Sunnudagur 28.06.2015 - 21:37 - FB ummæli ()

Vigdís

vigdis-finnbogadottir

 

Í dag eru 35 ár frá því að íslenska þjóðin tók þá kjarkmiklu og afdrifaríku ákvörðun að kjósa konu sem forseta landsins, fyrst allra þjóða. Frú Vigdís Finnbogadóttir hefur markað svo djúp spor að því verður ekki lýst í stuttri bloggfærslu. Vigdís hefur haft mikil áhrif á mig og hún er ein af þeim Íslendingum sem ég held allra mest upp á.

Ég var svo lánsöm að hitta frú Vigdísi í afmælisveislu forsætisráðherra í vor. Það var svo sannarlega einn af hápunktum veislunnar að ræða við hana í stutta stund. Mín upplifun af Vigdísi var sú að hún hefði svipaða nærveru og Dalai Lama en ég hlustaði á hann þegar hann kom til landsins 2009.  Bæði eru þau manneskjur sem eru það stórar að þau koma fram við alla af sömu alúð og virðingu. Þau reyna ekki að vera eitt eða neitt, þau bara eru. Eiginleiki sem marga skortir. Af þeim báðum geislar ólýsanleg orka góðvildar, kærleika og visku.

Það verður aldrei önnur Vigdís forseti Íslands. Helst myndi ég vilja að við gætum kosið hana bara aftur. Vonandi auðnast okkur að kjósa konu sem er í líkingu við Vigdísi. Það væri mikið heillaskref.

Ég vona líka að við getum öll reynt að finna Vigdísi í okkur. Ég hef trú á því að ef við gerum það þá muni okkur farnast betur sem þjóð. Ef við finnum hjá okkur gildi Vigdísar þá munum við græða í stað þess að „græða“, horfa til þess sem sameinar okkur í stað þess sem sundrar, reyna alltaf að læra, stefna á fullkomið jafnrétti, auðga líf okkar með menningu og listum og varðveita það sem skiptir okkur mestu máli sem er land okkar, tungumál, menning og þjóð.

Til hamingju með daginn frú Vígdís Finnbogadóttir og til hamingju með daginn Íslendingar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur