Sunnudagur 07.04.2013 - 00:12 - FB ummæli ()

Blautu stígvélin

Í dag var ég í Smáralindinni ásamt frambjóðendum Framsóknar í SV kjördæmi að ræða við fólk. Pólitík er alveg samofin lífi okkar allra og eitt það mest heillandi við að starfa í stjórnmálum er tækifærið að hitta fólk og kynnast samfélaginu frá ýmsum sjónarhornum. Tækifærið að heyra sögur fólks sem geta kennt manni svo margt.

Í dag hitti ég t.d. eldri mann sem sagði mér ansi góða dæmisögu sem mig langar að deila með ykkur eftir besta minni.

Hann sagði mér frá því að þegar hann hafi verið ungur gutti í sveitinni þá hafi foreldrar hans gefið honum glæný stígvél. Hann sagðist hafa verið sendur út til þess að sitja yfir ánum og hann hafi farið í nýju stígvélunum en honum var bannað að fara í lækinn. Hann hafi svo farið að vaða í læknum og rennbleytt stígvélin. Þegar hann áttaði sig á því að hann hefði komið sér í vanda fór hann að hugsa hvernig hann ætti að koma sér út úr þessu. Hann fór í hlöðuna, lagðist og ætlaði að láta stígvélin þorna. Þá kom pabbi hans til hans og spurði hvernig stæði á því að stígvélin væru svona blaut. Stráksi vissi ekki hvað átti til bragðs að taka en skrökvaði því að hann hefði reynt að fara fyrir árnar og þess vegna hefðu stígvélin blotnað. Sá gamli var fljótur að átta sig á að það gæti ekki staðist. Hann sagði þá mjög ákveðið við drenginn. „Þú skalt aldrei skrökva drengur, það er svo miklu erfiðara“.

Þessi ágæti maður sagði við mig að þetta hefði alltaf setið í honum og þarna hefði hann lært svo dýrmæta lexíu.

Lífið er mun einfaldara ef maður er heiðarlegur og sé maður það ekki þá man maður ekki einu sinni hvað maður hefur sagt við hvern og þannig upphefst flækja og vanlíðan. Lykilatriðið er að finna út hver maður sjálfur er, hver gildi, sýn og skoðanir manns eru og standa svo með sjálfum sér þó að manni finnist það stundum erfitt. Það er miklu einfaldara að eiga samskipti við fólk og sjálfan sig þannig. Ég held að flestir standi sig að því að ljúga einhvern tímann eða að minnsta kosti að segja hvíta lygi. Það sem maður uppsker úr slíku er óþægindatilfinning. Það getur líka verið erfitt að segja sannleikann og stundum er betra að láta satt kyrrt liggja.

Hvað stjórnmálin varðar þá held ég að þeir sem ná að halda í gildi sín og leggja sig fram við að vera heiðarlegir uppskeri það og ávinni sér smám saman traust og virðingu. Þeir sem reyna að leika mörgum skjöldum, segja það sem passar hverju sinni eða jafnvel segja ósatt detta um blautu stígvélin sín fyrr eða síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur