Mánudagur 18.02.2013 - 00:43 - FB ummæli ()

Rústum fjórflokknum

Ég hef orðið vör við það viðhorf hjá sumum að eitt aðalmarkmið næstu kosninga sé að jarða fjórflokkinn. Í mínum huga eru slíkar yfirlýsingar ódýr einföldun á flóknu máli. Ég tel slíkan hugsunarhátt bera vott um svarthvíta hugsun sem verður ekki að gagni.

Ég hef starfað frá árinu 2006 í stjórnmálum, bæði í einum af hinum títt nefndu fjórflokkum en einnig komið að því að stofna nýtt framboð. Það sem ég hef komist að er að málin eru ekki svarthvít. Fjórflokkarnir eru ekki vondir með vondu fólki og nýju framboðin góð með góðu fólki. Mikill meirihluti þeirra sem fer að starfa í stjórnmálum er verulega gott fólk hvort sem það starfar í hinum alræmda fjórflokki eða öðrum flokkum. Fólk sem hefur eldmóð og áhuga á því að láta gott af sér leiða og bæta samfélag sitt. Fólk sem er tilbúið til þess að eyða hundruðum klukkustunda í sjálfboðavinnu til þess að vinna hugsjónum sínum farveg. Hugsjónum sem fólk hefur trú á að geri lífið betra fyrir okkur öll. Sannarlega höfum við ekki öll sömu hugsjónirnar eða sjáum sömu leiðir að markmiðunum en það er lykill að þróun og árangri.

Hins vegar hef ég grun um að í flestum flokkum séu einnig örfáir einstaklingar sem ættu frekar að snúa sér að öðru en stjórnmálum. Misjafn sauður er í mörgu fé. Ég kynntist þessu m.a. aðeins þegar ég var að hefja afskipti af stjórnmálum. Þá sá ég til einstaklinga sem virtust hafa önnur áform daginn eftir kosningar en fyrir þær. Menn sem láta persónulegan ávinning glepja sig, eltast við glópagull og reyna að ráðskast með fólk í valdatafli til þess að uppfylla sóðaleg plön sín.

Til þess að bæta stjórnmálalífið á Íslandi og öðlast betri útkomu fyrir íslenskan almenning tel ég verkefnið fyrst og fremst snúast um það að bæta starf allra flokkanna í stað þess að flokka þá sem góða og slæma, svarta eða hvíta. Það er gott fyrir kjósendur að hafa vallkosti ef það sem er á matseðlinum er það sem viðkomandi fær í raun og veru.

Ég sé fyrir mér ýmis verkfæri til þess að vinna á þessum vanda. Meðal annarra aukið beint lýðræði innan flokkanna þar sem valdið liggi í mun meira mæli beint hjá grasrótinni í stað þess að búið sé að sía út ákveðna hópa með hentugleikalýðræði (fulltrúalýðræði). Ég sé fyrir mér að almenningur eigi að gera mun meiri kröfur um gagnsæi þannig að krafa sé gerð um að upplýst sé um hverjir gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkana. Einnig sé ég fyrir mér meiri kröfur um opið bókhald, áherslu á hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa og skorður á því hvernig megi t.d. auglýsa í aðdraganda kosninga. Mér líst mjög vel á þá hugmynd að allir flokkar fái tíma á Rúv til þess að kynna sig og stefnumál sín. Það þarf að tengja grasrót flokkanna við valdataumana en að sama skapi klippa á tengsl fjármálaheimsins við flokkana.

Ég tel verkefni næstu kosninga og ára ekki vera svo einfalt að það snúist um að rústa fjórflokknum. Ég tel verkefnið miklu frekar snúast um að smíða og beita þeim verkfærum sem hægt er að nota til þess að íslensk stjórnmál verði heilbrigðari og skili íslenskum almenningi bestu niðurstöðunni. Finna leiðir til þess að uppskera hið góða í öllum stjórnmálahreyfingum en henda hinu spillta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur