Sunnudagur 23.6.2013 - 22:52 - FB ummæli ()

Veiðileyfagjaldið og frjáls markaður

Talsmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks eru komnir út í algera þvælu í röksemdafærslum sínum þegar þeir reyna að skýra það út fyrir þjóðinni hvers vegna það sé í forgangi að aflétta álögum af þeim sem njóta einokunarforréttinda til þess að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Sömuleiðis er ekki mikill hljómgrunnur fyrir því að aflétt verði sérstaklega sköttum af ríkustu Íslendingunum áður en skuldir heimilanna verða leiðréttar, sem að ríkisstjórnin var einmitt kosin út á.

Örvæntingarfull röksemdafærsla stjórnarinnar gengur m.a. út á að það sé verið að vernda sjávarbyggðirnar og litlu útgerðirnar og ennfremur að verið sé að tryggja hámarks verðmætasköpun í besta fiskveiðistjórnunarkerfi heims.

Öðruvísi mér áður brá!

Hugmyndafræðingar  fjórflokksins  hafa einmitt talið að kostirnir við framseljanlegan kvóta séu samþjöppun útgerða og fækkun útgerðarstaða.  Það ætti að vera öllum ljóst að hnignun sjávarbyggðanna og fækkun útgerða mun halda áfram á meðan núverandi kerfi er við lýði og það alveg burtséð frá því hver upphæð veiðileyfagjaldsins verður.  Að halda því fram að við búum við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi, þar sem verðmætasköpun er hvað mest minnir um margt á aðrar skondnar fullyrðingar um að allt hér á landinu bláa sé það besta og fallegasta  í heiminum s.s. lambakjötið, smjörið, vatnið  og konurnar. Svo þegar menn lenda í einhverjum vandræðum með að rökstyðja það er gripið til þess að benda á að við séum a.m.k. best í heimi miðað við höfðatölu.

Það vill stundum gleymast í umræðunni að veiðileyfagjaldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn óttast að sökkvi útgerðinni, er uppfinning Sjálfstæðisflokksins sjálfs, sem réttlæting fyrir að úthluta þeim sérréttindum til fárra útvalinna að nýta sameiginlega auðlind.

Mín skoðun er sú að umrætt veiðileyfagjald sé vond aðferð til þess að auka verðmætasköpun og afla tekna. Miklu nær væri að  láta allan afla taka verð á opnum fiskmarkaði, þá er ekki verið að taka eitt né neitt af útgerðinni heldur er verið að tryggja henni hæsta verðið hverju sinni. Engin spurning er um að sú leið myndi hækka laun sjómanna og þar með skatttekjur og myndi sömuleiðis leiða af sér hærri hafnargjöld, sem renna til sveitarfélaganna. Með markaðslausn væri verið tryggja að þeir sem gætu gert sem mest verðmæti úr aflanum fengju hann til vinnslu. Það myndi án nokkurs vafa efla verðmætasköpun og opna á nýliðun í þessari mikilvægu undirstöðuatvinnugrein landsmanna og skapa ríkinu mun meiri tekjur heldur en með því að skrúfa upp gjaldtöku.

Aðferðafræðin við að ákvarða veiðigjaldið á lítið skylt við hægri stefnu, ekki frekar en opinber verðlagning á fiski í gegnum Verðlagsstofu skiptaverðs, sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur einnig vörð um.  Það að ætla að setja saman flókinn gagnagrunn um afkomu fyrirtækja, skuldir og verðvísitölur einstakra afurða, sem embættismenn eiga síðan að nota til að ákvarða eitthvert gjald, getur ekki verið ásættanlegt fyrir þá sem eru fylgjandi markaðslausnum.

Besta leiðin er að leyfa útgerðarmönnum sjálfum að ákvarða veiðileyfagjaldið með því að bjóða í veiðiheimildirnar á opnum markaði.  Til að byrja með væri hægt að byrja smátt og láta einhvern hluta veiðiheimilda á uppboð, t.d. aukningu á þorskveiðiheimildum næsta árs. Ríkisstjórnin, sem stendur frammi fyrir því að efna fjölmörg kosningaloforð, hlýtur að skoða allar leiðir til aukinnar verðmætasköpunar, en skjótvirkasta og öruggasta leiðin til þess er að auka fiskveiðar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.6.2013 - 21:50 - FB ummæli ()

Skagfirðingar ríða á vaðið

Allt stefnir í að Sveitarfélagið Skagafjörður ríði á vaðið hvað varðar breytingar á  innheimtuaðgerðum í ljósi loforða ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar heimilanna.   Á fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar í dag lagði ég fram eftirfarandi tillögu:

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að fresta öllum kostnaðarsömum innheimtuaðgerðum.

Ríkisstjórn Íslands hefur boðað stórtækar aðgerðir til lausnar á skuldavanda heimilanna. Það er ljóst að innan skamms koma til framkvæmda fjölmargar aðgerðir sem fela m.a. í sér afnám verðtryggingar og niðurfærslu á verðtryggðum skuldum heimilanna. Sömuleiðis liggur fyrir á sumarþingi tillaga um flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingar við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Á meðan framangreindar aðgerðir til hjálpar illa stöddum fjölskyldum eru handan við hornið er það eina rétta í stöðunni að Sveitarfélagið Skagafjörður fresti innheimtuaðgerðum.

Ekki er ofsagt að sveitarstjórnarfulltrúar Sveitarfélagsins hafi tekið tillögunni fagnandi, en þó heyrðust þær raddir að nauðsynlegt væri að útfæra tillöguna nánar og eðlilegast væri því að vísa henni til Byggðaráðs Skagafjarðar.

Ég, auk fjölmargra annarra Skagfirðinga, vænti þess að Byggðaráð Skagafjarðar muni hrinda tillögunni í framkvæmd fljótt og örugglega. Enginn efi er um að breytingarnar munu vekja von í brjóstum margra Skagfirðinga og styðja við bakið á þeirri ætlan ríkisstjórnarinnar að leiðrétta skuldir heimilanna fljótt og örugglega.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.6.2013 - 22:21 - FB ummæli ()

Brennivín og fiskur

Eitt helsta baráttumál þeirra sem hafa gengið fram undir gunnfána frelsis í viðskiptum á Íslandi, er að auka frelsi með sölu áfengra drykkja í matvöruverlsunum. Þeir sem þykjast vilja ganga hvað lengst vilja brennivínið í matvörubúðir, en hófsemdarmenn í framangreindum hópi vilija takmarka frelsið við bjór og léttvín. Fyrir þessu hafa verið færð margvísleg og ágæt rök. Má þar nefna að minnka þurfi umsvif hins opinbera, vöruúrval fyrir neytendur myndi aukast, aukið hagræði skapast í versluninni og viðskiptavinir þyrftu ekki að gera sérstaka ferð eftir löglegum vímuefnum.

Frelsisfólkið hefur verið mjög upptekið í áfengiskaupamálinu og það svo að ein helst vonarstjarnan í þeim hópi lét gera sérstaka úttekt á úrvali af léttvínstegundum á Selfossi annars vegar og hins vegar í dönskum smábæ.
Mér hefur alltaf þótt merkilegt að liðssafnaður frelsisins hafi ekki gert nokkra athugasemd við það að ríkisstofnunin Verðlagsstofa skiptaverðs skuli gefa út verð á fiski, á sama tíma og bægslast er gegn fyrirkomulagi á sölu áfengis.
Ekkert er eðlilegra en að markaðsverð sé látið gilda við verðmyndun á afla, en það leiddi að jafnaði til hærri launa til sjómanna og hækkaðra tekna hafna. Með einfaldri breytingu og markaðstengingu á afla þá er ekki verið að taka eitt né neitt af útgerðinni heldur er verið að tryggja henni hæsta verðið hverju sinni. Með markaðslausn væri verið tryggja að þeir sem gætu gert sem mest verðmæti úr aflanum fengju hann til vinnslu. Það myndi án nokkurs vafa efla verðmætasköpun og opna á nýliðun í undirstöðuatvinnugrein landsmanna.
Á tímum eins og í dag, þegar þjóðin þarf að búa við gjaldeyrishöft, er nauðsynlegt að auka gagnsæi með gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, en fátt er betur til þess fallið en opin og frjás verðmyndun á afla. Um er að ræða ódýra, hagkvæma og sanngjarna leið sem er mun líklegri til árangurs en mannfrekt eftirlitskerfi.

Ég tek það fram að ég er ekki mótfallinn breytingum á áfengisútsölu vítt og breitt um landið og treysti vel duglegum og ábyrgum kaupmönnum til þess að standa að sölu áfengis eftir þeim reglum sem samfélagið setur. Hins vegar tel ég að um algert smámál sé að ræða samanborið við tvöfalda verðlagningu á fiskafla landsmanna.

Þögn sjálfskipaðra talsmanna frelsisins um þetta gríðarstóra hagsmunamál þjóðarinnar er æpandi, sérstaklega þegar horft er til látanna í kringum litla brennivínsmálið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.5.2013 - 23:03 - FB ummæli ()

Framsóknarflokkurinn kemst ekkert áfram

Það dylst fáum sem fylgjast með  nýjum forsætisráðherra að brúnin er farin að þyngjst á Sigmundi Davíð, enda hefur honum ekkert orðið ágengt í að kynna raunverulegar lausnir til lausnar á skuldamálum heimilanna. Nú er hann jafnvel farinn að gefa það í skyn að lítið verði að frétta af úrbótum fyrr en í fyrsta í lagi í haust.

Boðaðar tafir Framsóknarflokksins á aðgerðum í þágu heimilanna hljóta að koma landsmönnum í opna skjöldu þar sem að stjórnarmyndunarviðræður voru á forsendum flokksins og þegar þær voru í höfn var kynnt, með miklum lúðrablæsti, að ráðist yrði strax í skuldamálin.

Ráðamenn verða að gefa nánari skýringar á því hvað tefur boðaðar aðgerðir sem í kosningabaráttunni voru sagðar verða að koma til framkvæmda  án nokkurra tafa.

Mögulega er sú skýring rétt, sem borist hefur innan úr herbúðum Framsóknar, að samstarfsflokkurinn sé að draga lappirnar  og leggi áherslu á enn frekari útreikninga á hinum ýmsu útfærslum áður en leiðir verða kynntar.  Eitt er þó víst að með hverjum deginum sem líður í aðgerðarleysi fyrir heimilin á meðan mál sem snúa að því að létta álögum af auðlegðarfólki fá flýtimeðferð á stjórnarheimilinu, að þá mun fjara fljótt undan Framsóknarflokknum.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.5.2013 - 15:08 - FB ummæli ()

Samtakamáttur gegn sundurlyndi

Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur héldu  uppi harðri stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, einkum í þeim málum sem snéru að því þegar fyrrverandi ríksstjórnarflokkar móuðust með hangandi hendi við að fara í viðkvæm mál  á borð við uppgjör við Hrunið og stjórnkerfisbreytingar.  Atgangurinn var mestur í Landsdómsmálinu, stjórnarskrármálinu og jú þegar Jón Bjarnason steig nokkur hænufet til breytinga á kvótakerfinu.

Oft var viðkvæðið  að ríkisstjórn Jóhönnu væri föst í liðinni fortíð – það þyrfti að horfa fram á veginn og losna undan hefndarþorsta gagnvart stjórnmálamönnum, sem væru gengnir af hinum pólitíska leikvelli og hætta meintri aðför að atvinnulífinu og  heimilum landsins.

Orðalag í nýjum ríkisstjórnarsáttmála um breytt vinnubrögð og nýja nálgun verkefna er ekki beinlínis traustvekjandi, en í sömu andrá og boðað er að efla samhug er olnboginn settur í fráfarandi stjórn.

Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.

Ef frá eru talin ágæt áminningarorð Gísla Marteins um að ný stjórn sýni ákveðna hógværð, þá hafa fleiri stuðningsmenn nýju helmingaskiptastjórnarinnar haldið áfram í þeim gír að gera hróp að þeirri stjórn sem fór frá í síðustu viku m.a. að hún hafi svikið öll loforð og staðið í hernaði gegn almenningi.

Í ljósi stórbrotinna kosningaloforða Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem fólu í sér að stórauka ríkisútgjöld, lækka  skatta, afnema verðtrygginguna og leiðrétta skuldir heimilanna án nokkurrar tafar, þá tel ég ráðlegt að nýir stjórnarherrar láti verkin tala áður en haldið er áfram að skammast í baksýnisspegilinn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.5.2013 - 13:53 - FB ummæli ()

Heimilin í nefnd og til skoðunar

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er fátt sem hönd á festir og er hann harla loðinn.  Stjórnarsáttmálinn, sem innblásinn er af ágætum þjóðræknum gildum, tekur jafnvel ekki af öll tvímæli um hvert skuli stefna  í Evrópumálum. Viðræðum er ekki slitið heldur er gert hlé á þeim þar til þjóðin hefur sagt sína skoðun á ferlinu.  Það sama á við um skuldamál heimila – þau eru sett í nefnd til skoðunar.  Fyrir utan þann mikla hvalreka sem mun koma strax í hlut heimilanna við uppgjör bankanna, en gefið er í skyn að hann verði heldur meiri búhnykkur en uppgjör Samvinnutrygginga hér um árið.

Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu
húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir
næstu áramót.

Helsta nýmælið sem kveðið er skýrt á um í sáttmálanum er að það eigi að afnema lágmarksútsvar sveitarfélaga. Það mun aftur á móti gagnast mjög fáum heimilum miðað við fjárhagsstöðu sveitarfélaga vítt og breitt um landið.  Það er þó helst að von sé til þess í Hvalfjarðarsveit og mögulega í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.5.2013 - 14:26 - FB ummæli ()

Eiga ráðuneytismenn enga vini?

Ég er nýkominn af tveggja daga fundi framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitssvæða, sem rekin eru af sveitarfélögum landsins auk þess sóttu fundinn fulltrúar Umhverfisstofnun, Matvælastofnunar og ráðuneyta umhverfismála og atvinnu- og nýsköpunar. Fundurinn var haldinn á Hótel Geysi í Haukadal. Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á þau frábæru veisluföng sem hótelið bauð upp á og ég reikna með að koma með nokkur hundruð grömm með mér norður í Skagafjörðinn úr Haukadalnum.

Ýmislegt bar til tíðinda á fundinum, m.a. skinu í gegn þau skilaboð frá miðlægum ríkisstofnunum að sveitarfélögunum í landinu væri ekki treystandi til að sinna eftirliti í héraði og gefið var í skyn að það fengist betra eftirlit með ríkisvæðingu.  Skilaboðin ganga þvert á stefnu stjórnvalda, sem hefur verið að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga en ekki í hina áttina.  Nefnt var af talsmanni Stjórnarráðsins að einkum ríkti vantraust í garð staðbundinna stjórna heilbrigðisnefnda í dreifbýlinu, án þess þó að hann gæti fært fyrir því einhver dæmi eða rök.  Þessi vantrú frá frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu á að ákvarðanataka sé í höndum þeirra sem þekkja vel til staðbundinna aðstæðna og tröllatrú á algerri miðstýringu kemur verulega á óvart og fróðlegt verður að fylgjast með hvort að nýr ráðherra muni taka undir þá sýn.

Verkefni heilbrigðiseftirlitsins eru mjög fjölbreytt  og geta sum hver verið  flókin, en sjaldnast bjóða þau upp á gríðarlega hagsmunaárekstra, s.s. að ráða fram úr lyktarmengun, líta til með hreinlæti í sjoppum og matsölustöðum, sótthreinsun sundlaugarvatns, myglu í húsnæði, merkingu úðabrúsa, vatnsbólum, öryggi rennibrauta á leikskólum, frárennslisrörum, hvort olíutankar séu vökvaheldir og drasli á víðavangi svo einhver dæmi séu nefnd.

Ef að sérfræðingum og kjörnum fulltrúm sveitarfélaga, einkum þeim sem staðsettir eru langt frá höfuðborginni, er  ekki treyst af embættismönnum úr Stjórnarráðinu til  þess að ráða fram úr framangreindum verkefnum sökum áhrifa þeirrar nándar og vináttu sem ku einkenna dreifbýlið, þá er vafasamt að ætla að þau geti ráðið fram úr nokkru einasta verkefni, sem þeim er ætlað að sinna.

Á meðan ráðuneytismaðurinn hélt tölu sína um meinta vinavæðingu í dreifbýlinu kom upp í huga mér sú spurning hvort að ráðuneytismenn ættu enga vini og hvort að vinátta almennt sé einungis bundin við dreifbýlið. Upp í huga mér kom Rannsóknarskýrsla Alþingis. Í ljósi hennar ætti Stjórnarráðið að líta sér örlítið nær áður en það reynir að koma fingraförum sínum á framangreinda málaflokka, sem eru almennt í þokkalegu lagi.

Ein besta leiðin til þess að ná árangri við framfylgd laga og reglna  er einmitt að auka skilning almennings á gildi þess að fara að reglum samfélagsins og á það ekki síst við um að virkja sem flesta í að taka þátt í að efla umhverfisgæði og hollustuhætti.  Ýmsar aðrar leiðir eru til s.s. að beita beinum ströngum viðurlögum og þvingunarúrræðum líkt og í Singapore, þar sem ströng viðurlög eru við því að pissa í lyftum og henda rusli á víðavangi. Ég er ekki talsmaður sektaþjóðfélags heldur þess að reynt sé að höfða til ábyrgðarkenndar og skynsemi borgaranna. Sömuleiðis hlýtur það að vera skynsamlegt að gefa heimafólki ákveðinn sveigjanleika við að framfylgja reglum innan ákveðinna marka þannig að verið sé að taka á hlutum sem skipta máli á viðkomandi stað. Þekking á staðháttum verður einnig til þess að fjármunir og áherslur nýtast frekar í þau verkefni sem brenna á íbúum.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.5.2013 - 23:51 - FB ummæli ()

Bjarni Ben kemst á sjens

Í síðustu viku, þ.e. vikuna fyrir kosningar, lá Framsóknarflokknum gríðarlega á að aflétta umsátursástandinu um heimili landsins. Eftir hagstæð úrslit kosninganna fyrir flokkinn, hafa Framsóknarmenn tekið því rólega, spáð í spilin og boðið, í umboði Ólafs Ragnars Grímssonar, öðrum flokkum, sem eiga sæti á Alþingi, upp á að gera hosur sínar grænar fyrir Framsóknarflokknum. Þeir hafa verið sætasta stelpan á Alþingisballinu og notið athyglinnar til hins ítrasta. Allir hafa flokksformennirnir blikkað Framsóknarmaddömmuna, nema þá helst Píratar, sem voru alveg til í að leiða dömuna út af ballinu, án þess þó að ganga lengra. Greinilegt er að Bjarni Ben hefur haft upp á mest að bjóða. EnFramsóknarflokkurinn hefur tilkynnt einhliða að það verða teknar upp formlegar viðræður við Bjarna Ben um framhaldið og það algerlega á forsendum Framsóknarflokksins.

Þegar stjórnmálaflokkar taka upp viðræður er ekki óalgengt að leiðtogarnir komi fram sameiginlega, gefi tóninn og tilkynni um hvert skuli stefna og á hvaða forsendum. Það er erfitt að sjá fyrir framhaldið, þ.e. hvort þetta leiði í fyrstu atrennu til farsæls sambands, þar sem Framsóknarflokkurinn virðist algerlega hafa töglin og hagldirnar í viðræðunum.

Síðustu vikuna hefur krafan um að umsátursástandi um heimili landsins verði aflétt dempast og lítið virðist nú liggja á, hlutirnir virðast snúast meira um hver fær að sitja í hvaða sæti. Eitt er víst: Bjarni Ben er kominn á sjens

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.4.2013 - 00:23 - FB ummæli ()

Freisting

Beinast liggur við  að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndi næstu ríkisstjórn þó svo að nærri sé útilokað að samræma kosningaloforð flokkanna, þ.e. stórtækar niðurfærslur lána annars vegar með skattfé og hins vegar einhliða á kostnað óskilgreindra lánardrottna og síðan að halda í verðtrygginguna og afnema hana.  Báðir flokkarnir eru að vísu sammála um að auka ríkisútgjöld og lækka skatta.  Ekki er loku fyrir það skotið að stjórnarmyndunin snúist um aðra hluti þegar til kastanna kemur, s.s. hver fái að kaupa þetta og hitt sem enn er í eigu ríkisins – kannski Landsvirkjun? –  og hver fái þessa og hina fyrirgreiðsluna.

Engu að síður er ekki hægt að líta fram hjá þeirri freistingu sem forystumenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks standa frammi fyrir, þ.e. að semja við Samfylkingu og Vg líka en báðir flokkar eru í sárum og líklegir til þess að vera mjög viðráðanlegir í öllum samningum og tilbúnir að semja um nánast hvað sem er. Sömuleiðis er ljóst að Björt framtíð yrði kaupbætir með Samfylkingunni nánast ókeypis.

Reikna má með að það yrði friðvænlegra á vinnumarkaði ef stjórnarsamsetningin yrði sú að „verkalýðsflokkarnir“ ættu aðild að nýrri ríkisstjórn.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.4.2013 - 12:16 - FB ummæli ()

Sumargjafirnar

Kosningaúrslitin eru skýr og fátt eitt stendur í veginum fyrir því að forystumenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks myndi stjórn.  Það er þá helst að ágreiningur gæti orðið um hver eigi að sitja í forsæti stjórnarinnar, en fordæmi eru fyrir því að menn geti skipst á.

Margir kjósendur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks búast við betri tíð sem mun færa þeim: stórtækar skattalækkanir, skuldaniðurfellingu, gríðarlega uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og löggæslu, afnám verðtryggingar og vegagerð svo fátt eitt sé nefnt. Sumir þeirra, sem hafa bundið miklar vonir við nýja stjórn  Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks s.s. Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi, eru þegar farnir að ganga hart á eftir því að loforðin verði efnd, degi eftir kosningar.

Ef að það dregst að afhenda sumargjafirnar fram á næsta vetur, er hætt við því að það fari að harðna ískyggilega á dalnum hjá helmingaskiptaflokkunum.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur