Laugardagur 14.10.2017 - 20:46 - FB ummæli ()

Kjóstu með geðheilbrigði

Góð geðheilsa er gulli betri. Geðrænn vandi er algengur en oft falinn vandi í samfélaginu. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur fólks þjáist af geðröskun á ári hverju, helmingur einhvern tímann á ævinni og einn af hverjum þremur sem kemur á heilsugæsluna kemur vegna geðræns vanda. Því er spáð að þunglyndi verði helsta ástæða örorku 2030. Tæplega fjórðungur þeirra sem eru á örorku eru það vegna geðraskana. Ungum karlmönnum á örorku hefur fjölgað síðustu ár og sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karlmanna 18-24 ára hér á landi. Ógreindur og ómeðhöndlaður geðrænn vandi veldur alvarlegum afleiðingum fyrir þann sem þjáist, fjölskyldu viðkomandi og samfélagið allt. Lífsgæði glatast, skerðing verður á vinnuframleiðni, aukin þörf á þjónustu félags- og heilbrigðisþjónustu og tap vegna glataðra tekna og hærri útgjalda úr almannatryggingakerfinu. Í dag er aðgengi að bestu mögulegu meðferð allt of takmarkað og þjónustan sem fólk fær er of lítil, of langt í burtu og kemur of seint.

Við viljum umbætur í geðheilbrigðiskerfinu. Við ætlum að efla forvarnir og auka aðgengi að bestu mögulegu meðferð sem er hugræn atferlismeðferð samkvæmt leiðbeiningum. Við viljum endurskipulagningu á geðheilbrigðiskerfinu þar sem fólk getur fengið viðeigandi meðferð og þjónustu vegna geðræns vanda í nærumhverfi sínu um allt land hvort sem er í heilsugæslunni, skólum, öldrunarheimilum, hjá félagsþjónustu, sjálfstætt starfandi fagaðilum eða á sjúkrahúsum. Því fyrr sem vandi greinist og því fyrr sem fólk fær viðeigandi aðstoð því minni þjónustu þarf. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum og vinna þarf gegn ofbeldi og þöggun þess.

Ég get lofað því að þessi mál eru mitt hjartans mál. Ég hef barist fyrir bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu og umbótum á geðheilbrigðiskerfinu um árabil. Ákveðnar aðgerðir til umbóta eru þegar hafnar en betur má ef duga skal. Fjárfesta þarf sérstaklega í geðheilbrigðiskefinu. Sú fjárfesting mun strax skila sér tilbaka. Ég mun leggja áherslu á þessi mál á Alþingi Íslendinga. Til þess að ég geti gert það þarf ég stuðning þinn þann 28. október næstkomandi.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi

(greinin birtist fyrst í Garðapóstinum 12. október 2017).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur