Mánudagur 09.09.2013 - 18:25 - FB ummæli ()

Ókeypis ávextir og grænmeti

Í dag var verið að ræða við Steinar B. Aðalbjörnsson næringafræðing á Bylgjunni og kom hann inn á atriði sem ég hef lengi haft áhuga á og snýr að því að auka aðgengi barna að grænmeti og ávöxtum. Ákvað því að birta hér grein sem ég skrifaði 2008 og þrátt fyrir að vera 5 ára gömul tel ég hana eiga erindi inn í umræðuna í dag. Ég hvet íslensk stjórnvöld til þess að ráðast í það að auka aðgengi okkar allra að hollum mat. Það skilar sér svo margfalt tilbaka. Heilbrigt líferni á ekki að vera lúxus!
Myndir af ávöxtum og grænmeti

 

Ofþyngd og hreyfingarleysi íslenskra skólabarna hefur aukist verulega síðastliðin ár. Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar er offita einn mesti og alvarlegasti heilsuvandi nýrrar aldar. Ávaxta- og grænmetisneysla íslenskra skólabarna er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Sex ára börn borða sem svarar fjórðungi úr gulrót og hálfum ávexti að meðaltali á dag en ráðlagður dagskammtur af grænmeti, kartöflum og ávöxtum eru 400 grömm á dag fyrir börn á aldrinum 6-10 ára og 500 grömm fyrir börn eldri en 10 ára. Í rannsókn sem unnin var 2003 þar sem úrtakið var 1235 skólabörn úr 32 skólum á Íslandi kom í ljós að 64% barnanna borðuðu ávöxt sjaldnar en einu sinni á dag og 61% borðuðu grænmeti sjaldnar en einu sinni á dag (Kristjansdottir, A.G.; Thorsdottir, I. ofl. 2003; sjá á http://www.theochem.org/Raunvisindathing06/utdraettir/agk-is.pdf). Ef ekki er brugðist við þessari þróun mun heilsufari þjóðarinnar stöðugt hraka í takt við það hversu mikið hún fitnar. Slíkt hefur í för með sér aukningu á langvinnum velmegunarsjúkdómum eins og krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum, versnandi tannheilsu og offitu. Með réttum inngripum má hafa veruleg áhrif á þessa þróun. Dæmi frá Finnlandi sýna að grænmetisneysla getur margfaldast á tiltölulega skömmum tíma ef markvissum aðgerðum er beitt.

Ýmsir aðilar hér á landi eins og Manneldisráð, Lýðheilsustöð, Krabbameinsfélagið, Hjartavernd og fleiri hafa verið iðnir við að benda á mikilvægi ávaxta- og grænmetisneyslu og eiga þeir hrós skilið fyrir. Manneldisráð hefur lagt til að grænmeti og ávöxtum verði dreift í skólum á svipaðan hátt og nú tíðkast með mjólk og drykkjarvörur og börnin geti þá keypt miða fyrir slíku og verið í áskrift (sjá meira á www.lydheilsustod.is/greinar/greinasafn/manneldi). Slíkt hefur verið prófað í einhverjum skólum hérlendis. Þessi aðferð hefur verið reynd í Noregi og Danmörku og gefist afar vel. Ég vil ganga enn lengra og leggja til við íslensk stjórnvöld og sveitarfélögin í landinu að grænmeti og ávextir eigi að vera ókeypis í barna- og grunnskólum landsins. Öll börn eiga skilið aðgengi að grænmeti og ávöxtum daglega en því miður hafa þau ekki öll jöfn tækifæri vegna til dæmis misjafnrar félagslegrar stöðu og virkni foreldra í að halda hollum mat að börnum sínum. Það er afar misjafnt eftir börnum og skólum hvað þau borða í skólanum. Sum borða allt of mikinn sykur og heitur matur er ekki alltaf nægilega vandaður og hollur. Það er ekki spennandi fyrir börn að draga upp úr skólatöskunni þvælda og marða ávexti og skálar með ferskum ávöxtum og grænmeti verða fljótar að tæmast í frímínútum verði boðið upp á slíkt. Slíkt skilar okkur orkumeiri, heilbrigðari börnum sem eiga auðveldara með að einbeita sér að náminu. Að auki væri æskilegt að allir skólar færu þá leið að einungis væri möguleiki á að drekka vatn eða mjólk og hreyfing væri stunduð í að minnsta kosti klukkustund á dag. Það er einnig mikilvægt að halda áfram með þá góðu fræðslu sem verið hefur um mikilvægi hollra matarvenja en þar hafa til dæmis þættirnir um Latabæ haft ómæld áhrif.

Ég tel ókeypis ávexti og grænmeti í skólum fela í sér gríðarlega fjárfestingu til framtíðar og slíkt muni auka heilsu þjóðarinnar og draga úr kostnaði við sjúkdóma tengda slæmu matarræði í heilbrigðiskerfinu. Margir aðilar hafa bent á að skólinn sé kjörinn vettvangur til að bæta matarvenjur þjóðarinnar. Til þess að hafa langvarandi áhrif á heilsuvenjur er best að vinna með börnin og hafa bein áhrif á venjur þeirra og viðhorf. Þannig gæti slíkt haft áhrif í þá veru að grænmeti, ávextir, vatnsneysla og dagleg hreyfing yrði hluti af lífstíl þeirra til allrar framtíðar. Þetta markmið gæti verið unnið í nánu samstarfi við viðeigandi stofnanir þjóðfélagsins eins og Lýðheilsustöð og í samstarfi við íslenska grænmetisbændur.

Fjárfestum í því dýrmætasta í þjóðfélaginu okkar sem eru börnin, þau eru framtíðin og byggjum upp heilbrigða einstaklinga með ókeypis ávöxtum og grænmeti í skólanum!

(Kristbjörg Þórisdóttir, 2008).

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur