Þriðjudagur 17.10.2017 - 23:47 - FB ummæli ()

Viltu plastpoka? Nei, takk!

Ég var spurð að þessu í verslun í dag og gaf þetta svar. Undanfarið hef ég æ oftar afþakkað plastpoka. Fyrir nokkrum árum hefði mér ekki komið það til hugar. Í dag reyni ég að endurvinna allt plast sem ég get á heimili mínu. Það hefði ég heldur ekki gert fyrir nokkrum árum. Umhverfisvitund mín hefur sem betur fer aukist eins og hjá fólki almennt. Eins og staðan er þá er þetta ekki þörf heldur nauðsyn. Við verðum að bregðast við og gera það strax. Okkur ber skylda til þess að vera ábyrg í umhverfismálum sem íbúar þessarar jarðar. Plast er hættulegt lífríkinu og eyðist seint í náttúrunni eins og Hjálmar Ásbjörnsson kemur svo vel inn á í þessari grein.

Framsókn vill stórminnka notkun plasts og auka endurvinnslu

Fyrir komandi kosningar leggjum við framsóknarfólk áherslu á að stórminnka notkun plasts og aukna endurvinnslu. Við viljum hvetja fólk til að nota umhverfisvænar umbúðir, til dæmis taupoka þegar farið er í matvöruverslanir. Draga þarf úr notkun á öllum plastumbúðum, plastpokum, einnota plástáhöldum og auka kröfur um endurvinnslu á plasti.

Svissneska leiðin

Svisslendingar eru fyrirmyndarþjóð að mörgu leyti. Þeir hafa komið á fót skynsamlegum lausnum í húsnæðismálum sem við Framsóknarmenn höfum kynnt til að aðstoða ungt fólk við að eignast húsnæði. Þeir eru líka með sniðugar lausnir í umhverfismálum. Þar sem ég þekki til í Sviss virkar kerfið þannig að fólk endurvinnur allt sem er hægt að endurvinna og því er skilað í grenndargáma íbúanum að kostnaðarlausu. Óendurvinnanlegt rusl er eingöngu fjarlægt í ákveðnum sorppokum sem viðkomandi þarf að greiða fyrir. Hvatinn er því réttur í kerfinu, því meira sem þú endurvinnur því færri sorppoka þarftu og því meira sparar þú. Sniðugt, ekki satt?

Við viljum draga úr notkun á plasti og finna nýjar og sniðugar leiðir til að auka endurvinnslu.

Getum við ekki öll verið sammála um það?

Ég vil leiða slíkar breytingar og þess vegna býð ég mig fram í komandi Alþingiskosningum.

X-B

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur