Laugardagur 21.10.2017 - 00:22 - FB ummæli ()

Jafnrétti á Kex hostel

Ég var á fundi í kvöld á Kex hostel um jafnréttismál sem fulltrúi Framsóknar. Fundurinn var bæði góður og skemmtilegur. Í mínum huga snýst jafnrétti um það að taka tillit til þarfa ólíkra einstaklinga í allri stjórnun og stefnumótun og reyna að byggja samfélagið okkar upp þannig að það rúmi allt fólk eins ólíkt og það er.

Jafnrétti er mannréttindamál

Jafnrétti er eitt af grunnstefum samvinnu- og framsóknarstefnunnar. Við nálgumst jafnrétti sem mannréttindamál. Í stefnu okkar kemur fram að það er bannað að mismuna eftir kyni, aldri, fötlun, kynhneigð, kynvitund, trú eða stöðu að öðru leyti. Innan Framsóknar starfar jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi sem vinnur að jafnrétti innan flokksins. Sett er jafnréttisáætlun og allar stofnanir flokksins hvattar til að setja sér starfsáætlun í jafnréttismálum. Markmiðið er að ná jafnri þáttöku félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni, aldri eða öðru í störfum á vegum flokksins. Flokkurinn setur sér það markmið að hlutur karla eða kvenna í trúnaðar- eða ábyrgðarstöðum innan flokksins sé ekki lakari en 40%.

Framsóknarflokkurinn kom á feðraorlofinu

Framsóknarflokkurinn hefur á síðustu 100 árum staðið framarlega í jafnréttismálum. Nefna má nokkur dæmi. Rannveig Þorsteinsdóttir, fyrsta þingkona framsóknarmanna, var fremst í baráttunni fyrir lítilmagnann, fyrir jafnrétti og kvenfrelsi um miðja síðustu öld. Hún braust til mennta á miðjum aldri og varð fyrst kvenna til að öðlast hæstaréttarlögmannsréttindi. Árið 2000 lagði Páll Pétursson þáverandi félagsmálaráðherra fram lagafrumvarp um breytingu á fæðingarorlofi þar sem feðraorlof kom til sögunnar, sbr. lög frá 2000. Feðraorlofið er eitt brýnasta jafnréttismál samtímans.

Áherslur Framsóknar í jafnréttismálum

Mikilvægt er að hafa jafnréttismálin alltaf í forgrunni. Helstu áhersluatriði á komandi misserum eru að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Þar leggjum við meðal annars áherslu á að bæta meðferð ofbeldismála í dómskerfinu og bæta aðgengi á landsvísu að sálfræðimeðferð vegna nýrra og eldri áfalla. Einnig er mikilvægt að jafna hlutfall kynjanna í valdastöðum þar meðtalið innan stjórnmálanna. Ráðast þarf gegn kynbundnum launamun en meðal ananrs þarf að skoða kynjaskiptingu vinnumarkaðarins í því samhengi. Mikilvægt er að stytta vinnuvikuna og lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði.

Breyttur heimur og jafnrétti í sinni víðtækustu mynd

Stuttur pistill getur ekki rúmað öll áhersluatriði í jafnréttismálum. Fleiri atriði eru mjög mikilvæg og má þar nefna til dæmis, lögfesting Notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), vinna vegna manngerðs aðgengis á öllum sviðum (aðgengi að byggingum, aðgengi að vefsíðum og fleira). Einnig þarf að huga að breyttum áherslum í jafnréttismálum þar sem velta má upp hvort í dag gangi upp að hafa aðeins karla og kvennaklósett því hvar á aðili sem skilgreinir sig hvorki sem karl eða kona að pissa? Það sama á við um búningsklefa í sundlaugum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur