Miðvikudagur 24.02.2016 - 16:10 - FB ummæli ()

Góðsemi og frönsk súkkulaðikaka

Frönsk súkkulaðikaka Í dag fékk ég heitan og ljúffengan glaðning. Nágrannakona mín hún Sara bankaði upp á með heita franska súkkulaðiköku. Tilefnið var að létta mér, manninum mínum og litla bumbubúanum aðeins lífið þar sem við höfum eins og margir landsmenn verið að glíma við óvæginn flensuskratta undanfarnar vikur ofan í aðra erfiða hluti. Lífið er víst þannig hjá okkur flestum að það skiptist á milli dásamlegra tímabila, erfiðra tímabila og svo allra þessara stunda á milli. Ætli flestum sé ekki tamara að tala um og deila góðu stundunum frekar en þeim erfiðu. Það eru ekki erfiðleikarnir eða flensan sem vakti hjá mér löngun að skrifa þennan pistil heldur góðsemi og viðbrögð fólksins í kringum mig.

Góðsemin hefur verið alltumlykjandi og frönsk heit súkkulaðikaka beint úr ofninum gæti varla komist nær því að tákna hana. Ég hef líka fengið fallegar kveðjur og símtöl frá góðum vinkonum og hef ekki einu sinni náð að hringja tilbaka í þá sem hafa hringt. Í sínu daglega amstri þá lætur fólk sig mann varða. Það skiptir máli. Vinsemd við náungann í erfiðleikum eða veikindum er aldrei sjálfsögð en hún er í raun svo mikil undirstaða góðs samfélags og góðs lífs. Að kvöldi er hún kannski það sem skipti einna mestu máli og skilur mest eftir sig.

Ég hef stundum hugsað það þegar ég fæ svona áminningar hvað við getum hvert og eitt gert samfélagið og heiminn svo miklu betri með því að hafa fókusinn okkar stilltan á góðsemi og góðverk. Ef allir gera eitthvað fallegt á hverjum degi þá verður heimurinn svo miklu betri fyrir okkur öll. Stundum er talað um hugtakið „pay it forward“ sem snýst um að gera eitthvað fyrir náungann eins og að skella fimmtíukalli í stöðumæli sem er að renna út hjá bílnum við hliðina á eða að rúlla innkaupakerru náungans upp að búðinni. Þessi góðmennska er svo talin skila sér til þín sjálfrar/sjálfs þegar stöðumælirinn rennur út á þínum bíl og þú ert hvergi nærri þá setur kannski einhver annar í fyrir þig. Þetta er kannski aðeins í anda karma og búddisma sem mér þykir mjög heillandi. Ég held samt að það séu fæstir sem ætlist til þess að góðsemin skili sér beint tilbaka en vonandi gerir hún það með einum eða öðrum hætti.

Mikið hlakka ég til að geta glatt einhvern og stutt með sama hætti og ég hef notið undanfarið. Ég hvet þig kæri lesandi til að velta því fyrir þér hver þarf á þinni góðsemi að halda eða hver hefur sýnt þér góðsemi undanfarið.

Takk fyrir mig.

Flokkar: Lífið og tilveran

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur