Miðvikudagur 11.10.2017 - 22:43 - FB ummæli ()

Litla stórmálið sem felldi ríkisstjórnina

Fyrir nokkrum árum hefði mál sem snýr að kynferðisofbeldi og þöggun þess líklega ekki fellt ríkisstjórn. Í dag er það raunin og þess vegna erum við að fara að kjósa 28. október n.k. Þolendur og aðstandendur þeirra hafa stigið fram og gert byltingu. Við erum ekki ein um þetta og núna skekur kynferðisofbeldismál Hollywood þar sem hver stjarnan á fætur annarri stígur fram vegna kynferðisbrots þekkts og valdamikils kvikmyndaframleiðanda. Viðhorf hafa breyst og skömminni er skilað til geranda. Þöggunin þrífst ekki eins vel lengur. Kynferðisbrotamál eru alltaf stórmál. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Oft getur þolandi ekki varið sig

Í hundruðir ára hefur verið brotið kynferðislega á börnum og fullorðnum. Ein grimmilegasta árás sem hægt er að gera á aðra manneskju er að brjóta á henni kynferðislega. Árás sem er þess eðlis að oft getur þolandi ekki varið sig. Til þess að forða verri andlegum eða líkamlegum skaða bregst líkaminn við með því að frjósa. Þolandi sem frýs þegar brotið er á honum/henni getur því hvorki barist við ógnina né flúið hana. Afleiðingar kynferðisofbeldis eru gríðarlegar fyrir þolanda, ástvini viðkomandi og samfélagið allt. Því miður er allt of algengt að fólk geti ekki sagt frá, burðist með skömmina, reyni óhjálplegar leiðir eins og til dæmis neyslu vímuefna til að takast á við afleiðingarnar, missi fótanna í skóla eða á vinnumarkaði og einstaka aðilar svipta sig lífi. Sem betur fer jafna sumir sig á eðlilegan hátt eftir slík áföll en þeir sem ekki gera það geta fengið viðeigandi meðferð og náð að blómstra að nýju. Það er okkar stjórnmálamanna að tryggja það.

Stöndum með þolendum

Við höfum búið í samfélagi sem hefur of oft hlíft þeim sem beita kynferðisofbeldi. Skömmin hefur legið hjá þolandanum meðal annars með athugasemdum eins og „bauð hún ekki bara upp á þetta?“ Ábyrgðin á árásinni hefur legið hjá þolanda en ekki geranda. Þolendur hafa þurft að bíða allt of lengi eftir að mál þeirra fái rétta úrvinnslu í dómskerfinu. Ofan á allt þá höfum við verið með kerfi þar sem dæmdir ofbeldismenn hafa getað sótt um uppreista æru og fengið valinkunna menn til þess að mæla með sér. Jafnvel þó þeir sýni engin merki um að taka ábyrgð á gjörðum sínum eða iðrun. Þessu þarf að breyta. Kynferðisofbeldismál þurfa að fá hraða úrlausn dómstóla og við eigum alltaf að standa með þolandanum.

Stígum fram, upprætum þöggun, höfnum kynferðisofbeldi og stöndum alltaf með þolendum kynferðisbrota.

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi

X-B

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur