Fimmtudagur 19.10.2017 - 00:11 - FB ummæli ()

Konur, áföll og fíkn

Ég sótti góðan fund í kvöld sem fulltrúi Framsóknar um konur, áföll og fíkn. Hann var haldinn á vegum Rótarinnar. Á fundinn mættu fulltrúar allra flokka þar sem gagnleg umræða átti sér stað.

Framsókn gegn ofbeldi

Eygló Harðardóttir fyrrverandi félagsmálaráðherra vann ötullega að þessum málum. Í hennar tíð var unnin framkvæmdaáætlun gegn ofbeldi, opnuð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis (Bjarkarhlíð), ráðið í stöður sálfræðinga á stærstu sjúkrahúsunum til þess að veita áfallamiðaða sálfræðimeðferð, Barnahús var eflt til þess að sinna fötluðum börnum og börnum sem orðið hafa fyrir líkamlegu ofbeldi, settir voru auknir fjármunir í ýmis félagasamtök sem koma að þessum viðkvæmu málum og margt fleira. Þeim sem vinna á sviðinu sem ég hef heyrt í ber saman um að Eygló hafi staðið sig einstaklega vel í þessum málaflokki.

Áherslur Rótarinnar

Samtökin Rótin og talskona þeirra Kristín I. Pálsdóttir hafa unnið hörðum höndum að umbótum. Meðal annars var unnin ítarleg greinargerð um konur og fíkn sem kynnt var heilbrigðisráðherra s.l. sumar. Vinna þessara grasrótarsamtaka er til fyrirmyndar. Þar er meðal annars lögð áhersla á að taka þurfi heildstætt á þessum vanda, veita viðeigandi áfallamiðaða og kynjamiðaða meðferð sem er aðgengileg og sniðin að hverjum og einum. Rannsóknir hafa sýnt að 70-90% þeirra sem þurfa meðferð vegna áfengis- eða vímuefnavanda hafa orðið fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi og 30-50% þjást af áfallastreituröskun. Til þess að ná rót vandans er lykilatriði að veita meðferð við áfallastreituröskun samhliða fíknimeðferð annars er alltaf verið að höggva bara njólann sem sprettur upp við fyrsta tækifæri aftur.

Áherslur Framsóknar

Við tökum undir margt af því góða sem kemur fram í vinnu Rótarinnar. Við leggjum jafnframt áherslu á:

  • Forvarnir og fræðslu sem hefst strax í grunnskóla.
  • Skimun á áföllum og starfsfólk sé þjálfað upp í að spyrja börn um ofbeldi og tilkynna til barnaverndar þegar þarf.
  • Viðeigandi meðferð fyrir gerendur og eflingu sálfræðiþjónustu Fangelsismálastofnunar.
  • Eflingu á áfallamiðaðri sálfræðimeðferð bæði vegna nýrri og eldri áfalla og þjónustan sé aðgengileg í öllum heilbrigðisumdæmum.
  • Eflingu annarra úrræða og niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu.
  • Lögfesta rétt til neyðarathvarfs fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum og mansals í takt við nýleg norsk lög.
  • Huga sérstaklega að ofbeldi gegn fötluðu fólki.

Ég vil vinna að þessum umbótum. Þær eru mjög þarfar og séu þær vel útfærðar mun fjármagnið sem fer í verkefnið skila sér margfalt tilbaka aftur til samfélagsins.

Til þess þarf ég þinn stuðning.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur