Sunnudagur 10.02.2013 - 21:17 - FB ummæli ()

Stjórnmálaflokkar nútíðar og næstu skref

Við Íslendingar erum reynslunni ríkari eftir hrun. Margt fór úrskeiðis, marga bar af leið. Þegar maður lítur til baka, óveðrinu hefur slotað að mestu og öldurnar lægt þá sér maður sífellt betur þann skaða sem varð og hvernig við höfum brölt með góðum og slæmum árangri á þessum erfiðu tímum. Svolítið eins og forfeður okkar sem þurftu að berjast í gegnum mannsskaðaveður á þessari litlu erfiðu eyju. Í slíkum aðstæðum er auðvelt að stíga feilspor en stundum komumst við á áfangastað í blindbylnum. Við höfum komist í gegnum stóra skafla, eins og Icesave og haft sigur. Það er okkur ómetanlegt. Við hefðum verið betur sett ef við hefðum verið tilbúin að taka djarfar ákvarðanir eins og þá að leiðrétta skuldir heimilanna strax. Þeir milljarðar (um 200) hefðu verið búnir að skila sér tilbaka í hagkerfið, veita súrefni þar inn og það væri við betri heilsu að mínu mati. En fortíðinni breytum við ekki. Nútíðinni getum við breytt.

Skuldavandinn er sár sem verður að græða. Það er bara tímaspursmál hver hrindur því í framkvæmd og hvaða leið verði farin. Það er ekki hægt að samþykkja það að einungis þeir sem tóku mikla áhættu með gengistryggðum lánum fái leiðréttingu en aðrir sem voru með verðtryggð lán sitji í skuldasúpunni. Það er ekki hægt að samþykkja það að við sitjum á skuldaklafa og eigum að greiða bönkunum (eða hverjum sem eiginlega á bankana og kröfurnar í dag) stökkbreytt lánin okkar að fullu eða 100% á meðan þessir aðilar fengu þau á bónus verði, sennilega allt niður í 10% af virði þeirra á sínum tíma. Það er ekki endalaust hægt að lækka laun, hækka skatta og gjöld og blæða millistéttinni út. Því lengur sem fólk nær engum endum saman því dýpra sökkvum við, því fleiri segja upp og fara úr landi og því færri greiðslufærar hendur verða til þess að snúa hjólunum. Það þarf kjark, hugrekki og þor til þess breyta, skapa von og halda inn í betri framtíð fyrir land og þjóð.

Það þarf m.a. að afnema verðtrygginguna, leiðrétta skuldirnar og ráðast í breytingar á grunnkerfunum okkar eins og lífeyrissjóðakerfinu og almannatryggingakerfinu. Mín skoðun er sú að það eigi að tryggja öllum grunnframfærslu í samræmi við neysluviðmið í gegnum almannatryggingakerfið (gegnumstreymiskerfi) en svo geti hver og einn valið sér lífeyrissjóð til þess að safna sér sjóði fyrir ævikvöldið og þarna sé ekki tenging á milli þannig að ekki verði skerðing (refsing fyrir að safna sér sjóði). Skattkerfið þarf að virka þannig að það sé ávallt hvati fyrir því að greiða skatta. Þú borgar inn og færð út úr kerfinu. Í dag virka kerfin því miður meira þannig að því minna sem þú borgar í þau, því meira færðu þannig að þau hvetja til rangrar hegðunar sem er mjög óhjálpleg fyrir samfélagshagkerfið.

Ég tel að besta leiðin til þess að ná fram þessum mikilvægu breytingum séu ákveðnar breytingar innan flokkanna. Ein þeirra er að fylgja eftir þeirri lýðræðisvæðingu sem á sér almennt stað í samfélaginu og innleiða beint lýðræði í meira mæli inn í flokkana. Ég tel að með því að treysta heildinni fyrir mikilvægum ákvarðanatökum eins og t.d. vali á frambjóðendum, lagabreytingum og málefnum þá muni flokkarnir græða sig innan frá þeas. komið sé í veg fyrir að þeir séu misnotaðir til þess að ná fram ákvörðunum sem lúta að sérhagsmunum fárra í gegnum fulltrúalýðræði sem virkar ekki alltaf sem skyldi. Ég sé þetta þannig að fólk geti einungis verið skráð í einn flokk og eftir ákveðinn tíma (t.d. 3-6 mánuði) hafi það atkvæðisrétt í sínu kjördæmi og á landsvísu þegar það á við og notast sé við rafrænar kosningar. Einnig sé ég fyrir mér að á landsfundi/flokksþingi eigi allir flokksbundnir félagsmenn setu- og atkvæðisrétt, einn maður, eitt atkvæði. Það er einnig mikilvægt að gagnsæi sé ávallt fyrsta val og hinn almenni borgari geti leitað sér upplýsinga og fylgst með því sem flokkarnir eru að gera, fundum, málefnum, nefndum oþh. Það sama á við um stjórnsýsluna. Skattgreiðandinn á að geta flett upp öllum lykiltölum og samræmdum ársskýrslum stofnana til að geta veitt nauðsynlegt aðhald á framlagi sínu í sjóði samfélagsins.

Ég hef trú á því að við séum í miðju þroskaferli á leið inn í heilbrigðari stjórnmál og farsælli framtíð :).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur