Miðvikudagur 3.8.2016 - 20:15 - FB ummæli ()

Offita og uppboð

Umfjöllun fréttastofu RÚV, í kvöldfréttum sjónvarpsins um umdeilda aðgerð gegn offitu var einkar vönduð. Andstæð sjónarmið fengu að vegast þar á. Rætt var bæði við talsmenn aðgerðanna og sömuleiðis fengu að heyrast efasemdaraddir um ágæti offituaðgerðanna. Gekk fréttastofan svo langt að benda lækninum á að hann hefði persónulegra hagsmuna að gæta!

Þessi gagnrýna fréttamennska RÚV kom ánægjulega á óvart þar sem skömmu áður í fréttatímanum var fullyrt að uppboðsleið Færeyinga á fiskveiðiheimildum kæmi ekki til greina – Síðan var rætt við eina dyggustu talsmenn kvóta til sjávar og sveita frá landnámi, eða við þá félagana Gunnar Braga Sveinsson og Jón Gunnarsson. Einhverra hluta  vegna gleymdi fréttamaðurinn að minna þingmennina á augljós hagsmunatengsl flokka þeirra við núverandi kvótaþega.

Ég var farinn að halda að Jón Gunnarsson væri orðinn blendinn í trú sinni á kvótann vegna yfirlýsinga sinna síðustu vikna. Með framgöngu sinni í fréttatímanum í kvöld, þá staðfestir hann að efinn sem hann hefur lýst yfir á trú sína á úthlutun veiðiheimilda, sé helst tilkomin vegna skjálfta í aðdraganda kosninga.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.7.2016 - 20:25 - FB ummæli ()

Fengu sínar 5 mínútur á RÚV

Á sinn hefðbundna hátt fjallaði RÚV á 5 mínútum um eyðileggingu enn einnar sjávarbyggðarinnar af völdum kvótakerfisins.  Í dag var það Þorlákshöfn sem fékk sínar 5 mínútur. Á skjánum birtist sveitarstjórinn sem sagði söluna á atvinnuréttinum úr byggðinni vera reiðarslag sem verulega kæmi á óvart. Eflaust eiga fleiri eftir að kyrja þennan sorgaróð; á borð við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og þingmenn kjördæmisins.

Auðvitað koma þessar fréttir engum á óvart. Fjöldi byggðarlaga hringinn í kringum landið hafa orðið kerfinu að bráð. Sveitarfélög á borð við Djúpavog, Flateyri, Bíldudal, Húsavík, Seyðisfjörð o.s.frv. hafa farið illa út úr kerfinu – þó misilla. Það má örugglega bóka það að fleiri byggðarlög muni fara nákvæmlega sömu leið og Þorlákshöfn fór í dag s.s Ólafsvík, Siglufjörður, Eskifjörður og Vestmanneyjar.

Farmanna- og fiskimannasambandið, með Guðjón Arnar Kristjánsson sem forseta, benti nákvæmlega á hvert stefndi árið 1991, en samt virðist sem afleiðingar kerfisins séu enn að koma á óvart. Fyrir utan þann hvata sem innbyggður er í kerfið, þá njóta forréttindaútgerðirnar sérstakrar fyrirgreiðslu í fjármálakerfinu á meðan þrengt er að þeim minni á borð við Hafnarnes-Ver í Þorlákshöfn.

Fólk sem vill breytingar á illræmdu kerfi verður að kjósa þá sem raunverulega eru líklegir til umbóta. Það verður að læra að vara sig á flokkum á borð við Vg og Samfylkingu. Vg og Samfylkingin þóttust ætla að breyta kerfinu á síðasta kjörtímabili en sviku. Verstu svikin voru þegar flokkarnir færðu nýja fisktegund í landhelgi Íslands, makrílinn, á silfurfati til forréttindaútgerðanna. Sama á við um Viðreisn, en innsti koppur þar í búri er Daði Már Kristófersson „hagfræðingur“ sem hefur hingað til lagst gegn því að fiskur sé verðlagður á frjálsum opnum fiskmarkaði.

Það er löngu orðið tímabært að breyta kerfinu og viðurkenna þá staðreynd að það hefur alls ekki þjónað upphaflegum markmiðum sínum um aukinn afla, trausta atvinnu, byggðafestu. Staðreyndirnar tala sínu máli þoskaflinn nú er helmingurinn af því sem hann var fyrir daga kerfisins.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.7.2016 - 17:28 - FB ummæli ()

Fjármálráðherra segir öruggt að þjóðin sigli inn í fjármálakreppu!

Í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun var langt viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra.  Viðtalið vakti athygli mína einkum fyrir tvennt;

Í fyrsta lagi þá vill Bjarni Benediktsson halda áfram að gramsa í eigum almennings, í gegnum nýstofnað einkahlutfélag í eigu ríkisins! Það verða þá trúnaðarmenn hans sem munu úthluta eignum ríkisins.  Þjóðin má því eiga von á nýjum Borgunar- og Matorkumálum. Tap þjóðarinnar og gróði aðila nátengdum fjármálaráðherra á Borgunarmálinu nemur  hærri upphæð, en gríðarlegum kostnaðarsömum framkvæmdum við Landeyjahöfn.  Það eru engin rök fyrir því að fara með sölu eigna ríkis í gegnum einkahlutafélag, enda er eina hlutverk slíkra félaga að takmarka ábyrgð eigenda og mynda skattahagræði fyrir eigendurna – Hvers vegna ættir ríkið að gera það?  Ég efast stórlega um að það séu til dæmi annars staðar frá í heiminum um að ríki hafi stofnað til einkahlutfélaga til að sjá um einkavæðingu – Ekki einu sinni í Panama.

Í öðru lagi þá lagði á fjármálaráðherra mikla áherslu á að selja bankana án þess að tryggja aukna samkeppni eða bætt vaxtakjör til almennings og fyrirtækja.  Hann hafði engan sérstakan áhuga á að koma á einhverri skipulagsbreytingu á fjármálamarkaði, en áður hefur hann lýst yfir algerri andstöðu við samfélagsbanka.   Mér fannst hann tala með léttvægum hætti um það rán sem fram fór á mettíma í íslensku bönkunum, í aðdraganda hrunsins. Ránið olli nokkrum af stærstu gjaldþrotum í viðskiptasögu heimsins!  Eflaust hefur fjármálaráðherra  sloppið vel sjálfur í hruninu, þrátt fyrir að hafa stýrt fyrirtækjum í tugmilljarða gjaldþrot. Í viðtalinu lýsti hann því að minnsta kosti berum orðum, að öruggt væri að þjóðin muni sigla inn í nýja fjármálakreppu og virtist vera sem að ekki væri um neitt tiltökumál að ræða.

Gamlir kjósendur Sjálfstæðisflokksins ættu að hlusta á viðtalið en í því þá staðfestir Bjarni að hann er fyrst og fremst að gæta hagsmuna 1% þjóðarinnar og á kostnað 99% Íslendinga.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.6.2016 - 22:47 - FB ummæli ()

Brynjar – verndari minnihlutahóps

Í nýlegum upplýsandi pistli Brynjars Níelssonar á Facebook er greinilegt að hann ver hlut lítils minnihlutahóps  á kostnað hins venjulega Íslendings.  Hann virtist sjá rautt þegar hann heyrði því hreyft að  rétt væri að færa skattbyrðina af venjulegu launafólki og yfir á stóriðjuna og kvótaþega.  Engu skipti þó svo skattbyrðin sé gríðarlega þungbær á venjulegu launafólki, en fyrir utan 38% launaskatt þá er  rétt að bæta við  þá tölu ríflega 20% vegna  innheimtu ríkisins á trygginga- og lífeyrissjóðsgjaldi.

Brynjar virðist ekki mega heyra á það minnst að stóriðjan og kvótaþegar greiði sanngjarna skatta eða hvað þá að sanngjörn markaðslögmál verði látin ráða við úthlutun aflaheimilda! Einu gilti þó svo íslensk stóriðja greiði aðeins brot af því orkuverði sem hinn venjulegi Íslendingur þarf að reiða fram og sé meira og minna á sérsamningum sem tryggir atvinnugreininni nánast algert skattfrelsi.

Í harðri hagsmunagæslu sinni fyrir minnihlutahópinn, hélt Brynjar því fram að sanngjarnar breytingar á núverandi kvótakerfi, sem kæmu hinum venjulega landsmanni til góða, myndu valda mikilli búseturöskun og ofan í kaupið leiða til bótaskyldu ríkisins.  Hver heilvita maður sem eitthvað fylgist með ætti að sjá að sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið eru nánast í útrýmingahættu,ef kerfið fær að halda að óbreytt áfram.  Sama á við um þá villandi fullyrðingu Brynjars að sanngjarnar breytingar myndu leiða til bótaskyldu, en 1. grein í lögum um stjórn fiskveiða tryggir að svo er alls ekki, auk þess að allar þær breytingar sem gerðar hafa verið þegar einum útgerðarflokki hefur verið bætt upp áföll á kostnað annarra í greininni, þá hafa þær verið gerðar án þess að einhverjar bætur hafa verið reiddar fram af ríkinu.

Í sjálfu sér er ekkert við því að segja þó svo að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilji gæta sérstaklega hagmuna auðugs minnihlutahóps sem deilir ekki kjörum með þjóðinni, en það er furðulegt að flokkurinn skuli enn njóta stuðnings yfir 20 % þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.5.2016 - 22:26 - FB ummæli ()

Kjósendum Davíðs finnst betra að gefa en þiggja

Davíð Oddsson hefur þann eiginleika að geta túlkað hvaða atburð sem er sér í vil.  Hann varpar jafnframt af sér allri ábyrgð á atburðrás sem hann var aðalleikari í, þ.e. hruninu.  Gamli forsætisráðherrann gerir gott betur og lætur í veðri vaka að hann hafi verið hrópandinn í eyðimörkinni, sem varaði við og ekki var hlustað á!

Staðreyndin er sú að einkavæðingarsaga ríkisstjórna Íslands undir forystu Davíðs Oddsonar er nánast ein samfelld spillingarsaga.

Hæsta tilboði var t.a.m. ekki tekið í SR-Mjöl. Þess í stað var lægra tilboði Benedikts nokkurs Sveinssonar tekið í staðinn

Salan á Íslenskum aðalverktökum var dæmd ólögleg í Hæstarétti, en réttum upplýsingum um verðmæti félagsins var haldið frá kaupendum.

Salan á áburðarverksmiðjunni var gjöf en ekki gjald. Ríkið hefði fengið miklu mun meiri fjármuni fyrir eignina ef það hefði ákveðið að hætta starfseminni og selja eignirnar á markaðsvirði.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis kemur og fram að við sölu bankanna hafi áhugasömum kaupendum, sem lögðu fram hagstæðari tilboð en þau sem óreiðumennirnir gerðu, verið ýtt til hliðar. Einnig kemur þar fram að óreiðumennirnir hafi beinlínis verið handvaldir af þeim félögum; Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Samningar og fjármögnun á kaupum á bönkunum báru með sér, að málið var eitt skítamix. Kaupendur fengu lán í bönkunum sem þeir voru að kaupa og á daginn kom eftir hrun að nokkur hluti af lánunum var aldrei greiddur.

Það er eftir öðru að eftirmaður hans í stóli formanns Sjálfstæðisflokksins og helsti stuðningsmaður Davíðs í kosningabaráttunni, hefur tekið upp gömlu vinnubrögðin og sést það best á því ríkið var snuðað um 6 milljarða við ráðstöfum á Borgun til gamalla viðskiptafélaga fjármálaráðherra.

Það verður fróðlegt að sjá hve hátt hlutfall landsmanna muni kjósa ritstjóra þeirra sem þegið hafa einkaafnot af fiskimiðunum frá fjórflokknum.

Þeir sem kjósa Davíð finnst örugglega betra að gefa en að þiggja.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.4.2016 - 00:18 - FB ummæli ()

Víglundarfarsinn

Þingmenn Framsóknarflokksins fóru mikinn í umræðu um leyndarskjöl í tengslum við endurreisn bankanna með sérstakri áherslu á mál Víglundar Þorsteinssonar.  Kröfðust þeir þess hástöfum að látið yrði af allri leynd í þöggun á tengslum við Víglundarmálið.  Erfitt var að sjá að hverjum krafan átti að beinast nema þá fyrst og fremst þingmönnum Framsóknarflokksins sjálfum, sem höfðu drjúgan meirhluta á þinginu.

Í Panamskjölunum kemur það síðan í ljós að það var veltengdur Framsóknargæðingur, sem keypti  fyrirtæki Víglundar fyrir lítið í gegnum skúffufyrirtæki í útlöndum.  Upp komst að nafnlausi kaupandinn var enginn annar en framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og má bóka að hann hefur notið tengsla sinna inn í rotið bankakerfi til þess að komast yfir fyrirtæki Víglundar.

Þingmönnum Framsóknarflokksins virðist vera létt við þær fréttir að fyrirtæki Víglundar hafi lent í réttum höndum framkvæmdastjóra flokksins, a.m.k. var umræða um leyndarbrask framkvæmdastjóra þingflokksins sett mjög aftarlega á dagskrá á fundi þingflokksins.

Ætli þingmennirnir sem áður voru hásir af æsingi út af Víglundarmálum sjái ekki málið nú í víðara samhengi; þ.e. að rétt hafi verið að taka fyrirtækið svo enginn annar stæli því!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.4.2016 - 02:00 - FB ummæli ()

Riddaralegt göfuglyndi

Í kvöld birtist nýja ríkisstjórn Sigurðar Inga varaformanns og var boðskapur foystumanna hennar einfaldur; þ.e. að ætla að gera nákvæmlega það sama og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs formanns gerði.  Líklega eiga ýmsir eftir að klóra sér í hausnum yfir skipan stjórnarinnar. Ekki yfir að nýtt andlit skuli birtast í starfskynningu í einhverju ráðuneytinu í stuttan tíma, heldur miklu frekar að enn skulu tveir ráðherrar vera í stjórninni sem hafa orðið uppvísir af því að fela fé í skattaskjólum og segja ósatt um málavöxtu.

Það fór ágætlega á því að Bjarni Benediktsson hefði orð fyrir nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga. Flutti  Bjarni ábúðamikla tölu þar sem hann hældi sjálfum sér og öðrum í ríkisstjórninni fyrir eigin afrek. Endurtekin sjálfsupphafning sem Sigurður Ingi endurómaði, varð til þess fréttamannafundurinn minnti orðið á síendurtekin hvítþvott Ásmundar Einars á Sigmundi Davíð í umtöluðum útvarpsþætti á Rúv.

Ég gat ekki annað en brosað út í annað á orðavali Bjarna þegar hann lýsti atburðarás síðustu daga og vikna sem urðu til þess að Sigmundur Davíð hrökklaðist tilneyddur úr stjórnarráðinu. Framsetning Bjarna var á þá leið að Sigmundur Davíð hefði af riddaramennsku og göfuglyndi stigið stórt skref til hliðar, til þess að bregðast við ástandinu í þjóðfélaginu!

Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar, en ég er sannast sagna efins um að hún njóti nægjanlegs traust í samfélaginu til þess að skapa frið – Til þess hefðu fleiri þurft að segja af sér.  Það blasir við að myndun hennar snýst fyrst og fremst um að stjórnarflokkarnir fái lengri frest, til þess  að freista þess að koma sér úr vondri stöðu. Flest bendir til þess hins vegar að framlenging á kjánaganginum, með skattaskjólsráðherra í lykilembættum, verði þjóðinni dýrkeypt.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.4.2016 - 09:09 - FB ummæli ()

Þeir eru komnir á stóra sviðið

Ísland er í miðdepli umræðu um skattaskjól og í heimspressunni hefur útbreidd spillingin vakið eðlilega athygli.  Ef litið er til baka, þá er ljóst að það voru margir álitsgjafar stóru fjölmiðlanna sem vörðu formann Framsóknarflokksins eða kóuðu með með honum, þegar málið kom upp. Stærstu dagblöðin, háskólamenn, fyrrum hæstaréttadómari og þingmenn stjórnarliðsins lögðust í harða vörn fyrir fráfarandi forsætisráðherra, auk þess sem komið var af stað undirskriftalista sem margt grandalaust fólk ritaði nafn sitt á, til stuðnings spillingunni.

Það sem breyttist og varð til þess að varnarveggur forsætisráðherra riðlaðist, var að mál forsætisráðherra komst á stóra svið heimspressunar. Einstaka aðilar héldu þó vörninni áfram, t.d. hinn óhlutdrægi prófessor Hannes Hólmstein Gissurason, sem leitaði logandi ljósi að einhverju jákvæðu í erlendum miðlum um framgöngu æðsta ráðamanns þjóðarinnar.

Leifarnar af ríkisstjórn Íslands virðist ekki vera orðin áttuð á því að hún er komin á stóra sviðið og ætlar að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist með tvo meðlimi sem; hafa orðið uppvísir af því að vera með félög í skattskjóli, segja ekki satt og þvældust fyrir því fyrr á kjörtímabilinu að skattaskjólsgögn kæmust í hendurnar á skattyfirvöldum.

Mér finnst líklegra en hitt að það muni vekja athygli miklu víðar en á Íslandi að æðsti yfirmaður skattheimtunar í endurreistri ríkisstjórn hafi verið með félag í skattaskjóli og  sömuleiðis verið stjórnarformaður í félögum sem stýrt var í tugmilljarða gjaldþrot.

Fer ekki betur á því fyrir orðspor þjóðarinnar að fleiri taki pokann sinn en Sigmundur Davíð?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.3.2016 - 18:04 - FB ummæli ()

Til þess var leikurinn gerður

Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við að æðstu ráðamenn þjóðarinnar séu með félög í skattaskjólum. Rétt er að velta fyrir sér hvaða hvatar liggja að baki þess að Íslendingar skrái félög í Tortóla eða Seychelles-Eyjum.  Helsti hvatinn sem liggur að baki er að fela slóð peninga og komast hjá upplýsingaskyldu skattyfirvalda.   Það eru einkum 3 ástæður fyrir því að menn leggja á sig langa leið með stofnun fyrirtækja í skattaskjólum.

Í fyrsta lagi eru það þeir sem vilja koma löglega fengnu fé undan skattlagningu.  Í öðru lagi eru það þeir sem vilja koma ólöglegum feng undan yfirvöldum vegna ólöglegrar starfsemi á borð við dópsölu. Í þriðja lagi er verið að sækjast eftir því að geta lagt aukinn kostnað á löglega starfsemi, til að minnka hagnað og þar með skattgreiðslur.

A) Undanskot á löglega fengnu fé. Ástæða þess að auðmenn vilji koma löglega fengnu fé undan er yfirleitt sú að verið er að forðast að greiða skatta af hagnaði.  Lykillinn fyrir því að það gangi upp er að gefa upp kaupin á Tortólafélaginu til skatts og skrá tryggilega flutninginn á fé í félagið. Í þessu ljósi er forhert hjá stjórnarherrunum að reisa þá vörn á bak við stofnun félaga í skattaskjólum að allt hafi tryggilega verið gefið upp til skatts, til þess var leikurinn alltaf gerður.  Sjaldnast er fé geymt á Tortóla heldur á Tortólafélagið reikning í öðru landi t.d. á Bretlandi eða Lúxemborg sem eigendur félagsins nýta sér til þess að losa út fé, án nokkurs eftirlits.  Þegar búið er að tæma reikninga félagsins má einfaldlega leggja niður Tortólafélagið.  Tryggilegast er að geyma að leggja aflandsfélagið niður í 7 ár frá stofnun þess en að þeim árum liðnum, fellur niður skylda til að varðveita íslensk bókhaldsgögn. Engin hætta er á að hægt sé af afla nokkurra upplýsinga frá Tortóla um rekstur fyrirtækisins, þegar send er inn tilkynning um að „starfsemi“ félags hafi verið hætt.

B) Ólögleg starfsemi. Þeir sem stunda ólöglega starfsemi sækja sömuleiðis í þjónustu skattaskjóla og þarfnast það ekki mikilla skýringa á að slík starfsemi sæki í leyndina.

C) Búa til kostnað. Þeir sem eru með  rekstur á Íslandi, sem skilar einhverjum hagnaði, geta stofnað fyrirtæki í skattaskjóli og sent háa reikninga til Íslands, sem verður til þess að í stað þess að það myndist skattstofn á Íslandi sem hægt væri að skattleggja þá færist aukið fé í skattaskjólin. Það er vel þekkt að fyrirtæki þar sem raunveruleg starfsemi fer fram séu skuldsett og eigandi skuldanna sé fyrirtæki í skattaskjóli í eigu sama aðila. Ákveðnir eru háir vextir og þóknanir sem verða til þess að fé flyst í auknum mæli í skattaskjólin.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.3.2016 - 22:29 - FB ummæli ()

Tortólastjórnin

Nú hafa æðstu ráðamenn þjóðarinnar játað að hafa falið fé í skattaskjólum og verið meðal stórra kröfuhafa í föllnu bankana. Þeir eru einnig orðnir berir að ósannsögli og vanhæfi.

Ástæðan fyrir því að peningar eru geymdir í skattaskjólum er ekki flókin. Hún snýst ekki um; gleymsku, að vera búsettur í útlöndum, fá arf eða kaupa hús í Dúbaí. Nei hvatinn er einfaldlega að snúa á skattyfirvöld.

Flestir ættu að muna eftir því þegar formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson sá alla meinbugi á því að afla upplýsinga um undanskot íslenskra auðmannna í erlendum skattaskjólum.  Í umræðum um málið haustið 2014 lagði hann þunga áherslu á að öllum skattsvikurunum  verði gefnar fyrirfram upp allar sakir!  Ég man ekki betur en að hann hafi notið mikils skilnings hjá forsætisráðherra í málinu.  Á sama tíma og Tortólaráðherrar sáu alla meinbugi á að afla persónuupplýsinga um skattaskjólin settu þeir í snarhasti lög um hvernig afla mætti allra mögulegra persónulegra gagna um íslenska öryrkja m.a. úr læknaskýrslum og um tekjur maka þeirra, svo eitthvað sé nefnt, til þess að tryggja að ekki væri krónu ofaukið í vösum öryrkjanna.

Þessar fréttir af skattaskjólsfélögum æðstu ráðamanna koma mér ekki svo á óvart – það sem kemur óvart er hve vörn ráðamannanna og stuðningssveitar þeirra innan  þings sem utan, er heiftúðleg og ómerkileg.  Ráðist hefur verið að RÚV fyrir að flytja fréttir um málið, reynt að láta málið snúast um meintan rógburð eða þá að með umfjöllun sé verið að vega að jafnrétti kynjanna!  Það liggur við að ég kenni í brjóst um harða stuðningsmenn Tortólaráðherranna, sem halda þessa dagana uppi nauðvörn fyrir þá, á síðum blaða, netinu og á Útvarpi Sögu.  Sumir hverjir sem harðast ganga fram hafa jafnvel þurft sæta framangreindum persónunjósnum yfirvalda og undarlegt er að lesa stuðningsgrein eldriborgara við Tortólaráðherra í Morgunblaðinu, sem hafa varla efni á að kaupa blaðið í lausasölu.

Það er allra hagur að auka gagnsæi og fá á hreint hvaða hagsmuni ráðamenn eru að verja.  Þegar Bjarni Benediktsson æðsti yfirmaður allrar skattheimtu  og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar í landinu sáu alla meinbugi á því að afla gagna um skattaskjólin, þá voru þeir með sinn eigin hag í huga, en alls ekki hag þorra almennings.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur