Mánudagur 20.05.2013 - 14:27 - FB ummæli ()

Hvað er velgengni?

velgengniÞessi orð Paulo Coelho urðu tilefni þessa pistils og ég fór að velta fyrir mér hvað væri velgengni. Er það velgengni að hafa gert það sem aðrir vilja að þú gerir? Að verða það sem aðrir vilja að þú verðir? Að ná árangri á sviðum sem færir þig upp á samfélagslega stalla? Að skara einhvers staðar fram úr, fá klapp og hrós og lof? Að eiga auðæfi? Að búa í stóru húsi, eiga fullar skemmur af leikföngum og aka um á glæsivögnum? Er það velgengni að eignast eftirsóttasta piparsveininn eða flottustu konuna og  fullt hús af börnum? Er það velgengni að hafa unnið samfélaginu gagn? Er það velgengni að hjálpa öðrum? Er það velgengni að sigrast á heiminum eða sigrast á sjálfum sér?

Er það velgengni að líða vel með þig í eigin skinni, vera ánægður með þig og það sem þú ert að gera og hefur gert?

Að mínu mati er velgengni margþætt hugtak sem sennilega hvert og eitt okkar getur best skilgreint fyrir sig frekar en að reyna að passa í fyrirframgefna samfélagslega mælikvarða. Það sem ég held að sé lykilatriði er að maður átti sig á því hver eru gildi manns, hver er framtíðarsýnin og fyrir hvað maður vill standa til langs og skamms tíma. Hvað vill maður vera að gera á hverju augnabliki. Hvað líður manni sjálfum vel með. Það getur vissulega falið í sér margt af því sem ég nefni að ofan ef það er eitthvað sem uppfyllir eigin langanir og þrár. Ef það er hinsvegar einungis tengt því að öðlast hylli annarra og manni líður ekki vel með það sjálfum og langar að vera á allt öðrum stað þá er kannski tímabært að endurmeta hvort það sé mælikvarði á eigin velgengni.

Ég held að það sé líka ágætis verkfæri til að átta sig á eigin velgengni að ímynda sér sig á enda ævinnar líta tilbaka og velta því fyrir sér hverju maður væri stoltastur af að skilja eftir sig, með hverjum maður hefði helst viljað eyða tímanum  og hvað maður hefði viljað nota tímann í. Þannig fær maður góðan vegvísi til að fylgja í átt að eigin velgengni.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur