Þriðjudagur 11.10.2016 - 09:29 - FB ummæli ()

Séríslenskt – auknar greiðslur en minni réttindi

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er talið af eitt það allra besta í heimi af þeim sem fara með stjórn þess.  Í kvöldfréttum RÚV var sagt frá því að til standi að hækka framlag í lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna, í um 20% af launum þeirra.  Við slíka tug prósenta hækkun á lífeyrisframlagi, þá hefði mátt ætla að verið væri að gefa launafólki kost á að komast fyrr á lífeyri.  Reyndin var þveröfug þ.e. að ætlunin er skerða réttindin og hækka lífeyrisaldurinn!

Ragnar Þór Ingólfsson frambjóðandi Dögunar í Kraganum, hefur um langt skeið haldið uppi rökfastri gagnrýni á  lífeyrissjóðakerfið.  Þessi gríðarlega hækkun á peningastreymi inn í kerfið auk skertra réttinda, gefur til kynna að Ragnar þór hafi haft rétt fyrir sér

Hringekja peninga í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna er rökleysa.  Ríkið greiðir háar upphæðir inn í sjóðinn. Sjóðurinn notar síðan drjúgan hluta upphæðarinnar til þess að kaupa skuldabréf af ríkinu sem gefa háa vexti.  Þetta eru peningar úr einum vasa í annann. Einfaldar væri að lækka framlag ríkisins í sjóðinn og nota fjarmunina í að bæta stöðu ríkissjóðs.

Vafasamara er þó þegar  lífeyrissjóðurinn sé að notar lífeyrisframlag ríkisstarfsmanna til þess að kaupa upp hlutabréf í fyrirtækjum á almennum markaði, nema þá ætlun stjórnvalda sé að félagsvæða eða réttara sagt Sovétvæða atvinnulífið.  Ef fram heldur sem horfi er hætt við að íslensku atvinnulífi verði stjórnað af fámennum hópi sem fær umboð sitt með óræðum hætti í gegnum samstjórn fulltrúa launamanna og samtaka atvinnulífsins.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.10.2016 - 00:32 - FB ummæli ()

Argentíska leið Viðreisnar

Ekki er hún gæfuleg leiðin sem Viðreisn býður landsmönnum upp á til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, en leiðin er að rígbinda gengi íslensku krónunnar við gengi evrunnar, með svokölluðu myntráði.  Hugmyndin er að ríkið festi í lög að ætíð sé hægt að skipta íslensku krónunni fyrir evru  á ákveðnu föstu gengi

Þessi leið hefur verið reynd í Argentínu með hræðilegum afleiðingum. Einhliða fastgengisstefna er mjög kostnaðarsöm vegna þess að hún krefst gríðarlega mikils gjaldeyrisvarasjóðs til þess að jafna út sveiflur í gjaldeyrisöflun. Fyrir liðlega 300 þúsund manna samfélag sem býr við  miklar sveiflur í gjaldeyrisöflun, þá eru þessar hugmyndir Viðreisnar algerlega ábyrgðarlausar.

Hver man ekki eftir því hvað ein fisktegund makríllinn, hafði gríðarlega hagfelld áhrif fyrir efnahagslífið í tíð síðustu ríkisstjórnar og allir vita hvaða áhrif ferðamaðurinn hefur á efnahag síðustu ára.  Aflabrestur eða öflugt eldgos á borð við Kötlugos sem truflaði flugsamgöngur gæti strax haft gríðarlega neikvæð áhrif gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins svo einhver dæmi séu tekin.  Með fastgengisstefnu við slíkar aðstæður væri verði að festa ójafnvægið í sessi, sem býður upp á efnahagslegar hamfarir ef samdráttarskeið í gjaldeyrisöflun dregst á langin.

Eina fastgengisstefna sem væri mögulega raunhæf væri að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið um að verja gengið, með samkomulagi í ætt við ERMII, sem tengir m.a. gengi dönsku krónunnar við evru.  Forsenda slíks samstarfs hefur hingað til verið aðild að Evrópusambandinu.

Dögun leggur áherslu á að hagur almennings verði tryggður fyrir sveiflum í efnahagslífinu með því að afnema verðtrygginguna.  Núverandi verðtrygging miðar að því að varpa allri áhættu af sveiflum í efnahagslífinu yfir á lántakendur. Á meðan fjármálastofnanir bera enga áhættu af þenslu og verðbólgu þá er það ekki beint hvetjandi til þess að þær hagi sér af ábyrgð.  Augljóst er að þegar upp er staðið þá hafa fjármálafyrirtæki miklu meiri áhrif á famvindu efnahagsmála en einstaka neytendur og því sanngjarnt að lánveitendur og lántakar skipti með sér verðbólguáhættu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.9.2016 - 10:33 - FB ummæli ()

Illskiljanleg og flókin einföldun

Samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi er „þverpólitískur“ vettvangur undir forystu Rögnu Árnadóttur, sem ætlað er að stuðla að upplýstri umræðu sem á að  hafa það að markmiði að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið.

Skýrsla 6 sérfræðinga  til Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, um hvernig hægt sé að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara, vakti miklu frekar spurningar en svör.  Við lestur á liðlega 100 bls. skýrslu er ekki nokkur leið að átta sig á hvað tillögur um breytingar á persónuafslætti, skattþerpum og barnabótum fela nákvæmlega í sér. Sett voru upp nokkur dæmi án þess að skýra niðurstöður eða gera skýra grein fyrir útreikningum.

Vinnubrögðin eru óneitanlega mótsögn við markmið  Samráðsvettvangsins, sem var ætlað að skapa gagnsæja samantekt! Sama á við um grautarlega framsetningu. Í sama kafla og fjallað er um áhugaverðar tillögur um innheimtu á bílastæðagjöldum á ferðamannastöðum, er að finna algerlega óútfærðar flóknar vangaveltur um hækkun á veiðigjöldum. Ekki er minnst orði á að auðveldasta leiðin til þess að skapa aukna hagsæld og arð fyrir samfélagið af fiskveiðum, er að afli verði seldur á frjálsum markaði.

Eitt er víst að margar af tillögunum sem settar eru fram undir merkjum einföldunar munu leiða til stóraukins flækjustigs. Það á örugglega við um einhvers konar sveiflujöfnun á tryggingagjaldinu en tryggingajaldið er lítið annað en dúlbúinn flatur launaskattur. Sama á við um illskiljanlegar tillögur um veiðigjöld og að fjármagnsskattur nái einungis til raunávöxtunar fjár.

Við skoðun á samsetningu Samráðsvettvangsins er áberandi hve kvótaaðallinn á marga nýja og gamla fulltrúa í samráðinu – það er mjög sláandi ef litið er til þess að stórir hópar á borð við aldraða og öryrkja eru ekki hafðir með í ráðum.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.9.2016 - 17:15 - FB ummæli ()

Hitt fólkið

Ég lagði leið mína óvænt í Norræna húsið á „Fund fólksins“. Tilefnið var m.a. mjög áhugaverður og fræðandi fundur með Ragnari Þór Ingólfssyni og Ástu Dís Guðjónsdóttur frambjóðendum Dögunar um lífeyrisjóðakerfið.

Á „Fundi fólksins“ varð ég þess fljótt áskynja að Dögun og fleiri flokkar sem hyggjast bjóða fram í næstu Alþingiskosningum voru ekki einungis útilokaðir frá því að taka þátt í sameiginlegum viðræðum formanna stjórnmálaflokkanna, heldur einnig að fá að kynna stefnumál sín á sviði. Á sviðinu fengu aðrir flokkar að kynna sín stefnumál á hálftíma fresti allan liðlangan daginn og var umræðan send út af RÚV í beinni.

Í skýringum stjórnanda samkomunnar kom fram að þessi mismunun væri gerð að kröfu fjölmiðla og þá væntanlega RÚV!  Ég á bágt með að trúa þessum skýringum þar sem það er eitt af hlutverkum fjölmiðilsins að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum. Fyrir vettvang sem kallar sig „Fund fólksins“ þá finnst mér það vera öfugsnúið að skipta þátttakendum upp í fólkið og síðan hitt fólkið eða jafnvel hyskið sem sett er til hliðar.

Það væri fróðlegt að fá nánari skýringar á þessari mismunun og hvort eitthvað sé til í því að hún sé gerð að kröfu fjölmiðlanna eða þá styrktaraðila samkomunnar, sem eru; SA, Reykjavíkurborg og Ríkisstjórnin?

Eitt er víst er að málflutningur okkar frambjóðenda Dögunar er ekki galnari en svo að ég var kallaður í viðtal í Færeyska ríkistúvarpinu eftir framlag mitt á fundi um skipan úthutunar veiðiheimilda í Rúnavik í Færeyjum á fimmtudagin var.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2016 - 08:44 - FB ummæli ()

Fyrir hvern og hvernig er það betra?

Fyrirbærið, RNA, Rannsóknasetur um nýskökpun og hagvöxt, sem stýrt er af; Ragnari Árnasyni, Hannesi Hólmsteini og Birgi Þór Runólfssyni gengur meira og minna út á að sanna brauðmolakenninguna.  Kenningin gengur út á að allur almenningur muni að lokum njóta góðs af mikilli auðsöfnun fárra.  Helsti vandinn sem RNA stendur fram fyrir er að kenningin hefur hvergi gengið upp og hefur í raun verið algerlega hafnað. Engu að síður reyna þeir félagarnir að berja í brestina með því að leita uppi skoðanabræður sína í hinum ýmsu heimshornum til að halda erindi á Íslandi byggð á brauðmolakenningunni. Eitt slíkt var haldið í Þjóðminjasfninu þann 29. ágúst sl. þar sem því var haldið fram að miklu verra væri að raunverulegur eigandi þ.e. þjóðin úthlutaði aflaheimildum í stað þeirrar aðferðar sem nú er beitt að fámennur hópur sem naut sérstakra fríðinda geti komið sér upp leiguliðum og braskað með auðlindina.

Erindi talsmanns brauðmolanna virðist hafa runnið mjög ljúflega ofan í þingmenn Sjálfstæðisflokksins og einn þeirra sá ástæðu til þess að kvarta sérstaklega undan því að ekki væri nægjanleg umræða um fræðin á netinu og er rétt að bæta hér úr því:

Ef núverandi kvótakerfi er jafn þjóðhagslega hagkvæmt og Gary Libercap heldur fram og það sé það besta í heimi að mati SFS, þá er rétt að spyrja fyrir hvern og hvernig er það betra.

Ekki er það betra fyrir fiskvinnslukonuna sem hefur helmingi lægri laun en í Færeyjum. Ekki er það metið út frá aflanum en þorskaflinn er helmingurinn af því sem hann var að jafnaði fyrir daga kvótans.  Varla er það fyrir sjómenn sem þurfa að sætta sig við tvöfalt fiskverð og sífellt stærri þátttöku í útgerðarkostnaði. Ekki er það fyrir sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið.  Ekki er það fyrir ríkissjóð og ekki heldur að sjá að kerfið hafi leitt af sér miklar fjárfestingar eða nýliðunar í greininni enda skipakostur gamall og greinin lokuð.

Auðvitað er það rétt að kerfið hefur reynst einstaklega vel fyrir örfáa kvótaþega en við hin höfum ekki notið brauðmolanna heldur hafa brauðhleifarnir staflast upp á Tortóla og fleiri skattaskjólum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.8.2016 - 19:14 - FB ummæli ()

Upplýsingar um rotið kerfi úr innsta hring

Í þjóðmálaþættinum Þjóðbraut var opinskátt viðtal við rektor Háskólans á Bifröst, Vilhjálm Egilsson. Vilhjálmur hefur um áratugaskeið verið í innsta valdahring Sjálfstæðisflokksins.  Hann var þingmaður flokksins, ráðuneytisstjóri, framkvæmdastjóri SA og nú háskólarektor.

Í þættinum opnar hann glögga sýn inn í rotna ákvarðanatöku um hvaða sjónarmið séu sett í forgrunn þegar teknar eru ákvarðanir af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, um breytingar á opinberri þjónustu og menntakerfi!  Hann játaði einlæglega að ákvarðanirnar séu fyrst og fremst byggðar á pólitískum frama einstakra þingmanna og alls ekki almannahag.  Sjón er sögu ríkari og er fróðlegt fyrir áhugamenn um íslenska stjórnsýslu að hlusta á ótrúlegar játningar einkum á 25. – 29. mín. og sömuleiðis 36. – 38. mín.

Í þættinum kemur fram að megin ástæðan fyrir því að ráðherra setti lögreglunámið niður á Akureyri en ekki í Norðvesturkjördæmi hafi verið sú að menntamálaráðherra hafi viljað veikja stöðu Haralds Benediktssonar í prófkjörsbaráttu í Sjálfstæðisflokknum sem er í beinni samkeppni við mág ráðherrans!

Viljum við hafa þetta svona ?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.8.2016 - 00:07 - FB ummæli ()

Galtómt glas á Stöð 2

Logi Bergmann fréttamaður á Stöð 2 skrifaði gagnrýna grein um landann í sumar, sem var á þá leið að hann væri orðinn leiður á því að það væri of mikið af gaurum á Íslandi sem sæju ekki björtu hliðarnar á tilverunni. Gaurarnir hans Loga voru með það á hreinu að glasið væri ekki bara nánast tómt, heldur líka brotið og skítugt.

Þegar ég las greinina á sínum tíma þá fannst mér fréttamaðurinn sjá samferðamenn sína í óþarflega dökku ljósi. Eftir að hafa horft á gaurana sem birtust í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld og sögðu það nánast náttúrulögmál að þjóðin þyrfti að búa við vaxtaokur a.m.k. næstu tvo áratugina, þá fór ég að skilja þetta tal um neikvæðu gaurana.

Það væri ráð fyrir fréttastofu Stöðvar 2 að fá af og til bjatsýnni raddir inn í sjónvarpsverið þegar rætt er um bætt lánakjör fyrir almenning. Mörg andlitanna sem birtast í líki sérfræðinga eru þau sömu og voru á skjánum fyrir hrun og segja nánast það sama og þá.

Fyrr á þessu ári kom til landsins framkvæmdastjóri þýskra samfélagsbanka, Wolfram Morales, á vegum stjórnmálasamtakanna Dögunar. Þegar honum voru kynnt þau kjör eða réttara sagt það okur sem almenningur hér á landi þarf að búa við, þá bauðst hann til að aðstoða við að stofna banka í líkingu við þann sem hann stýrir.

Hvers vegna fær Stöð 2 ekki þýska framkvæmdastjórann í viðtal. Það er líklegt að hann gæti lagt eitt og annað til málanna þar sem hann er framkvæmdastjóri banka sem hafa yfir 50 milljón ánægðra viðskiptavina.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.8.2016 - 00:32 - FB ummæli ()

Hvenær á ráðherra að segja af sér?

Ég hef nokkuð furðað mig á þeirri kröfu Sjálfstæðismanna að félagsmálaráðherra eigi að segja af sér.  Krafan virðist eiga sér nokkurn hljómgrunn innan Framsóknarflokksins, þar sem hvorki formaður né forsætisráðherra hafa komið ráðherra sínum til varna.  Ekki er málið að mér þyki mikið til verka félagsmálaráðherrans koma, en hún hefur verið drjúg við að færa auðlegðarfólki íbúðir Íbúðarlánasjóðs á silfurfati m.a. leigufélagið Klett. Eins og við mátti búast þá hafa þessar aðgerðir hennar frekar orðið til þess að þrengja hag þeirra sem standa höllum fæti en hitt. Að vísu hefur hún sýnt vilja til að minnka kostnað við byggingar íbúða, með mjög framsæknum prósentureikningum.

Að mati þingmanna Sjálfstæðismanna þá telst það algerlega óboðlegt fyrir ráðherra að sitja hjá við afgreiðslu þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun næsta kjörtímabils!

Þessi viðkvæmni kemur á óvart í ljósi þess að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins efaðist um trúverðugleika eða hæfi ráðherra sem studdi velgjörðarmann og fyrrverandi atvinnuveitanda sinn í viðskiptaerindum í Kína. Sama á við um viðbrögð þingmanna flokksins við þeirri staðreynd að tveir af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins áttu félög á aflandseyjum, til þess að komast hjá skilum á skattgreiðslum á Íslandi.

Engu máli skipti þó svo að ráðherra hefði sagt ósatt þegar hann var spurður sérstaklega út í það hvort hann ætti félag í skattaskjóli.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.8.2016 - 17:35 - FB ummæli ()

Plástur á áframhaldandi vaxtaokur

Vaxtaokrið sem viðgengst á Íslandi er megin vandi almennings, sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Í stað þess að taka á meininu, þá boðuðu oddvitar ríkisstjórnarinnar í dag sértæka plástra á eina af  birtingarmyndum meinsins.  Augljóst er að aðgerðirnar snerta aðeins lítinn hluta fólks sem á í vanda á húsnæðismarkaðnum og með mjög takmörkuðum hætti. Það er að þeim, sem eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð og eru svo stöndugir að komast í gegnum greiðslumatið.  Það  jákvæða við tillögurnar er að  þær bera með sér þau skilaboð til ungs fólks að það spari og sýni ráðdeild áður en lagt er í að festa kaup á íbúð.

Sorglegast við tillögurnar fyrir utan  auðvitað að ekki eigi að taka á vaxtaokrinu, er að ekki er heldur litið til þess hóps sem hefur misst allt sitt í hruninu.   Fólk er orðið ýmsu vant í röksemdafærslu s.s. réttlætingu fyrir skattaskjólum svo sem að flókið geti verið að eiga peninga á Íslandi, en það er ekki síður  firra að halda því fram líkt og ráðherrarnir gera nú, að hækkun á lífeyrissjóðsgjaldi í 15,5%, bæti sérstaklega kjör ungs launafólks.  Það að lífeyrissjóðirnir taki æ stærri hluta af launum  leiðir ekki til  góðs, sérstaklega ef horft er til þess að þeir treysta helst á að ávaxta fjármagnið með áframhaldandi háu vaxtastigi á almenning og að standa sömuleiðis í vegi fyrir afnámi verðtryggingar.

Tillögurnar eru í ætt við aðrar framsóknarlegar tillögur Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs, þar sem tekið er úr einum vasa skattgreiðandans og sett í annann – Ekki er snert við ofsagróða fjármálafyrirtækjanna sem maka krókinn en gróði bankanna á síðasta ári var á annað hundrað milljarða króna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.8.2016 - 23:15 - FB ummæli ()

Hvað var konan að meina?

Innanríkisráðherra hefur haldið því fram að ÓUMFLÝJANLEGT sé að líta til einkaframkvæmda ef það eigi að fara í lágmarks viðhald á vegum og ráðast vegabætur!

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins hljóp yfir þá staðreynd að einkaaðilar sjá nú þegar um alla vegagerð á landinu og að aðeins lítill hluti af því fé sem ríkið innheimir til vegagerðar er varið til málaflokkins.

Augljóst er því að Sjálfstæðisflokkurinn boðar að farið verði í auknum mæli í að einkaaðilar geti sett upp sérstök innheimtu- eða vegatollahlið til þess að innheimta fé af ferðalöngum sem ætla á milli bæja.  Með öðrum orðum það er verið að boða þá leið að innheimtir verði þúsundkallar á fleiri stöðum en í Hvalfirðinum.

Það hníga öll rök gegn þessari aðferð sem Ólöf boðar, þar sem risastór kostnaðarliður á borð við fjármagnskostnaður er talvert lægri hjá hinu opinbera en einkaaðilum. Nýlegt dæmi einkaframkvæmdin Vaðlaheiðagöng, sannar að þegar áætlanir ganga ekki upp, þá er það ríkið sem situr uppi með Svarta Pétur en ekki einkaaðilinn Vaðlaheiðagöng ehf.

Hvers konar úrkynjun er það hjá Sjálfstæðisflokknum að sjá ekki nein viðskiptatækifæri nema þá í því að hremma almannaeigur á borð við vegi, flugstöðvar og heilsugæslu?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur