ()

Bíóferð með blokkinni

Þessi frétt vakti mig til umhugsunar.

Eitt sinn sagði Gerður Árnadóttir formaður Þroskahjálpar að maður ætti ekki að bjóða öðru fólki upp á það sem maður myndi ekki bjóða sjálfum sér eða sínum upp á. Þetta er einföld speki sem segir afar margt varðandi þjónustu við fólk og ég hef ávallt notað sem viðmið þegar ég legg mat á þjónustu.

Flest fólk hefur þörf fyrir það að njóta félagslífs og njóta samveru við aðra. Liðveisla fatlaðs fólks er úrræði sem ætlað er að rjúfa félagslega einangrun þeirra sem þurfa aðstoð við að uppfylla þetta atriði sem hefur mikil áhrif á lífsgæði.

Hefðir þú áhuga á því að fara í bíó með allri blokkinni þinni?

Hefðir þú áhuga á því að fara í bíó með þeim sem var að aðstoða þig við sturtuna í morgun?

Sumir myndu kannski segja já en ég myndi segja nei.

Miðað við þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á reglum Velferðarráðs er verið að bjóða fólki sem býr á sambýlum upp á það að fara í bíó með sínum nágrönnum (sem búa á sama sambýli) og/eða fara með því starfsfólki sem aðstoðar það við allar athafnir daglegs lífs.

Ég starfaði á sambýli fatlaðs fólks í átta ár og þekki það hversu mikilvægt það getur verið íbúunum að eiga kost á liðveislu  aðila sem er eingöngu í því hlutverki að skreppa með þér út öðru hverju á eigin forsendum að njóta þess félagslífs sem samfélagið hefur upp á að bjóða.

Mér þykir þessi breyting vera veruleg afturför og Reykjavíkurborg til vansa. Ég get heldur ekki séð af fréttinni að gert sé ráð fyrir auknum fjárframlögum til reksturs á þeirri þjónustu sem veitt er á sambýlum þannig að hægt sé að uppfylla þessa þörf.

Er þessi breyting í takt við eftirfarandi nýframlagða stefnu í málaflokknum:

I. Stefna í málaflokki fatlaðs fólks 2012–2020.
Íslenskt samfélag byggist á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannlegu eðli.
Tryggt verði að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, því sé tryggð vernd og frelsi til að njóta þeirra réttinda og að virðing sé borin fyrir mannlegri reisn þess.
Fötluðu fólki verði tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Í því skyni verði barist gegn fátækt og félagslegri útskúfun. Fatlað fólk hafi sama rétt og aðrir íbúar landsins til að halda mannlegri reisn og njóta sjálfræðis, jafnréttis og samstöðu. Með því njóti fatlað fólk góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að jöfnuði, svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála.
Stefna í málefnum fatlaðs fólks taki mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fatlað fólk komi að stefnumótun og ákvarðanatöku í eigin málum.
Tryggt verði að samtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þeirra. Velferðarráðuneytið beri ábyrgð á öflun upplýsinga um þjónustu við fatlað fólk frá sveitarfélögum og því að samhæfðir árangursmælikvarðar á grundvelli laga, stefnu í málefnum fatlaðs fólks og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði skilgreindir svo unnt sé að vakta þjónustuna og meta árangur með tilliti til jafnræðis og mannréttinda.
Þeir sem búa við fötlun njóti virðingar jafnt og aðrir og eigi kost á stuðningi til sjálfstæðis og lífsgæða sem stuðla að því að þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og styrkleika.
Fatlað fólk njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara á við aðra þjóðfélagsþegna og búi við skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, jafnt börn sem fullorðnir.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur