Mánudagur 04.04.2016 - 10:35 - FB ummæli ()

Velferð þjóðar í stormi

Enn eina ferðina gefur á bátinn og stormur gengur yfir íslenska þjóð. Smám saman hefur verið að bæta í vindinn og kannski má segja að fárviðri hafi skollið á í kjölfar Kastljóss þáttar í gærkvöldi þegar fjallað var um leynigögn sem ljóstrað hefur verið upp samtímis í mörgum löndum.

Í mínum huga er þetta mál ekki svart eða hvítt eða fólkið sem þar er fjallað um algott eða alslæmt. Ég held að mikilvægt sé að anda rólega í stað þess að ýta undir múgæsing.

Mínar áhyggjur snúa að velferð þjóðarinnar. Að mínu mati fóru ýmsir illa út úr síðasta fárviðri sem geisaði í kringum hrunið. Margir urðu helteknir af því og týndu sjálfum sér í reiði, biturð, þunglyndi og fleiri neikvæðum tilfinningum. Fólk fann farveg fyrir það neikvæða í lífi sínu og samfélaginu og festist í honum. Sumir eru jafnvel enn að jafna sig. Þess vegna þykir mér það áhyggjuefni og miður þegar nú skellur á nýr stormur á sama tíma og sárin voru við það að gróa og sólin farin að skína að nýju.

Það er skiljanlegt að við tökum nærri okkur þegar réttlætiskennd okkar er ógnað, þegar fólk upplifir óheiðarleika, svik og að ákveðnir aðilar hafi leikið tveimur skjöldum. Vissulega þarf að taka þá umræðu og komast í gegnum hana með farsælum og málefnalegum hætti og þeir sem þurfa að axla ábyrgð á mistökum þurfa að gera það. En pössum okkur á heygöfflunum og galdrabrennum. Þær munu ekki koma okkur áfram sem samfélagi. Munum líka að margir þeirra sem spjótin beinast nú að, þar meðtalinn hæstvirtur forsætisráðherra hefur einnig skilað góðu verki og barist af miklum móð fyrir hagsæld þjóðarinnar. Baráttu sem aðrir þorðu ekki að taka fyrir þjóð sína. Margir þeirra sem nú hrópa hæst eru heldur ekki hvítþvegnir með hreinan skjöld.

Höldum rónni, leyfum ekki neikvæðninni að skapa okkur rörsýn og reynum að standa saman um betra samfélag. Það mun í lok dags lægja storminn og þá er mikilvægt að við stöndum keik áfram og hlúum að okkur sjálfum og samfélaginu í heild sinni.

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur