Fimmtudagur 07.08.2014 - 00:46 - FB ummæli ()

Hinn þögli meirihluti

Martin Luther King, Jr.

Þessi ummæli vöktu mig til umhugsunar um hinn þögla meirihluta. Hinn þögli meirihluti hefur að mínu mati mun meiri völd en við áttum okkur á. Hver er hinn þögli meirihluti? Það er fólkið sem situr á sér, bítur í varirnar, fólkið sem horfir á, gott fólk sem gerir ekki neitt þrátt fyrir að vita kannski innst inni að það ætti að bregðast við í hinum ýmsu aðstæðum í samfélaginu og heiminum sem ekki eru í lagi.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta skuli vera svona. Ein skýring sem ég get komið með er að þarna sé á ferðinni svipað fyrirbæri og það sem kallað er í félagssálfræðinni ábyrgðarþynning (diffusion of responsibility) og ég fjallaði um í öðru samhengi hér. Það snýst um það að manneskja er ólíklegri til að taka ábyrgð þegar fleiri eru til staðar en þegar hún er ein. Hún gerir ráð fyrir að aðrir bregðist við og reynir að lesa í aðra í kringum sig hvort og hvernig eigi að bregðast við. Fleiri skýringar eru líklegar eins og að það geti verið óþægilegt að stíga fram og mótmæla sérstaklega þegar þeim sem er mótmælt eru valdamiklir einstaklingar eða mótmælin geta haft persónulegar afleiðingar fyrir þann sem viðhefur þau. Þá sé betra að sitja á sér, segja ekki neitt þrátt fyrir að vera með óbragð í munni. Það getur dregið úr fólki að sjá slæmar afleiðingar þeirra sem þorðu. Í því samhengi er mikilvægt að muna að það er ávallt fólkið og fjöldinn sem hefur hin raunverulegu völd. Ekki örfáir útvaldir. Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé eðlilegt að gera ráð fyrir því að aðrir sjái um að breyta því sem þér finnst í ólagi á meðan þú situr þögull/þögul? Þarf ekki hver og einn að vera sú breyting sem hann/hún vill sjá til að heimurinn breytist?

Slæmu fréttirnar eru þær að mínu mati að því færri sem standa upp og mótmæla einhverju sem ekki er í lagi, því meiri líkur eru á því að vondir hlutir viðhafist, vaxi og verði jafnvel á endanum óviðráðanlegir. Benda má á það að helförin hófst með örfáum einstaklingum og öðrum sem tóku ekki afstöðu. Við sjáum einnig skelfileg dæmi á hverjum degi m.a. af Gaza á þessu augnabliki um hvernig voðaverk hefjast og viðgangast. Flest þekkjum við þetta einnig að e-u leyti í okkar eigin lífi. Tökum einelti sem dæmi. Þar er yfirleitt einn eða örfáir gerendur sem ráðast á þolandann, svo eru það þeir sem hjálpa til við ofbeldið, hinir þöglu áhorfendur og svo þeir sem reyna að stíga inn og vernda þolandann. Því fleiri sem geta stigið inn og því fyrr, því minni líkur á því að þolandinn sitji uppi með djúp svöðusár á sálinni til framtíðar.

Spurningin sem ég velti fyrir mér er þessi: Hvernig getum við fjölgað þeim sem eru tilbúnir að stíga fram, segja hug sinn þegar eitthvað er ekki í lagi og draga þannig úr vægi þess vonda? Hvernig getum við fækkað í þögla meirihlutanum? Ég tel að þetta eigi víða við. Ekki síst í stjórnmálum.

eineltishringurinn

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur