Mánudagur 28.01.2013 - 17:47 - FB ummæli ()

Við unnum Icesave!

Sagði góð vinkona mín, Þórey Anna Matthíasdóttir, mér í símtali undir hádegið.

Davíð hefur sigrað Golíat. Fyrsta skrefið hefur verið stigið að betri framtíð íslenskrar þjóðar úr rústum hrunsins.  Þjóðar sem er orðin hálfhokin af ömurlegum afleiðingum fjárglæfra þar sem lífsgæðin hafa farið niður úr öllu og hvert áfallið rekið annað. Þjóðar sem hefur ekki átt annarra kosta völ en halda áfram að ganga til sinnar daglegu vinnu (fyrir þá sem eru svo heppnir að hafa haft vinnu) og horfast í augu við það að á sama tíma og launin lækka, lánin hækka hafa útgjöld tvöfaldast eða meira.

Öll él birtir upp um síðir. Allt í einu hafa óveðursskýin sem byrjuðu að hrannast upp í aðdraganda hrunsins fyrir fimm árum vikið og sólin byrjað að senda okkur geisla vonar um nýja tíma. Stórsigur dagsins kallar á væntingar um áframhaldandi réttlæti þar sem leiðréttar verði óréttlátar skuldir heimilanna, verðtrygging afnumin, efnahagslífið komist í gang, hjólin fari að snúast og arðinum af dýrmætum auðlindum verði skipt á þjóðina alla en ekki fáa útvalda. Von um nýja tíma fyrir Ísland sem byggir m.a. á samfélagssáttmála nýrrar stjórnarskrár. Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott.

Margir hafa barist í þeirri erfiðu baráttu sem nú hefur unnist, aðrir hörfuðu eða létu undan kúgun og hótunum. Þeir sem létu ekki vald ofjarla hræða sig og stóðu í lappirnar fyrir litlu þjóðina af kjarki, hugrekki og þor eiga heiður skilinn. Má þar nefna m.a. forseta Íslands, Indefence, Advice, Samstöðu þjóðar gegn Icesave, Framsóknarflokkinn með Sigmund Davíð í fararbroddi og fjölmarga aðra einstaklinga eins og Lilju Mósesdóttur og þingmenn Hreyfingarinnar.

Mat mitt er að íslenska þjóðin hefði ekki getað staðið undir vöxtum sem námu 100 milljónum á dag! Hvítvoðungarnir okkar hefðu verið að greiða af Icesave amk. til 35 ára aldurs. Við hefðum setið uppi með óútfylltann tékka sem enn meiri skuldaþrælar stórþjóða. Lífskjörin hér hefðu orðið ömurlegri en þau eru í dag, fólk hefði flúið og kannski hefðu spár um Kúbu norðursins ræst. Við hefðum einnig skapað alvarlegt og rangt fordæmi þess að skuldum einkafyrirtækja væri velt yfir á skattgreiðendur og fjárglæframenn gætu haldið áfram að leika lausum hala því ábyrgðinni af Matador leik þeirra væri velt yfir á saklausan almenning.

Ég fylgdist með umræðunum í þinginu áðan og tel tíðindin muni draga pólitískan dilk á eftir sér. Þeir aðilar sem ætluðu sér að leggja óberandi byrðar Icesave I, II og/eða III á íslenskan almenning hljóta að þurfa að íhuga stöðu sína. Þeirra ákvörðun reyndist röng þó að þeir hafi án efa ígrundað hana á sínum tíma og byggt hana á rökfærslu sem leiddi þau að rangri niðurstöðu. Forystumenn ríkisstjórnarinnar Jóhanna og Steingrímur eiga ekki afturkvæmt sem leiðtogar þjóðarinnar að mínu mati, Bjarni Benediktosson getur ekki leitt Sjálfstæðisflokkinn sem hafði aðra sannfæringu en flokkur hans í málinu en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur styrkt stöðu sína sem leiðtogi og sýnt fram á það í annað sinn að málstaður sem hann hefur barist einarðlega fyrir reynist réttur. Hinn fyrri er skuldaleiðrétting heimilanna. Lilja Mósesdóttir, „villikettirnir“ og þingmenn Hreyfingarinnar hafa líka barist fyrir þessum málum og styrkt stöðu sína og er synd að sum þeirra ætli sér að víkja af þingi í vor því nú þarf að snúa sér að öðrum stórum málum og þá er þeirra þörf.

Þeir sem stóðu fyrir heilsíðu auglýsingum sem hvöttu þjóðina til að láta undan hákarlinum hljóta líka að þurfa að hugsa sinn gang.

Ég tel daginn í dag marka tímamót. Viðsnúning. Dagurinn sem Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland var svartur dagur í sögu þjóðarinnar sem leiddi okkur inn í dimman og erfiðan dal. Í dag tel ég að við séum komin í gegnum hann og leiðin liggi upp á við. Um allt land brosir íslenska þjóðin, litla stórþjóðin á eyjunni fögru sem hefur lagt Golíat að velli og getur horft björtum augum fram á veginn að lokinni hryssingslegri göngu um dimman dal síðastliðin fimm ár. Vilborg Arna sigraði Suðurpólinn með jákvæðni, áræðni og hugrekki að leiðarljósi. Íslenska þjóðin sigraði Icesave með áræðni og hugrekki. Næsta skref er samstaða um betri framtíð fyrir okkur öll og við skulum ekki sundrast, finna það sem sameinar okkur, aldrei víkja heldur verjast og sigra.

Til hamingju Ísland 🙂

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur