Laugardagur 27.04.2013 - 03:53 - FB ummæli ()

Ný sýn í geðheilbrigðismálum

Fyrirspurn Sálfræðingafélags Íslands um stefnumótun í geðheilbrigðismálum og aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð

-Svör Framsóknarflokksins-

Formáli og stefnumótun

Alvarlegar afleiðingar efnahagshruns og sá óstöðugleiki sem því fylgir birtast ekki síst í aukinni hættu á streitu og tilfinningavanda hjá öllum aldurshópum sem stefnir geðheilbrigði landsmanna í aukna hættu með tilheyrandi áhrifum á fjölskyldulíf, vinnumarkað og samfélagið í heild sinni. Við þessu þarf að bregðast sérstaklega en jafnframt að byggja upp betra geðheilbrigðiskerfi til framtíðar. Rík krafa er uppi um sparnað í heilbrigðisþjónustu á sama tíma og þörfin fyrir þjónustu er mikil. Slíkar aðstæður kalla á öfluga endurskoðun kerfisins og að leitað verði lausna til þess að nýta auð kerfisins betur. Í þeirri stefnumótun leggjum við áherslu á eðlilegt samráð við fagfélög eins og Sálfræðingafélag Íslands og færustu sérfræðinga á hverju sviði. Við viljum byggja stefnu okkar á rannsóknum, hafa skýra framtíðarsýn, markmið til lengri og skemmri tíma og skýrar leiðir að þeim markmiðum með mælanlegum mælikvörðum. Við teljum mikilvægt að unnið sé að tilraunaverkefnum og árangur þeirra metinn áður en farið er í mjög víðtækar kerfisbreytingar.

Efling framlínuþjónustu

Við viljum heilbrigðisþjónustu sem tryggir sem jafnast aðgengi óháð búsetu og að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður. Við sjáum fyrir okkur geðheilsustöðvar sem hluta af almennri heilsugæslu og geðheilbrigðismiðstöð á landsvísu sem tryggi samræmingu vinnubragða og stuðning við fagaðila. Þessa hugmynd byggjum við á leið sem farin hefur verið í Bretlandi (Increasing Access to Psychological Therapies) og í öðrum nágrannalöndum okkar eins og Noregi. Við viljum efla sérfræðiþjónustu í heilsugæslunni og teymisvinnu og innifelur það m.a. þá stefnu að ráða sálfræðinga inn í heilsugæsluna til þess að sinna öllum aldurshópum. Með fjölgun fagstétta innan heilsugæslunnar yrði jafnframt komið til móts við mannaflavanda þann sem heilsugæslan hefur glímt við og dregið úr álagi á aðrar stofnanir innan heilbrigðiskerfisins eins og geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Við sjáum jafnframt fyrir okkur að starfskrafta sálfræðinga sé þörf víðar eins og t.d. í velferðarþjónustu sveitarfélaganna. Við leggjum áherslu á forvarnir og að efla framlínu heilbrigðiskerfisins til þess að draga úr þörf fyrir dýrari úrræði innan kerfisins. Í því ljósi sjáum við fyrir okkur mikilvægi þess að skima alla komugesti heilsugæslustöðva fyrir tilfinningavanda og efla jafnframt samstarf við félagsþjónustu sveitarfélaganna með það að markmiði að skjólstæðingum þeirra yrði boðin upp á sams konar skimun. Við viljum svo bjóða þeim sem skimast með tilfinningavanda upp á gagnreynt meðferðarúrræði í samræmi við hversu alvarlegur vandinn er og klínískar leiðbeiningar. Þeim sem skimast með klínísk einkenni ætti að bjóða greiningarviðtal og í kjölfarið taka ákvörðun um næstu skref í samráði við notandann. Við sjáum fyrir okkur að heilsugæslan geti sinnt einstaklingum með væg til miðlungs einkenni en þeim sem eiga við fjölþættan og/eða alvarlegri vanda að stríða yrði vísað á viðeigandi stað eins og t.d. til sjálfstætt starfandi sérfræðinga eða á sjúkrahús. Heilsugæslan myndi svo sinna eftirfylgni einstaklingsins. Einnig teljum við mikilvægt að fjölga samhliða öðrum úrræðum eins og hreyfiseðla, símaviðtöl, ráðgjöf um fræðsluefni á vefnum og fleira.

Geðheilbrigðisþjónusta fyrir yngri aldurshópa

Við viljum við efla forvarnir hjá yngri aldurshópum og skima grunnskólanemendur fyrir tilfinningavanda og bjóða þeim sem skimast upp á gagnreynd meðferðarúrræði í hóp eða önnur viðeigandi úrræði. Við teljum einnig að bæta þurfi fræðslu um geðrækt inn í námsskrár skólakerfisins. Við teljum einnig mikilvægt að styrkja BUGL og ráðast í umbætur á geðheilbrigðiskerfi fyrir börn og unglinga en m.a. þarf að skilgreina betur hlutverk hverrar stofnunar, efla samvinnu og sérsvið þeirra og vinna að eflingu ákveðinna úrræða eins og t.d. fyrir unglinga í vímuefnavanda.

Árangur af nýrri leið í geðheilbrigðismálum

Tilfinningalegur vandi fólks yrði greindur fyrr. Frumgreining unnin áður en boðið er upp á úrræði við klínískum vanda. Heilbrigðis- og félagsþjónusta yrði markvissari. Unnið í anda klínískra leiðbeininga. Aðgengi bætt í nærumhverfi fólks að gagnreyndum úrræðum sem er í samræmi við það sem almenningur óskar eftir og dregur úr fordómum fyrir geðröskunum. Betri nýting á mannauð og fjármagni í heilbrigðiskerfinu. Bætt eftirfylgni mála. Betra samstarf á milli stofnana geðheilbrigðiskerfisins. Færri einstaklingar á örorku vegna geðraskana. Færri einstaklingar á fjárhagsaðstoð vegna geðraskana. Færri einstaklingar í veikindaleyfum eða utan vinnumarkaðar vegna geðraskana.

     Aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð

      Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að almenningur hafi aðgengi að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á í samræmi við bestu þekkingu. Slík þjónusta er líkleg til þess að skila einstaklingnum heilbrigðari, betur í stakk búnum til að sinna skyldum sínum gagnvart fjölskyldu og atvinnu og samfélaginu hagkvæmni. Framsóknarflokkurinn telur að almenningur eigi að eiga kost á sálfræðimeðferð í heilsugæslunni eins og kemur fram í svari 1 og jafnframt eigi þjónusta sálfræðinga að vera niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur