Laugardagur 01.03.2014 - 22:46 - FB ummæli ()

Þroskasaga lýðræðis

Í brunagaddi veturinn 2009 stóðu þúsundir Íslendinga og börðu í potta og pönnur. Hvers vegna? Vegna þess að það var eina vopnið sem þau höfðu til þess að ná eyrum kjörinna fulltrúa og hafa áhrif. Fólkið var valdalaust á milli kosninga. Margir kjörnir fulltrúar sögðu eitt en gerðu annað og héngu eins og hundar á roði á því valdi sem þeim hafði verið treyst fyrir. Þau töldu sig oft vita betur en þjóðin sem veitti þeim valdið. Afleiðingin varð hrun. Hrun á margvíslegan hátt. Meðal annars á því trausti sem almenningur ber til Alþingis Íslendinga, stjórnmálamanna og ýmissa stofnana. Traust snýst um það að segja það sem maður gerir og gera það sem maður segir.

Í kjölfarið kviknaði mikill umbótavilji og hvítvoðungur lýðræðislegra samfélags fæddist með von um betri tíð og væntingar að á Íslandi gætu allir haft það gott. Endurskoða átti stjórnarskrána og stjórnskipunina og finna leiðir til þess að tryggja það að aldrei aftur þyrfti fólk að hópast fyrir utan Alþingi og kalla eftir sjálfsögðum rétti sínum. Færa átti fólki önnur verkfæri beins lýðræðis og gagnsæis.

Umbótaviljinn hefur víða ratað og meðal annars í stjórnarsáttamála sitjandi ríkisstjórnar:

Unnið verður áfram að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins með breiða samstöðu og fagmennsku að leiðarljósi. Lögð verður áhersla á ákvæði um þjóðareign á auðlindum og um þjóðaratkvæðagreiðslur um lög Alþingis að frumkvæði verulegs hluta kjósenda. Í samræmi við núverandi stjórnskipun mun endurskoðun stjórnarskrárinnar fara fram undir umsjón og á ábyrgð Alþingis sem hafa mun vinnu undanfarinna ára til hliðsjónar. Áhersla verður lögð á gagnsæi og upplýsta umræðu með þátttöku almennings…

Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi hvítvoðungur hefur verið að þroskast síðastliðin 6 ár og þjóðin virðist vera að vakna til lýðræðis. Nýleg mál eins og Icesave og flugvallarmálið bera þess merki að fólk vill segja skoðun sína í stórmálum í stað þess að láta kjörna fulltrúa um það. Sagan hefur líka kennt okkur að þegar málin eru afgreidd með þeim hætti þá myndast meiri sátt um niðurstöðuna og vönduð niðurstaða fæst í erfið mál.

Enn á ný stendur ríkisstjórn Íslands og þingheimur allur frammi fyrir flókinni áskorun. Ætlar hún að skella skollaeyrum við ósk hins lýðræðislega hvítvoðungs sem kallar eftir þeirri sjálfsögðu aðkomu að fá að ákveða sjálf hvað eigi að gera varðandi ESB viðræður eða ætlar hún að hlusta og næra þannig hið unga lýðræðissamfélag í átt að meiri þroska og auka traust á sjálfri sér og stjórnmálunum almennt?

Niðurstaðan mun að mínu mati ekki bara hafa áhrif á ESB málið heldur líka marka þroskasögu hins unga hvítvoðungs betra og lýðræðislegra samfélags.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur