Þriðjudagur 28.7.2015 - 23:41 - FB ummæli ()

Eygló ekki einni að kenna

Það má vel taka undir það sem Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknarflokksins segir um vinnubrögð núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra í húsnæðismálum. Ráðherrann blaðrar í sífellu um kerfisbreytingar á meðan verk hennar eru mjög ómarkviss. Afleiðingarnar eru að ekkert hefur gerst í húsnæðismálum á þeim rúmu tveimur árum sem ríkisstjórnin hefur setið annað en að hagur almennings hefur versnað, á meðan fasteignafélög nátengd fjármálafyrirtækjum hafa fitnað.

Mér finnst það þó heldur harkalegt að skella allri skuldinni á Eygló Harðardóttur eina en hún býr við þær aðstæður í ríkisstjórninni að hvorugur oddviti ríkisstjórnarflokkanna hefur nokkurn áhuga né skilning á málaflokknum.  Þeirra áherslur snúa að málefnum ríka fólksins og þess vegna vilja þeir: hækka bankabónusa, afnema auðlegðarskattinn og færa makrílinn í einkaeign örfárra fjölskyldna.

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott  þar sem enn getur sjálfshælinn forsætisráðherra státað af einu hæsta vaxtastigi í heimi og einstæðri verðtryggingu.  Háir vextir eru einu sinni langstærsti kostnaður einstaklinga við húsnæðiskaup  – Líklegast hafa flestir ráðherrar í ríkisstjórninni áttað sig á afleiðingum hárra vaxta, en þeim er bara nákvæmlega sama.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.6.2015 - 01:17 - FB ummæli ()

Verður Jón Þór Ólafsson næsti forseti?

Mikil óvissa ríkir enn um hverjir munu bjóða sig fram til forseta Íslands. Fjölda manna hefur borið á góma sem líklega frambjóðendur, en enginn hefur staðfest enn sem komið er áhuga á framboði, fyrir utan baráttumanninn Sturlu Jónsson.

Mikil pólitísk gerjun  á sér stað meðal almennings, sem birtist meðal annars í því að Píratar mælast síendurtekið í skoðanakönnunum, sem stærsti flokkur landsins.  Kjósendur vilja breytingar og sjá augljóslega á framgöngu silfurdrengjanna í hverju málinu á fætur öðru s.s. í makrílmálinu, Matorku og ráðstöfuninni á kreditkortafyrirtækinu Borgun, að ríkisstjórnin er fyrst og fremst að þjóna eigin hagsmunum og sterkustu klíku landsins. Hagur almennings er algert aukaatriði hjá stjórninni og það er einfaldlega of stutt liði frá; Icesave og  Árna-Páls-lögunum, til að fólk sé tilbúið að veðja á aðra anga fjórflokksins.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur breytt eðli forsetaembættisins og virkjað með áhrifamiklum hætti völd þess, þjóðinni til heilla. Það er kristaltært að með pírata í embætti forseta Íslands, þá myndu umdeild mál á borð við: söluna á Landsvirkjun eða gjöf á fiskistofnum í efnahagslögsögunni til örfárra, rata nær sjálfkrafa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson hefur gefið það út að hann ætli að hætta á þinginu næsta haust og liggur það því beint við að hann skoði þann möguleika að nýta þann mikla meðbyr sem píratar hafa til að vinna að hugsjónum sínum á öðrum vettvangi.

Ég gæti trúað því að það sé almennur vilji sé fyrir breytingum á forsetaembættinu í samræmi við tíðarandann, án þess að farið sé í trúðskælingar eða fíflagang.  Umræða á borð við þá sem forsætisráðherra endurtekur í sífellu um að allt sé hér á landi  það allra besta í heimi, þrátt fyrir að hann dvelji sjálfur langdvölum erlendis, er orðið vægast sagt þreytt.  Það gæti því orðið greið leið að Bessastöðum fyrir jarðbundinn einstakling sem minnkaði málskrúðið og beindi máli sínu að brýnum úrlausnarefnum sem brenna á almenningi s.s. húsnæðis- og velferðarmálum

Það myndu fylgja Jóni Þór ferskleiki á Bessastaði og víst væri að þjóðin fengi þá sjálf að leiða umdeild mál til lykta. Ég skora því á Jón Þór Ólafsson að íhuga framboð til forseta Íslands.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.6.2015 - 20:57 - FB ummæli ()

Skemmdarverk í skjóli Alþingis

Fyrir ári síðan voru samþykkt lög á Alþingi um að kvótasetja úthafsrækju. Jón Bjarnason fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafði á árinu 2010 gefið veiðarnar frjálsar í kjölfar þess að handhafar kvótans voru nánast hættir að stunda veiðar, þar sem meira var upp úr því að hafa að braska með veiðiheimildirnar en að veiða. Eftir að veiðarnar voru gefnar frjálsar hófust rækjuveiðar og -vinnsla af fullum krafti á ný og sömuleiðis raunveruleg verðmætasköpun.  Þetta fór mjög fyrir brjóstið á sterkustu klíkunni í landinu þ.e. LÍÚ.  Beitti hún  sína þingmenn í fjórflokknum og Bjartri framtíð þrýstingi til þess að setja rækjuna á ný í kvóta. Yfirvarp kvótasetningarinnar var að hún myndi auka þjóðahagslega hagkvæmni greinarinnar og bæta afkomu veiðanna. Undir þau sjónarmið tóku gervivísindamennirnir Daði Már Kristófersson og Helgi Áss Grétarson, í Háskóla Íslands. Frumvarpið rann í gegnum Alþingi, þrátt fyrir vel rökstudd andmæli stærstu rækjuverksmiðju landsins, Dögunar á Sauðárkróki. Bentu forsvarsmenn fyrirtækisins  ítrekað á að kvótasetningin væri í raun skemmdarverk gagnvart rækjuiðnaðinum, þar sem hún leiddi til afturhvarfs til  pappírskvóta sem yrði skiptimynt í braski sem tengdist alls ekki raunverulegri verðmætasköpun í landinu.

Í umsögn Dögunar til Alþingis 2. desember 2013 segir: Ef úthafsrækja verður kvótasett á ný, mun örugglega leita aftur í fyrra horf vannýttar auðlindar, sérstaklega ef úthlutað verður til gömlu kvótahafanna að verulegu leyti. Hluti kvótans mun læsast inni í kerfinu. 

 

Nú í lok fyrsta fiskveiðiárs eftir að rækjan var kvótasett á ný, er rétt að fara yfir  áhrif kvótasetningarinnar .  Staðan nú er sú samkvæmt vef fiskistofu að það er einungis búið að veiða innan við helminginn af útgefnum rækjukvóta, þrátt fyrir góð aflabrögð!  Niðurstaðan ætti því að vera augljós hverju mannsbarni; gervivísindamennirnir í Háskóla Íslands höfðu rangt fyrir sér en forsvarsmenn rækjuverksmiðjunnar Dögunar og þeir sem gagnrýndu kvótasetninguna höfðu rétt fyrir sér.   Það er umhugsunarvert að það var einungis þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson sem greiddi ekki atkvæði með kvótasetningu á rækjunni sem hefur reynst eins og spáð var fyrir um dýrkeypt skemmdarverk. Aðrir virðast hafa kokgleypt gervivísindin og þungan áróður fámennra sérhagsmunasamtaka.

Kvótasetning sjávarútvegsráðherra í dag á makrílnum snýst heldur ekki nokkurn skapaðan hlut um fiskvernd eða aukna hagkvæmni eins og látið er í veðri vaka heldur er um að ræða afhendingu á auðlind til ákveðinna aðila með ómálefnalegum hætti. Kvótasetningin á makrílnum mun örugglega hafa svipuð áhrif og í rækjunni þ.e. torvelda nýtingu og minnka verðmætasköpun.

Nú er að sjá hvort að Alþingismenn geti dregið lærdóm af nýfenginni og biturri reynslu af kvótasetningu rækjunnar?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.6.2015 - 23:07 - FB ummæli ()

Fávísi sveitamaðurinn?

Ríkisstjórnin hélt gríðarmikla skrautsýningu í dag með aðstoð MP banka. Fjölmiðlar hafa gert sýningunni góð skil en samt sem áður er eitt og annað sem ég skil bara alls ekki. Hverjar eru staðreyndir málsins?  Jú það er búið að herða gjaldeyrishöftin og búið að gefa í skyn að það sé komið á samkomulag á milli stjórnvalda og hluta kröfuhafa, á grundvelli frumvarps um sérstaka skattlagningu á þrjú fyrirtæki í slitameðferð.

Annað hefur ekki gerst eða hvað?

Það er eitt og annað sem stjórnmálamenn þurfa að útskýra betur fyrir mér saklausum sveitamanninum s.s. hvernig stendur á því að þetta muni færa ríkissjóði tekjur að ígildi vel ríflega heillra fjárlaga íslenska ríkisins. Mér finnst það of gott til að vera satt, að það algjöra hrun sem varð á fjármálamarkaði fyrir 7 árum, skuli verða síðan að gullnámu fyrir ríkissjóð Íslands – Það er bara eittthvað svo Sigmundarlegt við það allt.

Svo er ýmislegt annað sem fávísi sveitamaðurinn skilur ekki . Ég skildi vel útgönguskatt Lilju Mósesdóttur sem gekk út á stighækkandi skatt á fjárhæðir sem voru á leið úr landi – einfalt og gott – stóðst örugglega jafnræðisreglu.  Ég á erfitt með að sjá að nýi skattstofninn samkvæmt frumvarpinu standist almenna jafnræðisreglu og 77 gr. stjórnarskrárinnar, þarna er settur sértækur eftir á skattur á einungis þrjú fyrirtæki, en ekki á MP banka frekar en fyrri daginn.

Eftir að hafa rennt í gegnum götótta frumvarpið sem frumsýnt var í dag þá hef ég efasemdir um að það verði til þess að hræða eigendur þrotabúa til samninga – miklu frekar væri það hertu gjaldeyrishöftin en hingað til hafa kröfuhafarnir verið afar vel haldnir af háum vöxtum stjórnvalda, sem þeir hafa getað flutt úr landi að vild.

Það er svoldið furðulegt að allir stjórnmálamenn og skýrendur sem fjalla um málið virðast skilja það upp á 10, en ég og allir sem ég hef talað við eru eitt spurningamerki um flesta þætti málsins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.5.2015 - 12:29 - FB ummæli ()

Vorfiðringur í Hannesi Hólmsteini

Það er gaman að sjá á skrifum Hannesar Hólmsteins í Mogganum í dag að það er kominn á ný gamalkunnur vorfiðringur í einn skemmtilegasta prófessor landsins. Í aðdraganda hrunsins boðaði hann glaður í bragði, að landsmenn, en þó aðallega Sjálfstæðismenn, ættu og væru að græða á daginn og grilla á kvöldin.

Í dag boðar prófessorinn að þjóðin verði að standa vörð um kvótakerfið, sem hann segir það hagkvæmasta í heimi, og jafnar uppgötvun þess við afrek Leifs heppna! Helstu rök prófessorsins eru að vitna stuttlega í spekingana Karl Marx og John Locke, en fyrst og fremst styðst hann þó við liðlega 60 ára gamalt, einfalt og barnalegt línurit. Reynslan af íslenska kvótakerfinu sýnir einfaldlega, svo að ekki verður um villst, að kerfið og forsendur þess ganga alls ekki upp.  Þorskaflinn er um helmingurinn af því sem hann var fyrir daga kerfisins, enda ljóst að vöxtur og viðgangur fiskistofna á risastóru hafsvæði fylgir alls ekki fyrirframgefnum forsendum, með ágiskuðum föstum stuðlum um vöxt og afföll. Óvissan, sem felst í því að aflaheimildir geta horfið frá byggðarlögum eins og hendi sé veifað, dregur síðan sjálfkrafa máttinn úr sjávarbyggðunum og má sjá glögg merki þess  á stöðum sem hafa eins og er yfir miklum veiðiheimildum að ráða, eins og t.d. Vestmannaeyjar

Í allri gleðinni yfir íslenska kvótakerfinu dregur Hannes upp skuggalega mynd af fiskveiðum í heiminum og segir þær á öðrum stöðum en á Íslandi vera reknar með stórkostlegu tapi! Hér ber grillkappið skynsemina ofurliði – það er miklu frekar hægt að sjá samhengi hlutanna í því að með auknu frelsi í sjávarútvegi, líkt og í Noregi, blómgast greinin, en hnignar með ofstjórn og höftum líkt og hér á landi og í Evrópusambandinu.

Eitthvað las Hannes Hólmsteinn í hungrinu eftir grillsumrinu vitlaust í allan gróðann rétt fyrir hrun, en hann reyndist, eins og við flest vitum, fyrst og fremst byggjast á skuldasöfnun og óráðsíu.  Sama virðist vera uppi á teningnum með einlæga hrifningu hans á kvótakerfinu.

Það færi svo sannarlega betur á því að einlægir frjálshyggjumenn beittu sér fyrir að hætt verði að gefa út ríkisverð á fiski og hráefnið verði þess stað verðlagt á frjálsum markaði. Frjálshyggjumenn ættu sömuleiðis að vinda ofan af flóknu regluverki í sjávarútvegi og vera í fylkingarbrjósti baráttu fyrir frjálsum handfæraveiðum smábáta, en ekki nokkur lifandi leið er að ofveiða fiskistofna með krókum.

Það fer ekki frjálshyggjumanninum Hannesi Hólmsteini að berjast fyrir atvinnuhöftum – miklu nær væri að sjá hann í baráttu fyrir því að sjómenn,  hringinn í kringum landið, væru frjálsari við að róa á daginn og grilla á kvöldin.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.5.2015 - 22:06 - FB ummæli ()

Grobb og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna

Helstu rök þeirra sem enn mæla bót óbreyttu kvótakerfi í sjávarútvegi, er meint hagkvæmni  sem kerfið er sagt leiða af sér. Þjóðinni eru fluttar miklar grobbsögur um yfirburði hins séríslenska kerfis umfram öll önnur kerfi í heiminum.  Á grundvelli ýkjusagnanna er þjóðinni sagt að sætta sig við; óréttlæti kerfisins, einokunina í greininni og að heilu byggðalögin séu nánast lögð í eyði.

Fjölmiðlar og meira og minna kostaðir „fræðimenn“ hafa margir hverjir ausið vitleysunni yfir þjóðina.  Það er gert þrátt fyrir að þær staðreyndir blasi við að þorskaflinn nú sé helmingurinn af því sem hann var fyrir daga kvótans og að íslenskur fiskur standi höllum fæti á erlendum mörkuðum.

SFS (LÍÚ) fullyrðir  gjarnan að ein af dásemdum kvótakerfisins sé að það hafi leitt til hærra aflaverðmætis, en áður þekktist!  Við félagarnir Erling Ingvason  í Norðurlandsdeild Dögunar töldum allar líkur á því að nærtækasta skýringin á að hærra verð fengist fyrir fisk nú en fyrir tveimur áratugum, væri fyrst og fremst að leita í hærra heimsmarkaðsverð á fiski, auk þess sem meira væri flutt út af ferskum afurðum en áður tíðkaðist.

Það tók okkur ekki langan tíma í grúski á netinu að fá það staðfest frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna FAO, að skýringanna á hærra afurðaverði væri fyrst og fremst að leita í hækkuðu heimsmarkaðsverði.   Vonandi fara fleiri fréttamenn í auknum mæli að setja spurningamerki við skrök- og ýkjusögur SFS (LÍÚ), áður en skrúfað er frá krana áróðurs fámennra en auðugra hagsmunasamtaka.

Sannleikurinn er sagna bestur.

 

FAO verð uppl Stór

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.5.2015 - 16:50 - FB ummæli ()

Til hamingju sjálfstæðismenn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kyrjar nú þann söng að horfa eigi til Norðurlandanna við úrlausn kjaradeilna  og undir það taka minni spámenn flokksins. Fyllilega er hægt að taka undir kúvendingu Sjálfstæðisflokksins og á þá málshátturinn „batnandi mönnum er best að lifa“ vel við.  Flokkurinn hlýtur  þá að meina að við tökum upp norrænu leiðina á fleiri sviðum sem snúa að kjörum vinnandi fólks þessa lands, eða hvað?

Það hljóta að liggja undir þættir sem snúa að vaxtakjörum almennings, afnámi verðtryggingar og afnámi fákeppni.  Er Sjálfstæðisflokkurinn loksins tilbúinn til að fara leið Norðmanna,  sem búa við álíka verðmætar náttúruauðlindir og við Íslendingar, og láta almenning njóta þeirra, í stað þess að útdeila auðlindum til nokkurra fjölskyldna?  Norðmenn útdeildu ekki megninu af olíunni á nokkrar fjölskyldur  líkt og Sjálfstæðisflokkurinn vill gera með makrílinn og aðra fiskistofna við Ísland.

Ólíkt því sem gerist á Íslandi þá eru á Norðurlöndunum gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta og skólakerfin vel fjármögnuð. Og jú launin – þau eru allt að tvöfalt  hærri þar líka!

Það er því ekki hægt annað en að samgleðjast sjálfstæðisfólki með algeran viðsnúning á hugsanahætti.  Það er afar ólíklegt að launþegar landsins séu ekki til í að semja um kaup og kjör ef þetta er leiðin sem Bjarni,  og fleiri góðir og gegnir sjálfstæðismenn, vilja fara.  Það munu án vafa margir vilja fara þessa leið með þeim.  Til hamingju með viðsnúninginn kæru sjálfstæðismenn.

Ekki er nokkur leið að trúa því að fjármálaráherra sé einungis að biðja fólk um að sætta sig við mjög léleg laun, eða hvað?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.5.2015 - 23:48 - FB ummæli ()

Auðjöfrar með sérþarfir

Eftir að hafa fylgst með fjölmörgum viðtölum við sjávarútvegsráðherra, þá hefur megin stef þeirra verið að það þurfi að tryggja auðmönnum í útgerð sérstakan stuðning og fyrirsjáanleika.

Sérstakir stuðningsfulltrúar auðmanna í ríkisstjórn silfurskeiðabandalagsins virðast vita að skjólstæðingar þeirra geta ekki rekið fyrirtæki í eðlilegum samkeppnisrekstri.  Þeir þurfa því „fyrirsjáanleika“ og vernd sem er algerlega óþekktur innan annarra atvinnugreina.  Flugfélög þurfa að fara í gríðarlegar fjárfestingar, þó er ekki eitt flugfélag í heiminum sem hefur 6 ára „fyrirsjáanleika“.  Þeir sem malbika vegi svo dæmi sé tekið þurfa að kaupa malbikunarvélar og ýmis tæki.  Ekkert slíkt fyrirtæki fær úthlutað verkefnum án útboðs til sex ára, sem framlengist síðan sjálfkrafa um önnur sex ár ef samningi er ekki sagt upp. Ríkisstjórnin vill engu að síður gefa auðmönnum í útgerð kost á að koma sér út úr vernduðu umhverfi  og aðlagast, með því að heimila þeim að selja eigur almennings, án sérstakrar skattlagningar.  Allt er það gert svo  þeir geti skapað sér skilyrði til að aðlagast eðlilegu lífi og tekið virkan þátt í samfélaginu.

Það er svo sem skiljanlegt að auðjöfrar í sjávarútvegi hræðist samkeppnina, hún hefur ekki reynst þeim vel.  Hvort sem það var pizzusala, bankarekstur eða bílainnflutningur, þá fór það á hausinn svo annað eins hefur varla sést á byggðu bóli.  Þar vantaði sex ára fyrirsjáanleika.  Kannski eru þetta ekki eins
góðir bisnessmenn og af er látið?  Amk virðast allar aðrar atvinnugreinar fjáfesta og reka sig án slíkrar einokunar. Sé þessi „fyrirsjáanleiki“ nauðsynlegur í Makrílveiðum þá hlýtur hann að vera nákvæmlega jafn nauðsynlegur í öðrum veiðum og öðru því sem þeir kunna að taka sér fyrir hendur.  Það kostar líka að sækja aðrar fisktegundir.  Varla kemur þessi lagasetning í veg fyrir duttlunga náttúrunnar?

Nei skilningsríkt stuðningsnet auðmannanna í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun örugglega  sjá að það þurfi tryggja þeim enn frekari vernd og færa þeim því allar  aðrar fisktegundir  á Íslandsmiðum til einkaafnota þannig að þorskur, ýsa, humar, rækja, síld og loðna verði í þeim til stuðnings en ekki þjóðinni.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.4.2015 - 18:24 - FB ummæli ()

Vindahani í Eyjum

Frjálshyggjumaðurinn Elliði Vignisson var um árabil  harðasti talsmaður algerlega frjáls framsals á veiðiheimildum. Bæjarstjórinn í Eyjum gekk þá hart fram og sagði þá, sem efuðust um dásemd þess að svipta heilu landshlutana veiðiheimildum, vera kommúnista. Fyrir nokkrum árum gerðist það sem var fyrirséð, þ.e. bæjarstjórinn fékk að bragða á eigin meðali þegar aflaheimildir fóru að týnast frá Eyjum. Í kjölfarið snéri Elliði við blaðinu og áréttaði nauðsyn þess að tryggja öryggi og rétt sjávarbyggðanna til aflaheimilda!

Bloggskrif Elliða í dag þar sem hann vitnar í umdeilt álit Umboðsmanns Alþingis um að Jón Bjarnason hafi ekki staðið rétt að skiptingu makrílkvótans, bera það með sér að hann hafi enn og aftur skipt um skoðun. Í skrifunum rukkar hann sjávarútvegsráðherra um makrílfrumvarpið sem gerir kvótann söluvænan og opnar á þann möguleika að hann verði allur seldur frá Eyjum einn góðan veðurdag.  Ekki nóg með það, heldur er farið fram á að strandveiðiflotinn í byggðunum hringinn í kringum landið fái ekki heimild til þess að nýta auðlindina.

En hvað með álit Umboðsmanns  Alþingis? Það er ljóst að eftir að Jón Bjarnason var hrakinn úr sjávarútvegsráðuneytinu af Steingrími J. Sigfússyni hefur ekki verið neinn vilji hjá stjórnvöldum til þess að verja sjónarmið önnur en þau sem þjóna ýtrustu kröfum örfárra stórútgerða.  Það er einfaldlega svo að það er auðvelt að vinna mál þar sem enginn tekur til varna.

Það er löngu orðið tímabært að Elliði staldri við og hugleiði hvaða sýn hann hefur á stjórn fiskveiða.  Hann segist vera „hægrimaður“, en er samt sem áður á móti því að fiskur verði verðlagður á frjálsum markaði.  Í gegnum tilviljanakennda röksemdafærslu, þar sem ýmist er gripið til byggðasjónarmiða eða óhefts framsals veiðiheimilda landshorna á milli, virðist markmiðið ekki vera að ganga erinda sjómanna í Eyjum, heldur einungis að gæta hagsmuna eins eða tveggja útgerðarmanna í plássinu.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.4.2015 - 13:17 - FB ummæli ()

Stefnir í ólög á verkföll?

Margt bendir til þess að ríkisstjórnin stefni beinlínis að því að setja lög á kjaradeilur.

Í fyrsta lagi þá eiga sér engar alvöru viðræður sér stað á milli deiluaðila.

Í öðru lagi þá tekur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þátt í þeim ljóta leik að ýkja kröfur launafólks.  Ég held að í þessu sambandi sé rétt að hugleiða að krafan um 300 þúsund króna lágmarkslaun þýðir að launamaður fái í sinn vasa árið 2018, samkvæmt mínum útreikningum um 215.200 krónur, þegar búið er að taka af skatta og gjöld í lífeyrissjóði. (laun 300 þús. plús orlof 330.510 – félagsgjöld og lífeyrissjóður 16.525 og skattur 68.000 og orlof 30.510 = útborgað 215 þúsund krónur). Það er þreytandi fyrir launafólk að það sé verið að flagga einhverjum heildarlaunum á borð við 300 þúsund krónur sem er langt frá því að vera sú upphæð sem fólk fær í vasann.

Í þriðja lagi þá er það harla ólíklegt að forsíðuviðtalið við Pétur Blöndal í Mogganum þar sem hann ræðst gegn verkfallsréttinum, sé einhver tilviljun. Formaður fjárlaganefndar Alþingis og fleiri áhrifamenn ríkisstjórnarflokkanna gera síðan góðan róm að tillögum Péturs og er það eflaust gert til þess að búa til réttu stemninguna fyrir lagasetningu.

Auðvitað er það stórmerkilegt að á meðan ráðamenn halda því blákalt fram að allt fari hér á hliðina  við að lægstu útborguð laun verði árið 2018, rúmlega 215 þúsund krónur, sé verið á sama tíma að færa ríkasta fólkinu makrílkvóta sem meta má á tugi milljarða króna!

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur