Þriðjudagur 03.06.2014 - 20:55 - FB ummæli ()

Ísland fyrir alla

Það hefur varla farið framhjá neinum að mikil umræða hefur skapast undanfarið um byggingu mosku, staðsetningu hennar og stöðu minnihlutahópa í okkar samfélagi. Það er margt í þessu sem hefur vakið mig til umhugsunar.

Ég tel að almennt séu Íslendingar frekar frjálslynd og umburðarlynd þjóð. Hins vegar má líklega í öllum samfélögum finna öfgahópa. Því miður hefur aðeins borið á þeim í umræðum síðastliðinna daga á báða bóga.

Mín skoðun á málinu er sú að við eigum að bjóða þá sem hingað koma velkomna innan þess ramma sem við mögulega getum annað þannig að fólk fái þann stuðning sem nauðsynlegur er. Við þurfum að hafa í huga hvernig við myndum vilja að tekið yrði á móti okkur yrðum við skyndilega landlaus. Vilji ákveðið samfélagsbrot byggja mosku tel ég það í góðu lagi og krydda okkar fjölbreytilega samfélag. Ég hef þó ekki alveg myndað mér skoðun á hvort endurskoða ætti lögin um að trúfélögum séu gefnar lóðir og það á auðvitað við um öll trúfélög. Ég skil líka alveg sjónarmiðið að slík bygging þarf að falla að því sem fyrir er þar sem hún er byggð. Hins vegar er ég hugsi yfir nánari útfærsluatriðum varðandi það hvernig við byggjum gott fjölmenningarsamfélag. Mögulega getum við staðið okkur betur þar. Hér á landi höfum við byggt upp ákveðinn samfélagssáttmála, stjórnarskrána okkar ásamt þeim lögum sem eru umgjörð samfélags okkar.

Þegar nýjir Íslendingar setjast hér að sem hafa annan bakgrunn en flestir hafa þeir einstaklingar oft annan menningararf og sína trú. Mér þykir mjög eðlilegt að fólk vilji heiðra þann arf og rækta eins og ég myndi sjálf gera flytti ég erlendis og þeir sem búið hafa erlendis eins og ég þekkja vel. Undir stóra samfélaginu eru ótal samfélagsbrot. Hvað gerum við þegar einhverjir í samfélagsbroti framkvæma hluti sem ríma ekki við stóra samfélagið eins og að grýta konur til dauða? Jú, þá hljóta þau lög sem við öll föllum undir að gilda til að taka á því. Tölfræðilega séð tel ég þó afar ólíklegt að slíkt myndi gerast hér. Stóra spurningin í mínum huga eru þó mörkin þarna á milli. Margir aðrir hafa reynt að svara þessari spurningu sbr. til dæmis miklar deilur um það hvort konur megi hylja sig eður ei. Ég er t.d. ekki fullviss um að stætt sé á því að banna konum að hylja sig sé það þeirra val.

Einnig vakna ýmsar spurningar um aðlögun. Jafnframt því sem eðlilegt og hollt er að fólk vilji halda í sinn bakgrunn er knýjandi þörf fyrir að aðlagast nýja samfélaginu til þess að geta verið virkir þátttakendur í því. Hversu lengi er t.d. eðlilegt að fólk fái túlkaþjónustu? Hversu mikla kröfu á að gera á fólk að læra íslensku? Samhliða því er ákaflega mikilvægt að foreldrar tali sitt móðurmál við börn sín þannig að uppruna tungumálið glatist ekki.

Ég tel að við getum á vissan hátt fagnað því að þessi umræða hafi farið af stað þó hún hafi eins og ég sé þetta slysast fram. Hún gefur okkur tækifæri til þess að ræða þessi mál og þróa samfélag okkar áfram, vonandi til betri vegar. Það er ekki gott að taka svona umræðu þrungna af tilfinningahita eða viðhorfum. Það þarf að kalla til sérfræðinga, afla gagna og taka hana með rökhyggju og skynsemi að leiðarljósi. Þannig gagnast umræðan öllum.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur