Föstudagur 24.07.2015 - 22:43 - FB ummæli ()

Skömminni skilað

Ef enginn myndi nauðga þá myndi enginn þola. Allt of lengi hefur sjónarhornið í kynferðisbrotamálum beinst að þolandanum. Í samfélaginu hefur líka endurspeglast slík umræða. Var hún ekki bara of full? Af hverju var hún að klæða sig svona? Hvað hélt hún að myndi gerast? Þekkt er að þolandinn leiti einnig fyrst skýringa hjá sér. Hvað gerði ég rangt? Gaf ég eitthvað til kynna? Af hverju fór ég heim með honum/henni? Af hverju fór ég þangað? Ef ég hefði… og svo framvegis…

Við vinkona mín ræddum þessi mál í dag þar sem hún komst vel að orði. Ef brotist væri inn í skartgripabúð þá myndi sennilega fáum detta í hug að leita skýringa hjá búðareigandanum. Af hverju var hann með svona glitrandi útstillingar? Af hverju var hún með svona stóran glugga? Hvað hélt búðareigandinn eiginlega að myndi gerast með svona flott dót í glugganum eða allar þessar auglýsingar? Nei, þá leikur enginn vafi á því hver ber ábyrgð á glæpnum. Ábyrgðin og skömmin er innbrotsþjófsins.

Að nauðga annarri manneskju er einn skelfilegasti glæpur sem hægt er að fremja. Það er eins og innbrot í líkama og sálarlíf þolandans sem mun aldrei gleyma. Atburður sem skilur eftir sig flókin einkenni í fyrstu og sára minningu til lengri tíma. Sem betur fer erum við flest vel búin til að fást við áföll og erfiða lífsreynslu og flestir jafna sig smám saman á þeim miklu streitueinkennum sem koma í kjölfar meiriháttar áfalls. Það er alltaf ákveðinn hópur sem gerir það ekki nema með sérhæfðri meðferð.  Rannsóknir sýna að nauðgun er líklegri en önnur áföll til að leiða til áfallastreituröskunar og greinast 30-50% þeirra sem verða fyrir kynferðisbroti með PTSD.

Flest þekkjum við sennilega til fólks sem hefur verið nauðgað. Sumum sem börnum og sumum sem fullorðnum. Sumum oftar en einu sinni. Einhverjir sem lesa þetta munu því miður hafa upplifað þessa ömurlegu lífsreynslu sjálf og enginn atburður er eins. Við vitum líka hversu mikið slíkt brot tekur frá manneskju og hve mikilvægt er að hún fái strax alla þá aðstoð sem hægt er að veita til að jafna sig og byggja sig upp að nýju.

Það verður aldrei endurtekið nógu oft að skömminni á að skila. Hún á ekki heima hjá þér kæri þolandi. Þú gerðir ekkert rangt. Þú berð ekki ábyrgð á afbrotum annarra. Sá sem nauðgar og brýtur á annarri manneskju á að svara til saka fyrir það, rétt eins og innbrotsþjófurinn sem brýst inn í skartgripabúð. Það eina sem þú berð ábyrgð á er að taka stjórnina í þína hendur, leita réttar þíns og láta slíkan atburð ekki skilgreina þig heldur gera þig að sterkari manneskju.

Mætum öll í druslugönguna á morgun. Tökum á kynferðisbrotum, skilum skömminni og rjúfum þögnina. #drusluákall

 

 

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur