Mánudagur 04.02.2013 - 00:05 - FB ummæli ()

Bekkjarmyndir og barnshugurinn

Þegar maður horfir á bekkjarmyndir þá sér maður yfirleitt hóp brosandi barna eða ungmenna. Fólk sem lífið blasir við. Á þessum aldri órar fæsta fyrir því hversu misjöfn lífsganga hvers og eins verður. Á bekkjarmyndum lítur út fyrir að öll andlitin eigi sama tækifæri í lífið. Lífið er svolítið eins og konfektkassi, við vitum ekki fyrirfram hvaða mola við fáum. Við erum líka ólík að upplagi og vöxum upp í misjöfnum jarðvegi.

Umsjónarkennarinn minn kallaði bekkinn við stúdentsútskrift m.a. „hvatvísa ungdóminn, við værum hið föngulegasta fólk og minna yrði um ljóskur og sambrýnda menn við útskrift okkar. Svo skrifaði hann: En hvernig væri veröldin án þessara einstaklinga? Vitur maður sagði eitt sinn: Látum þúsund blóm blómstra. Blómstrið nú börnin mín, bæði rósir og arfasátur.“

Mikið hafði hann rétt fyrir sér og ekki skildi ég þennan texta þá eins og ég skil hann núna mörgum árum síðar að mikilli lífsreynslu liðinni. Samt er ég enn ung kona. Því miður fáum við ekki öll sama tækifæri til þess að blómstra á sama hátt því sum falleg blóm eru klippt í burtu frá okkur fyrir aðra að njóta langt á undan öðrum. Hvernig verður veröldin og bekkjarmyndin án þeirra?

Þegar maður á við erfið bakmeiðsl að stríða er gott að fylgjast með litlum börnum og læra af þeim hvernig maður á að beita sér. Þau kunna að bera líkamann rétt og hafa ekki lært ranga líkamsbeitingu. Ætli það sama gildi ekki um andlegu hliðina og þá líkamlegu? Kannski er ágætt að fylgjast með og læra af börnum jafnmikið og við reynum að kenna þeim. Þau kunna nefnilega jafnmikið og þau eiga ólært því þau hafa ekki lært óhjálplega siði og venjur. Þau kunna til dæmis listina að vera í núinu. Njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða hér og nú. Þau hafa sjaldnast miklar áhyggjur af fortíðinni, hvað þá framtíðinni og þau flækja hlutina ekki mikið fyrir sér. Nánast hver einasti dagur og smávægilegasti atburður er ævintýri í barnshuganum sem þyrstir í sífellt meiri upplýsingar um hinn ört stækkandi veruleika.

Við getum ekki séð það á bekkjarmyndum hver afdrif hvers og eins brosandi andlits verða. Einhverju getum við stjórnað varðandi okkar eigið brosandi andlit, öðru ekki. Með því að lifa lífinu okkar vel og vera góð við aðra getum við kannski bætt afdrif einhverra. Að öðru leyti er sennilega best að endurmeta lífið og muna að lifa því með það í huga að við vitum aldrei hvenær okkar blóm hefur blómstrað sínu síðasta blómi og við verðum kölluð til annarra verka á óræðan stað og hverfum hópnum sjónum.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur