Sunnudagur 08.10.2017 - 13:21 - FB ummæli ()

Traust og stöðugleiki

Við erum forréttindaþjóð. Við erum tæplega 340.000 og búum í stóru og gjöfulu landi. Hér eiga allir að geta blómstrað á sínum forsendum og átt góða ævi. Til þess þurfa stjórnmálamenn að geta skapað rétta umgjörð um samfélagið. Grunnstoðir þurfa að vera tryggar, fólk þarf að hafa frelsi til athafna og stuðning þegar á þarf að halda.

Stjórnarskrá okkar er samfélagssáttmáli sem þarf að skapa réttan ramma um hvernig við viljum haga málum okkar. Hávært ákall hefur verið um breytingu á stjórnarskránni til þess að mæta þörf á umbótum í stjórnarfari landsins. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur lagt á það áherslu að mikilvægt sé að endurskoða stjórnarskrána og ekki síst ákvæði um völd forseta Íslands. Þessu er framsóknarfólk sammála og hefur meðal annars ályktað um að tryggja þurfi í kosningum að forseti hafi skýrt umboð frá meirihluta þjóðarinnar. Flokkurinn hefur að auki ályktað um að hann sé hlynntur endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og mikilvægt sé að horfa til breytinga sem lúta að nýju auðlindaákvæði, skýrum ákvæðum um beint lýðræði þar sem vægi þess er aukið meðal annars með lögfestingu reglna um þjóðarfrumkvæði. Jafnframt ályktaði flokkurinn um að ekki verði opnað á framsal fullveldis. Einnig hefur flokkurinn ályktað um að hann sé hlynntur persónukjöri. Það er mikilvægt að halda áfram þessari vinnu á næsta kjörtímabili enda er stjórnarskráin undirstaða alls annars. Hér þarf að vanda vel til verka.

Í ljósi þess óstöðugleika sem hefur ríkt er skiljanlegt að fólk upplifi þreytu og skortur sé á trausti. Við getum gert betur. Við getum skapað traust stjórnarfar þar sem stöðugleiki ríkir. Við höfum þekkingu og kjark til þess að koma mikilvægum hlutum í framkvæmd.

Eitt af því sem hefur valdið vandræðum undanfarin misseri eru mál vegna einstaklinga sem telja sig vel til þess fallna að vera í forystu fyrir íslenskt samfélag en eru ekki tilbúnir til þess að deila samfélaginu með okkur hinum. Þeir velja það til dæmis að geyma sitt fé í skattaskjólum erlendis. Til þess að traust og stöðugleiki skapist er mikilvægt að fólk veljist til forystu sem er tilbúið til þess að deila samfélaginu með þeim sem þeir ætla að starfa fyrir. Þannig verður uppskera samfélagsins rík en ekki einungis uppskera einstaklingsins.

Við þurfum gott fólk inn á þing. Fólk sem er tilbúið til þess að berjast fyrir hagsmunum heildarinnar. Fólk sem er tilbúið til þess að skapa þann ramma sem þarf til þess að allir hér geti notið sín á sínum forsendum, hafi frelsi til framkvæmda og geti reitt sig á samfélagið þegar á þarf að halda.

Framsókn á yfir að skipa slíkum einstaklingum. Ég er ein af þeim tólf þúsund manns sem vil bæta samfélagið undir merkjum Framsóknarflokksins.

Ég skipa annað sætið á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og bið um þinn stuðning í komandi kosningum þann 28. október næstkomandi.

X-B

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur