Fimmtudagur 7.2.2013 - 17:02 - FB ummæli ()

Að hjakka í sama farinu

Sama hvað kemur upp á varðandi síldina þá er niðurstaða stjórnvalda alltaf sú sama, þ.e. að draga enn frekar úr veiðum. Aldrei er niðurstaðan á þá leið að skoða hlutina upp á nýtt eða frá nýju sjónarhorni. Helst er reynt að þagga niður og gera þá sem koma fram með málefnaleg rök ótrúverðuga.

Á síðustu árum hefur orðið vart við sníkjudýrasýkingu í síldarstofninum. Allir líffræðingar og bændur vita það að sníkjudýr eru fylgifiskur þess þegar það þrengist um hjörðina. Aukning sníkjudýra er skýrt merki um það að stofn sé mjög stór og þoli auknar veiðar. Í stað þess að nota tilefnið til þess að skoða hlutina upp á nýtt og auka veiðar, þá er ráðlagt að draga úr veiðum, sem gengur þvert á lögmál viðtekinnar vistfræði. Nú þegar síldin gengur hvað eftir annað á land eru hlutirnir ekki skoðaðir í nýju ljósi og farið yfir hvort það eigi að auka veiðar. Nei aldeilis ekki. Atburðirnir eru notaðir til þess að réttlæta það að minnka veiðar enn frekar, jafnvel þó svo að fréttir hermi að firðir landsins séu fullir af smásíld. Ekki nóg með það heldur virðist vera sem að óprúttnir sjórnmálamenn ætli sér að nota málið til þess að koma í veg fyrir það að gerðar verði vegabætur og þverun fjarða. Það er látið eins og útreikningar Hafró séu óskeikulir, þrátt fyrir að þeir sýni oft gjörólíkar niðurstöður á milli  mánaða og jafnvel vikna.

Það er ekki að undra að á meðal sjómanna og almennings í sjávarbyggðum landsins sé almenn vantrú á ráðgjöf og stjórnun fiskveiða. Það er eins og enginn þingmaður þori að taka upp gagnrýna umræðu um það hvernig málin hafa þróast.

Það er grátlegt að krakkarnir í Grundarfirði séu núna að aðstoða við að fénýta illa lyktandi fiskhræ í stað þess að þau fái að kynnast því að veiða og vinna síldina.

Er ekki kominn tími til að ræða það að fiskveiðistjórnunin er ekki að ganga upp?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.2.2013 - 15:23 - FB ummæli ()

Steingrímur J. neglir og Ólína fagnar

Með nýju frumvarpi um „stjórn fiskveiða“  gerir Steingrímur J. Sigfússon sitt ýtrasta til þess að festa illræmt kvótakerfi í sessi. Það er  gert þvert á fyrirheit Vg og Samfylkingar fyrir síðustu kosningar og sömuleiðis á þjóðarviljann eins og hann kom skýrt fram í atkvæðagreiðslu um auðlindaákvæði  nýrrar stjórnarskrár.

Það er eins gott fyrir þjóðarhag að Steingrímur J. renni á rassinn með þetta mál, rétt eins og með alla „stórkostlegu“ Icesavesamningana, þar sem nýja frumvarpið felur í sér að stjórnarflokkarnir vilja niðurnegla til frambúðar:

  1. Stjórnun sem hefur gefist afar illa, þorskaflinn síðustu áratugina í kvótakerfinu er ekki nema svipur hjá sjón, frá því sem hann var fyrir daga þess, enda  hvetur kerfið til brottkasts og sóunar.
  2. Þrönga sérhagsmuni á kostnað almennings.
  3. Að ekki verði leyfðar frjálsar handfæraveiðar næstu áratugina.
  4. Ennþá veikari sjávarbyggðir, sem nú þegar hafa farið illa út úr núverandi kerfi, þar sem ætlunin er að draga um helming úr byggðakvótum og sömuleiðis línuívilnun.( Sjá töflu bráðabirgðaákvæði VIII)

Steingrímur hefur sömuleiðis „afrekað“ það að stúta almennri úthlutun á skötuselsveiðum, sem Jón Bjarnason var búinn að koma á.  Um tíma áttu sjómenn möguleika á að leigja skötuselskvóta og jafnræði ríkti. Önnur afrek Icesavesráðherrans hafa verið að skera niður leyfilegan afla handfærabáta á makrílveiðum úr 3 þús tonnum í 8 hundruð tonn og einnig má minna á að hann skar síldarkvóta minni báta á lagnetum úr 2 þúsund tonnum  í 8 hundruð.

Þessi afrek Steingríms J. komu mér alls ekki á óvart, en það sem kemur óþægilega á óvart er að Ólína Þorvarðardóttir skuli taka þátt og klappa fyrir ruglinu og bullinu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.1.2013 - 23:52 - FB ummæli ()

Gutti tvöfaldur

Guðbjartur Hannesson formannsframbjóðandi og velferðarráðherra beitti vafasömum aðferðum í slagnum við Árna Pál um formennsku í Samfylkingunni. Á meðan á kosning stóð nýtti hann sér stöðuna í deilu hjúkrunarfræðinga, reyndar deilu sem hann bjó til sjálfur þegar hann samdi við forstjóra LSH um launahækkun, sem engin fordæmi eru fyrir. Til þess að slá á deiluna og sjálfan sig til riddara þá gróf hann upp skýrslu sem sýndi fram á gríðarlegan launamun á milli háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríkinu og mikið lægri laun hjá starfsfólki heilbrigðisstofnana en annarra ríkisstofnana. Hann taldi skýrsluna vera viðurkenningu á því að bæta þyrfti kjör í þeim stéttum þar sem konur eru í miklum meirihluta.

Guðbjartur þóttist hafa áhyggjur af stöðunni og taldi að um alvarlegt mál væri að ræða sem þyrfti að leysa og gaf það sömuleiðis í skyn í ræðustól á Alþingi að ríkið myndi koma til móts við hjúkrunarfræðinga.

Ráðherrann fundaði með hjúkrunarfræðingum og staðfesti forstjóri LSH að hann hefði fengið leyfi til að semja við hjúkrunarfræðinga, en jafnframt að það myndi kosta hundruð milljóna á ári.

Í sömu mund og póstkosningu til formanns í blessaðri Samfylkingunni lauk í gærkveldi dró svo til tíðinda þegar viðræðunum við hjúkrunarfræðinga var slitið.

Það er næsta víst að „sáttasemjarinn“ Guðbjartur mun setja af stað annað leikrit þegar nær dregur að því að uppsagnir hjúkrunarfræðinga taka gildi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.1.2013 - 00:08 - FB ummæli ()

Troðið ofan í kokið

Almenningur hefur fengið að reyna þann sára sannleika að ráðandi öfl hafa tekið afstöðu gegn þjóðarheill. Á það jafnt við um stærstu stjórnmálaflokka landsins, Samtök atvinnulífsins, ASÍ og kjaftaskana í háskólunum, sem birtast jafnan í stóru fjölmiðlunum. Allir þessir aðilar hafa staðið þétt saman gegn hagsmunum almennings í ICESAVEmálinu, gengislánamálinu, kvótakerfinu og hinni séríslensku verðtryggingu.

Í ICESAVEmálinu reyndu fyrrgreindir aðilar að sverta málstað Íslands á erlendum vettvangi og troða málinu margoft ofan í kokið á landsmönnum.

Í gengislánamálinu töpuðu þessi ráðandi öfl en stjórnvöld reyndu engu að síður að snúa út úr dómum Hæstaréttar með afturvirkum Árnapálslögum.

Helsta vörn almennings hefur verið opin hlustendalína á Útvarpi Sögu, mótmæli og síðan dómstólar auk þess sem nokkrir þingmenn Hreyfingar hafa sýnt þann kjark að tala máli almennings á Alþingi. Ráðandi öfl hafa ítrekað reynt að þrýsta á niðurstöður dómstóla og hunsað niðurstöður þeirra og þannig gert atlögu að réttarríkinu. Það er til dæmis ekki ennþá farið eftir endurútreikningum á gengislánum, sem miðast við dóm sem féll fyrir tæpu ári síðan.

Á sama tíma og það var verið að reyna að þvinga Icesave-„samninga“ upp á þjóðina rembdist ríkisstjórnin við að veita eigendum og helstu höfuðpaurum í ICESAVEmálinu skattaafslátt umfram aðra og veita útrásarliðinu vildarkjör á íslensku krónunni kæmu þeir til baka með eitthvað af ránsfengnum.

Hér varð nefnilega ekki bara hrun heldur rán.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.1.2013 - 12:39 - FB ummæli ()

Ævintýri OR halda áfram

Í vikunni sem leið bárust fréttir af  svakalegum stjórnarlaunum í hinum fjölmörgu skúffufyrirtækjum sem tengjast rekstri Hörpunnar. Allir voru stjórnarmennirnir í þessum verkum á vegum stjórnenda Reykjavíkur og ríkisstjórnarinnar.

Ekker lát virðist vera á ævintýralegu rugli í kringum hið ofurskuldsetta fyrirtæki, Orkuveitu Reykjavíkur! Nú berast fréttir af því að leiðtogar Samfylkingarinnar og  BF hafi selt höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur til óstofnaðs félags í gegnum hinn sögufræga Straum fjárfestingabanka.

Klingja þessar fréttir engum viðvörunarbjöllum hjá almenningi? – Varla getur það verið eitthvert einkamál Dags B. Eggertssonar og Jóns Gnarrs hver hefur fengið að kaupa húsnæðið og fengið með leynilegum  kaupsamningnum 20 ára leigusamning.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.1.2013 - 23:16 - FB ummæli ()

Sægreifinn mætir

Þorrablót Frjálslynda flokksins verður haldið laugardagskvöldið 26. janúar nk. og daginn eftir eða sunnudaginn 27. janúar verður landsþing Frjálslynda flokksins sett kl. 13 að Brautarholti 4 í Reykjavík.

Sérstakur heiðursgestur á blótinu verðu Kjartan Halldórsson, sægreifi en hann mun taka sér tveggja stunda frí frá legu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi til þess að taka þátt í gleðinni. Félagar og gestir skrá sig á blótið með því að senda tölvupóst á sigurjon@sigurjon.is  .

Kjartan_sgreifi_jpg_960x960_q99

Dagskrá landsþings:

Kosning fundarstjóra, fundarritara og annarra starfsmanna.

Skýrsla framkvæmdastjórnar. Grein gerð fyrir reikningum flokksins.

Skipan í málefnanefndir.

Kosningar í embætti.

Umræður um nefndarálit.

Stjórnmálaályktun.

Alþingiskosningar 2013.

Önnur mál.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.1.2013 - 00:55 - FB ummæli ()

Karl Vignir og Davíð Oddsson

Eftir hrun var loks gengist við því að sjávarútvegurinn væri undirstöðuatvinnugrein landsmanna. Á árunum fyrir  hrun reyndu stjórnmálamenn á borð við  Steingrím J. Sigfússon að draga úr vægi sjávarútvegarins og eyða þar með umræðu um nauðsynlegar breytingar á stjórn fiskveiða.

Eftir hrun syngja  afturhaldsöflin í fjórflokknum öll sem ein undir stjórn Ingva Hrafns Jónssonar á ÍNN, um  að ekki megi breyta í nokkru stjórn fiskveiða, enda er því haldið fram að Íslendingar séu bestir í heimi í því að byggja upp fiskistofna, veiða og vinna fisk.

Hinar köldu staðreyndir eru því miður þær að markaðsstarfi hefur hnignað, flotinn er orðinn gamall, en hann er að stofni til sá sami og var  hér við veiðar fyrir þremur áratugum.  Efast má um að nokkur atvinnugrein í landinu noti jafngömul atvinnutæki og sjávarútvegurinn, að minnsta kosti er ekki algengt að sjá fertugar dráttarvélar á fullri ferð í Skagafirði.

Ef skoðaður er árangur af stjórn kvótakerfisins við að auka afla og verðmætasköpun þjóðarinnar þá blasir það við hvaða heilvita manni sem á annað borð getur lesið í einfaldar tölur að kvótakerfið hefur í raun reynst skelfileg martröð.  Hér að neðan eru aflatölur á Íslandsmiðum einu ári áður en kvótakerfið var tekið upp og síðan árið 2011.  Ef meðaltal þorskafla á áratugunum á undan hefð  i verið borinn saman við aflann árið 2011 hefði samanburðurinn orðið enn meira sláandi og undirstrikað enn frekar hversu misheppnuð fiskveiðistjórnunin hefur reynst.

 ár Þorskur Ýsa Ufsi  samtals
1983 300.056 65.943 58.266
2011 182.034 51.299 50.487
mismunur í tonnum 118.022 14.644 7.779 140.445

Ef við gefum okkur að útflutningsverðmæti þessara þriggja fisktegunda sé um 700 kr/kg, þá er ljóst að ef að þjóðin veiddi sambærilegt magn af umræddum 3 fisktegundum þá væru það aukin útflutningsverðmæti upp á 100 milljarða króna eða svipaða upphæð og Bjarni Ben vill fá fyrir þriðjungs hlut í Landsvirkjun.

Hætt er við því að ekki fáist gagnrýnin umræða um það sem raunverulega getur orðið þjóðinni til hjálpar út úr hruninu heldur fari það sem eftir lifir vikunnar í blaður í Davíð á ÍNN eins og sú síðasta fór í ógæfumanninn Karl Vigni, en sjáum samt til fólk hlýtur að fara að vakna og þögguninni um fiskveiðistjórnunarvandamálin, eins og önnur viðkvæm mál, fari að linna.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.1.2013 - 23:06 - FB ummæli ()

Á LÍÚ að þrífa eftir sig?

Tekist er á um það hver á að greiða fyrir hreinsun á tugum þúsunda tonna af rotnandi síld í einum fallegasta firði landsins.

Fjórflokkurinn; Vg, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, virðist hafa þá sameiginlegu stefnu í sjávarútvegsmálum, sem og reyndar í flestum öðrum málum, að líta á fiskistofnana sem séreign sem hægt er að veðsetja og selja. Eini munurinn er sá að tveir fyrstnefndu flokkarnir vilja beita eitthvað meiri skattlagningu en hinir, en að öðru leyti viðhalda sama ónýta kvótakerfinu.

Ef einhver samfella væri í málflutningi fjórflokksins, þá væri ekki spurning að ráðamenn færu fram á að eigendurnir, LÍÚ, þrifu upp eftir sig á meðan ég og aðrir, sem líta á síldarstofninn sem sameign þjóðarinnar, teljum ekki nokkurn vafa á því að ríkið eigi að sjá um hreinsunina. Það er algerlega óskiljanlegt að ríkið ætli fámennu og fjárvana sveitarfélagi, Grundarfirði, að sjá um hreinsunina – Sérstaklega í ljósi þess að engum íbúa sveitarfélagsins hefur verið heimilt að fénýta fiskinn.

Hefði ekki verið nær, svona í miðri kreppu, að leyfa Snæfellingum að nýta síldina í stað þess að meina þeim að veiða hana? Nú horfa þeir á háhyrninga gæða sér sér á síldinni og sjá jafnvel á eftir henni í tonnatali reka upp á land þar sem hún rotnar engum til gagns.

Fiskveiðistjórnunina þarf að taka til grundvallarendurskoðunar á komandi kjörtímabili. Í Kolgrafarfirði varð þjóðarbúið af að a.m.k. 2.500 milljóna króna gjaldeyristekjum svo ekki sé talað um hina meingölluðu reglugerð, sem meinar sjómönnum að fénýta lúðuna, sem þjóðarbúið hefur nú þegar orðið af 500 milljóna gjaldeyristekjum af – Er kreppa í landinu?

Tjónið, sem þjóðin hefur orðið fyrir af handónýtri fiskveiðistjórnunarstefnu er margfalt meira, ofangreind dæmi eru bara toppurinn á ísjakanum.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.1.2013 - 13:56 - FB ummæli ()

Harka ríkisstjórnarinnar gagnvart Skagfirðingum

Flestum er ljóst að í kjölfar hrunsins þurfti að herða að í rekstri ríkisins og skoruðust Skagfirðingar ekki undan því að taka á sig auknar byrðar í sama mæli aðrir landsmenn. Reyndar höfðu ráðherrar ríkisstjórnarinnar, s.s. Guðbjartur Hannesson, gefið út þær yfirlýsingar fyrir síðustu kosningar að þeim landshlutum yrði sérstaklega hlíft við  niðurskurði, sem fóru varhluta af þenslunni og „góðærisgleðinni“ fyrir hrunið.

Sú hefur alls ekki orðið raunin, heldur hafa niðurskurður og álögur ríkisstjórnarinnar einkum bitnað á hinum dreifðu byggðum landsins. Opinber fjárframlög hafa til dæmis dregist saman til menningarstarfs í dreifbýlinu og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Í Skagafirði hefur niðurskurðurinn verið einkar harkalegur, en störfum hefur verið fækkað 50% meira þar en að jafnaði á landsvísu eða um hátt í 60 störf frá árinu 2008 –  og enn boðar ríkisstjórnin frekari niðurskurð í Skagafirði.  Nú berast þau tíðindi að 130 ára sögu sýslumannsembættisins í Skagafirði sé að ljúka, þrátt fyrir að innanríkisráðherra hafi gefið það í skyn að til þess myndi ekki koma! Ef að sýslumannsembættið verður lagt niður, er nokkuð ljóst að niðurskurðinum í sveitarfélaginu er ekki lokið.

Stefna ríkisstjórnarinnar er augljós gagnvart Skagafirðingum og reyndar landsbyggðinni allri – það er verið að leggja byggðirnar niður. Þessi stefna gagnvart dreifðu byggðunum er óskiljanleg vegna þess að í sjávarbyggðunum verður til drjúgur hluti af útflutningstekjum þjóðarinnar og gæti hann orðið ennþá meiri ef atvinnufrelsi verður aukið. Niðurskurðurinn í Skagafirði

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.12.2012 - 15:50 - FB ummæli ()

2012 ÁR SVÖRTU LÚÐUNNAR

í lok síðasta árs bannaði fyrrverandi sjávarútvegsráðherra alla lúðuveiði og leiddi það í reglur að andvirði alls lúðuafla yrði gert upptækt í ríkissjóð!  Augljós galli á veiðibanni ráðherra Vg var að megnið af lúðu veiddist sem meðafli og einungis lítið brot af veiðinni var vegna beinna lúðuveiða.

Ef mark má taka af uppgefnum aflatölum lúðu á árinu 2012, þá mætti ætla að Jón Bjarnason hafi náð gríðargóðum árangri í verndun lúðunnar og hafi þannig skákað og mátað sjálfan dýrafriðunarpáfann, Svandísi Svavarsdóttur. Uppgefinn lúðuafli á árinu sem er að renna sitt skeið er einungis 6% af því sem aflinn var árið 2011. Lítið er að marka aflatölurnar þar sem eðlilega taka menn lúðuna frekar með sér heim í soðið, en að fá ekkert nema erfiðið við að afla hennar og jafnvel hafa borist fréttir af því að einstaka heimilskettir séu orðnir hundleiðir á lúðunni.

Mögulega hafa starfsmannasjóðir eitthvað fitnað við skaðræðisreglurnar, a.m.k. hefur ekki verið kvartað hástöfum yfir skorti á lúðu á íslenskum veitingahúsum, en það var löngu fyrirséð hvaða tjón reglurnar myndu valda.

Á Alþingi hefur engin umræða verið um mörg hundruð milljóna tjónið sem „veiðibannið“ olli enda hafa þingmenn verið uppteknari við stærri mál s.s. tilfærslu frídaga, mögulega virkjunarkosti á þarnæsta kjörtímabili, úttekt á útvarpsmessum og skattlagningu á smokkum.

Fyrir andvirði tjónsins hefði mátt girða nokkrum sinnum hringinn í kringum Litla-Hraun eða þá smokkavæða landsmenn frítt.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur