Föstudagur 30.11.2012 - 00:31 - FB ummæli ()

Niðurgreidd gagnreynd meðferð sálfræðinga eða græðara? Furðuleg tillaga Ólínu og félaga

Furðufrétt gærdagsins hlýtur að vera fréttin af þessari þingsályktunartillögu þar sem Ólína Þorvarðardóttir, Guðrún Erlingsdóttir, þingkonur Samfylkingar ásamt Álfheiði Ingadóttur og Bjarkey Gunnarsdóttur, þingkonum Vinstri grænna leggja til að kannað verði

hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts.

Er tillaga Ólínu og félaga í samræmi við klínískar leiðbeiningar?

Hvaða ritrýndu rannsóknir leggja þingkonurnar til grundvallar þessari tillögu á nýtingu skattfé almennings? Hvaða klínísku leiðbeiningar mæla með meðferð græðara? Vita þingkonurnar að hvorki er niðurgreidd þjónusta tannlækna né sálfræðinga hér á landi?

Klínískar leiðbeiningar (clinical guidelines) eru leiðbeiningar (ekki fyrirmæli) um verklag, unnar á kerfisbundinn hátt, til stuðnings starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og almenningi við ákvarðanatöku við tilteknar aðstæður. Þær taka mið af bestu þekkingu á hverjum tíma og eru lagðar fram í því skyni að veita sem besta meðferð með sem minnstri áhættu án óhóflegs kostnaðar.

Klínískar leiðbeiningar sem samþykktar hafa verið m.a. í Bretlandi og á Íslandi mæla með því að Hugræn Atferlismeðferð (HAM) eigi að vera fyrsta meðferð við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi (jafnvel alvarlegu ef meðferðaraðilinn er reyndur). Þrátt fyrir það hefur almenningur almennt ekki aðgang að hugrænni atferlismeðferð á Íslandi. Þessar leiðbeiningar eru rökstuddar af hundruðum ritrýndra rannsókna sem sýnt hafa fram á að hugræn atferlismeðferð reynist jafn vel og lyfjameðferð við þessum röskunum og jafnvel betur til lengri tíma því líkur á hrösun eru minni þeas. fólk hrasar oft þegar því fer að líða betur og hættir að taka lyfin og þá kemur bakslag. Í hugrænni atferlismeðferð öðlast sjúklingurinn nýja þekkingu og lærir tækni sem nýtist honum ævina á enda sem gott getur verið að rifja upp öðru hvoru. Stundum geta þessar tvær leiðir stutt prýðilega við hvora aðra. Það að fólk geti valið um meðferð er einnig líklegt til að auka meðferðarheldni samkvæmt rannsóknum (patient choice).

Þriðjungur þeirra sem koma á heilsugæslu eiga við tilfinningavanda að stríða

Ég vann rannsókn á fimm heilsugæslustöðvum í fyrra þar sem lagðir voru fyrir áreiðanlegir og réttmætir skimunarlistar sem skima fyrir einkennum kvíða og þunglyndis ásamt því sem spurt var út í sjálfsmat, klínískt mat læknis á tilfinningavanda, meðferð, tilvísun og fleira. Helstu niðurstöður voru þær að samkvæmt rannsókninni telja 35% þeirra sem sitja á biðstofum heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu sig eiga við tilfinningavanda að etja, 41.3% voru metin með tilfinningavanda af heimilislækni og 50% skimuðust með væg, miðlungs eða alvarleg einkenni kvíða og/eða þunglyndis. Þrátt fyrir það var einungis 11.7% vísað til sálfræðings en meirihlutinn eða 54% var í lyfjameðferð. Meirihluti þátttakenda sem mátu sig með tilfinningavanda taldi HAM geta gagnast sér og heimilislæknar mátu hana jafnframt gagnlega fyrir meirihluta þeirra sem þeir mátu með tilfinningavanda væri meðferðin í boði á heilsugæslunni. Einungis 2.9% sögðust hafa komið á heilsugæsluna vegna tilfinningavanda og margir undruðu sig á því hvert þeir gætu leitað til að fá aðstoð vegna slíks vanda. Þeir sem skimuðust með meiri vanda voru líklegri til þess að koma oft á heilsugæsluna (high users of health service). Ógreindur og ómeðhöndlaður tilfinningavandi veldur mikilli byrði og kostnaði fyrir sjúklinginn, fjölskylduna og samfélagið allt og geðraskanir eru almennt vangreindar í heilbrigðiskerfum jafnvel í 50-75% tilfella og einungis 20-25% sjúklinga fá meðferð við geðröskunum.

Hvaða úrræði höfum við?

Fólk leitar oft fyrst á heilsugæslu þegar því líður illa. Þar er skortur á heimilislæknum sem hafa lítinn tíma og það eina úrræði að skrifa upp á geðlyf fyrir fólk sem er að kljást við tilfinningavanda. Stór hluti þeirra sem er með örorkumat hefur það vegna geðraskana. Á þjónustumiðstöðvum kemur fólk sem er án atvinnu, á fjárhagsaðstoð eða í öðrum vanda. Leiða má líkur að því að mikill meirihluti þess hóps stríði einnig við hamlandi einkenni tilfinningavanda. Hvorki ríkið eða borgin hafa þrátt fyrir þetta séð sér fært að ráða til sín sálfræðinga sem geta skimað fyrir vandanum strax í framlínunni, veitt nánari greiningu fyrir þá sem skimast með klínísk einkenni, boðið þeim sem eru með væg einkenni upp á hópmeðferð sem forvörn og sinnt eftirfylgd.

Svona myndi ég og fleiri vilja sjá kerfið uppbyggt: Skimun í heilsugæslu og á þjónustumiðstöðvum. Gagnreynd hópmeðferð í boði í nærumhverfinu, ásamt skammtímameðferð, nánari greiningu og eftirfylgd á geðheilsustöðvum í samræmi við mat á alvarleika vandans.

Hvert og eitt okkar er ómissandi í svona litlu samfélagi og því mikilvægt að veita bestu meðferð sem völ er á við jafn lamandi vanda og kvíði og þunglyndi eru. Auk þess get ég fullyrt að við munum spara háar fjárhæðir við það að skima, greina vandann strax og koma í viðeigandi farveg því það er bæði kostnaðarsamt og sársaukafullt að fyrst sé brugðist við þegar allt er komið í óefni, fólk hætt að geta unnið og greitt skatta og komið í mikla þörf fyrir ýmiss konar dýr úrræði.

Er ekki tímabært að hugsa þennan hluta velferðarkerfisins upp á nýtt?… Og þá á ég ekki við að fara að niðurgreiða meðferð með blómadropum eða öðru slíku sem hjálpar örugglega en er ekki enn amk. gagnreynt meðferðarform.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur