Fimmtudagur 25.04.2013 - 23:28 - FB ummæli ()

Huggulegt skuldafangelsi með gardínum

Sumardagurinn fyrsti. Það snjóaði í dag. Á föstudaginn göngum við að kjörborðinu og nýtum dýrmætan atkvæðisrétt okkar til þess að ákveða hvern við viljum sjá stjórna landinu næstu fjögur árin. Ég veit ekki hvað ég hef hugsað mikið um það eða skrifað marga pistla um það óréttlæti sem dunið hefur yfir almenning síðan í október 2008. Nú fjórum og hálfu ári seinna hefur minna breyst en ég hafði væntingar um. Enn er verið að tala um smáskammtalækningar varðandi leiðréttingar á skuldum heimilanna. Enn er talað um það að einhver sem ekki hefur þörf á því megi alls ekki fá leiðréttingu á stökkbreyttu láni sínu af því hann geti alveg borgað. Þessi stefna hefur að mínu mati ekki skilað okkur öðru en óréttlæti, gremju og reiði. Það finnst mér ekki skrýtið því svo ótal margir geta sagt frá því hvernig einstaklingar sem fóru glæfralega fyrir hrun og fjárfestu langt umfram efni hafa fengið bót sinna mála en þeir sem sýndu ráðdeild hafa enga úrlausn fengið. Fólki hefur verið refsað fyrir rétta hegðun en umbunað fyrir ranga hegðun. Strax 2008 var ég á þeirri skoðun að mjög óvenjulegar aðstæður dyndu yfir og eina leiðin úr þeim væru óvenjulegar og almennar aðgerðir. Fjármagni hefur verið dælt inn á hina ýmsu staði til þess að bregðast við eftir hrunið eins og í peningamarkaðssjóðina, lífeyrissjóðina og fjármálafyrirtækin en þegar talið berst að heimilum landsins er veskið tómt. Eftir sitjum við í skuldafangelsi með lán sem hafa hækkað stjarnfræðilega og náum ekki endum saman þrátt fyrir að hamast eins og hamstrar á hlaupahjólum í vinnu. Nýlegt dæmi sýnir 30 milljóna króna lán sem hækkaði um tæplega 500 þúsund krónur á viku! Í mínum huga er hlutverk stjórnmálamanna skýrt. Það er að frelsa íslenskan almenning úr þessu skuldafangelsi þannig að við getum farið að lifa eðlilegu lífi á ný og byggja hér upp betra samfélag. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur meira gengið út á það að gera skuldafangelsið huggulegt. Engin leið út en við bjóðum upp á gardínur, hvort viltu bláar eða bleikar?

Við töluðum fyrir 20% leiðréttingu húsnæðislána 2009 og flestir vita núna að þá hefðu menn betur hlustað en hlegið. Við börðumst gegn því að skuldum einkafyrirtækis yrði varpað á almenning og í ljós kom að meirihluti þjóðarinnar og dómstólar voru okkur sammála. Nú er nóg komið og tímabært að ráðast í löngu tímabærar almennar aðgerðir.Það þarf að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð lán, afnema verðtryggingu neytendalána og koma á fót nýju húsnæðiskerfi,  Tækifærið er núna!

Bráðum kemur betri tíð.

Gleðilegt Framsóknarsumar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur