Föstudagur 08.08.2014 - 23:56 - FB ummæli ()

Vonarstræti

Ég sá kvikmyndina Vonarstræti í annað skipti í kvöld. Þvílíkt meistarastykki. Söguþráðurinn er svo margslunginn og svo er hún ákaflega vel leikin.

Það sem vakti mig til umhugsunar er að hvert og eitt okkar á sér sögu. Sögu vonar, vonleysis, ótta, hörmunga, gleði, öryggis, óöryggis, vonsku, velvildar, farsældar, vanmáttar og svona gæti ég lengi haldið áfram. Sögu sem er skrifuð hvern einasta dag. Enginn þekkir þína sögu nema þú. Sagan skýrir meðvitað og ómeðvitað margt af því sem við hugsum, gerum og finnum fyrir. Saga annarra skýrir margt sem við skiljum ekki. Íhugaðu það næst þegar þú sérð einhvern sem ber áberandi ör utan á sér og lítur út fyrir að hafa farið halloka í lífinu að þú veist í raun ekkert hvað viðkomandi hefur gengið í gegnum.

Það sem myndin sýnir líka er hvernig ytra sögusvið er ekki alltaf í takt við það sem er raunverulega í gangi. Maðurinn sem lítur út fyrir að vera sá varasami er kannski sá ljúfasti en sá sem er silkihúðaður „success“ er kannski sá ömurlegasti. Eftirsóknarverða lífið er kannski ekkert nema gerviveröld þegar betur að er gáð.

Einhvern tímann las ég að lífið væri smásaga svo best væri að reyna að gera hana góða (life is a short story so you better make it a good one). Við eigum öll okkar sögu og okkar vonarstræti. Sumt hefur verið hræðilegt, annað dásamlegt. Það er í okkar valdi að reyna að skrifa sem bestan kafla á hverjum degi. Við ráðum ekki öllu um hvað lendir á okkar blaðsíðum en við ráðum því hvernig við vinnum úr því. Sumt mun særa okkur svo djúpum sárum að ekki er hægt að græða þau. Aldrei. En, við getum lært að lifa með þeim og horfa á það ósærða sem við eigum og vera þakklát fyrir það að fá að vakna hvern dag og upplifa eitthvað nýtt. Erfiðu kaflarnir eru líka þeir sem kenna okkur mest. Aðrir eiga líka sína sögu. Okkar hlutverk er að reyna að skilja og hvetja þá til að skrifa sem besta sögu fyrir sig. Til dæmis að leyfa fólki að vera nákvæmlega eins og það vill. Það hvernig fólk lifir sínu lífi á sér skýringar. Það stóð hvergi að allir ættu að vera rauðhærðir eða allir ættu að vera gagnkynhneigðir. Enginn vonaðist eftir því að verða útigangsmaður en öllum langar að finna hamingjuna.

Ég ætla að fara í Gleðigönguna á morgun. Ég hvet þig lesandi góður til þess að skella þér líka, fagna litríkum margbreytileikanum og því að hver og einn fái að vera eins og hann er og skrifa sem besta sögu á sínu vonarstræti.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur