Föstudagur 12.02.2016 - 19:55 - FB ummæli ()

Stóra pítsumálið í borginni

Fréttir berast nú af því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi fundað með skólastjórnendum Fellaskóla vegna pítsumálsins svokallaða. Dagur hefur verið með miklar yfirlýsingar um þetta mál, m.a. um að það hafi komið honum tilfinningalega úr jafnvægi. 

Er þetta virkilega það sem borgarstjóri hefur mestar áhyggjur af í skólamálum borgarinnar?

Hvað með sívaxandi kvíða og depurð meðal barna sem flest fá ekki viðeigandi meðferð samkvæmt leiðbeiningum um bestu mögulegu meðferð?

Hvað með stöðu barnaverndar í borginni þar sem of oft næst ekki að sinna málunum fyrr en í algjört óefni er komið?

Hvað með margra ára biðlista eftir greiningu til að kortleggja vanda barnanna sem er aðgangsmiði sömu barna að snemmtækri íhlutun eins og sérkennslu sem í sumum tilfellum er veitt mörgum árum of seint?

Hvað með þá staðreynd að borgarstjórnin hans hefur ákveðið að skera gríðarlega mikið niður í skólamálum:

Sérkennsla í leikskólum verði skorin um 80 milljónir á þessu ári en 100 milljónir á því næsta. Niðurskurður á skóla- og frístundasviði verði 670 á þessu ári en 955 milljónir árið 2017.

Það er vissulega gott að borgarstjóri hafi áhyggjur af mismunun og gott hjá honum að bregðast við því. Persónulega hef ég þó mun meiri áhyggjur af ofangreindu ásamt fyrirhuguðum niðurskurði sem mun væntanlega hafa afar slæm áhrif á mismunun sem nú þegar á sér stað og hefur ekki verið leiðrétt. Það hefur meðal annars verið rætt á vettvangi borgarstjórnar og víðar að börn í Breiðholti þurfa að bíða margfalt lengur eftir greiningu en í Vesturbænum. Það er mjög alvarleg mismunun sem Dagur þarf að leiðrétta.

Ef Dagur hefur svona mikinn áhuga á skólamálum borgarinnar þá stendur hann upp í klof á óplægðum akri af verkefnum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur